09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er ekki ástæða til þess að deila um, hvort það sé orðin almenn regla að heimta bankatryggingu; ég hafði mín ummæli eftir bönkunum og geri ráð fyrir, að þau séu rétt. Hitt, sem hv. þm. sagði um kolin, er rétt, og mér er kunnugt um einstakar kröfur, sem komið hafa fram um bankatryggingu. Það lítur út fyrir, að um kolin séu samtök í Englandi. En um þetta er hægt að fá nánari upplýsingar hjá bönkunum.

Þá sagði hv. þm., að ríkisstj. hefði keypt 1½ millj. kr. af olíufélögunum, og var mjög hneykslaður yfir því, að það ætti að greiðast í pundum. Þessu er þannig varið, að ríkisstj. hefir samþ., að skuldaskilasjóður vélbátaeigenda tæki þetta fé að láni á þeim grundvelli að greiða það aftur í pundum á fleiri árum. Er þetta nákvæmlega hliðstætt því að taka erlent lán, þar sem þetta er fé, sem félögin áttu að vera búin að fá yfirfært, og frá sjónarmiði lántakanda er aðstaðan alveg hin sama.

Um endanlega lausn málsins hefi ég ekki tekið fullnaðarafstöðu, en aðeins lent á, að ég gæti sætt mig við, að samþ. yrðu l., sem heimiluðu að veita útgerðarmönnum rétt til að ráðstafa nokkru af sínum gjaldeyri eftir því, sem frv. fer fram á. Vil ég skjóta því til n., sem fer með málið, að ég vildi gjarnan koma á fund til hennar jafnhliða mönnum frá bönkunum og gjaldeyrisnefnd.