09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Ég ætlaði ekki, þó að ég sé 2. flm. þessa frv., að taka til máls við þessa umr. En umr. hafa nú snúizt inn á mjög einkennilegt efni, sem mér kom dálítið á óvart að væri fyrir hendi, og þess vegna kvaddi ég mér hljóðs.

Fyrir örfáum dögum kom til mitt maður sem talsmaður nokkurra útgerðarmanna og spurði, hvort sjútvn. þessarar d. gæti ekki haft þau áhrif, að þessir menn fengju að kaupa olíu til útgerðar sinnar, þannig að þeir fengju yfirfærslu á fé til þess. Ég gat nú ekki lofað honum neinn um það, en spurði hann bara, hvort þeir hefðu reynt það. Kvað hann svo vera, en að það hefði orðið árangurslaust. Í gær kom annar maður til mín til að bera upp fyrir mér sömu vandræðin, að nokkrir útgerðarmenn hefðu ætlað að fá flutt inn dálítið af smurningsolíu til útgerðar sinnar. Þeir höfðu beðið um leyfi til að flytja inn 100 –200 tunnur af smurningsolíu fyrir næstu vertíð á undan og gengið greiðlega. En nú var þeim þverneitað um yfirfærslu í þessu skyni. Af þessum ástæðum m. a. þykir mér ákaflega undarlegt að heyra það, að olíufélögin, sem hér hafa umboðsmenn og verzlun, hafi fengið tryggðar yfirfærslur fyrir sig til þess að selja okkur olíu við því verði, sem við þekkjum flestir, hvað er sanngjarnt. En útgerðarmönnum er sjálfum neitað harðlega um að fá að kaupa olíu til sinnar eigin útgerðar.

Í sambandi við þetta kemur svo þessi merkilegi hlutur í ljós, að olíufélögin, sem eiga hér innifrosna peninga, hafa verið leyst úr þeim vanda með aðstoð ríkisstj. Það er sýnt, að hér hefir verið tekið lán í ísl. kr. með skuldbindingu um að greiða það í pundum. Þetta eru kjör, sem munu vera alveg óþekkt nema í þessu eina tilfelli.

Einmitt af því að þetta kemur upp, meðan verið er að tala um frv. okkar hv. þm. G.-K. um að leyfa útgerðarmönnum að nota af sínum eigin erlenda gjaldeyri það, sem þeir þurfa til innkaupa á útgerðarvörum, og þar með olíu, kemur mér þetta enn einkennilegra fyrir, að þessi auðfélög tvö fái hér þessi alveg sérstöku hlunnindi, en þeir, sem berjast fyrir því að framleiða útflutningsvörur, fá ekki gjaldeyri til kaupa á vörum til framleiðslunnar. Ég hygg, að ekki væri úr vegi, að hæstv. Alþ. athugaði gaumgæfilega, hvort ekki þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að þeir menn, sem framleiða gjaldeyrisvörurnar, fái að njóta einhvers réttar, en að ekki sé níðzt á þeim til framdráttar þeim, sem selja hér innflutta vöru með geysimiklum hagnaði.