09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Ég veitti því athygli í ræðu hæstv. fjmrh., að hann sagði, að greiðsla á þeirri olíu, sem flyttist til landsins, yrði tryggð þeim, sem hana selja. (Fjmrh.: Eitthvað af henni). Ætli hún sé þá ekki öll tryggð? Það er þá í samræmi við tilgátu mínu.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að þeir atburðir, sem hér hafa skeð viðvíkjandi lántöku skuldaskilasjóðs, séu ekki óvenjulegir, en hér sé aðeins um að ræða lán, sem ríkisstj. taki fyrir hönd skuldaskilasjóðs, sem hafi verið tekin í pundum. En svo er alls ekki. Ef lán hefði verið tekið erlendis, þá hefði það verið tekið í pundum. En í stað þess eru hér tekin lán í ísl. krónum, en eiga að greiðast í pundum. Þau eru tekin í ísl. krónum af fé, sem er hér innifrosið. Hér er því ekki um að ræða neitt svipaðar lántökur öðrum og venjulegum lántökum, þegar lánsféð er greitt okkur í erlendri mynt. Því að þessir innifrosnu peningar væru að öðrum kosti háðir verðsveiflum íslenzkrar krónu. Það er fullkomið öryggisleysi um það, hvaða verð verður á ísl. krónu að ári um þetta leyti. Það er ekki víst, að 22,15 kr. jafngildi pundi þá, hvað þá heldur allan lánstímann. Og falli krónan í verði, þá er ekkert amalegt fyrir olíufélögin að hafa fengið ríkisstj. til að ábyrgjast sér fast verð í pundum á því fé, sem þau áttu hér frosið inni, sem jafngilda nú 1½ millj. ísl. króna. Ég fullyrði, að sá aðili, sem hefði ætlað að taka lán hjá þeim, sem fé eiga hér innifrosið, í íslenzkum krónum, og hefði boðið það út með þeim skilmálum, að lánið yrði greitt með jöfnum afborgunum í pundum á 15 árum með núv. gengi ísl. kr., — ég fullyrði, að sá aðili hefði getað komizt að alveg einstaklega hagkvæmum kjörum. Því að þeir, sem eiga hér peninga, sem þeir geta ekki nú fengið greidda út, þeir vita, að þessir peningar þeirra eru í mikilli hættu. Og þeir hefðu því viljað vinna það til, ef þess hefði verið kostur, að veita mjög hagkvæm og góð lánskjör, og auk þess áreiðanlega líka önnur fríðindi, ef þeir með því hefðu getað tryggt sér gullgildi sinnar innstæðu. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þeir aðiljar, sem eiga hér innifrosna peninga, hafa átt þess kost yfirleitt að gera tilboð um hin slík sem þessi, eða hvort þessur lántökur eru gerðar í laumi og pukri eingöngu við olíusalana hér, sem eru umboðsmenn hinna erlendu olíufélaga. Hafi þetta verið gert í pukri sem einkamáli á milli olíusalanna og ríkisstj., þá verður ekki komizt hjá því, að ríkisstj. sæti aðfinnslum og vítum fyrir það.

Ef nú hinsvegar hæstv. ráðh. vill telja, að hér sé um venjulegar erlendur lántökur að ræða, þá langar mig til að spyrja hann um það, hvort hann telji, að ríkisstj. sé heimilt að taka erlend lán eins og sakir standa, samkv. þeim yfirlýsingum eða skuldbindingum, sem hann sjálfur gaf í sambandi við lántökuna í London haustið 1931. Ég man satt að segja ekki nú alveg á stundinni, hvað af yfirlýsingunni í sambandi við þá lántöku átti að fara með leynd og hvað mátti gera heyrinkunnugt, og þess vegna fer ég ekki lengra út í þá yfirlýsingu hér, því að ég óska ekki eftir að fara að rjúfa nein þagnarheit. En eitthvað af þeirri yfirlýsingu átti að fara leynt.

Vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann telji, að þessar lántökur, ef þær eru skoðaðar sem greiddar í pundum í venjulegum kringumstæðum, séu heimilar samkv. þeim skuldbindingum, sem hann gaf í sambandi við enska lánið 1934.