01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um aðalatriði þessa máls, sjálft frv. og þær höfuðbrtt., sem frá n. hafa komið. Ég er þar mjög sammála hv. 1. landsk., sem gerði í gær grein fyrir sínum ágreiningi í n., og þarf ég litlu við að bæta hans rök í því efni.

Ég er ekki farinn að skilja það ennþá, þó að hæstv. fjmrh. haldi því fram, að með þessari lagasetningu sé nokkurri ábyrgð létt af bönkunum og öðrum viðskiptamönnum útvegsmanna. Ég skil ekki, hvernig á að ná þeim tilgangi með þessu frv. Skal ég ekki að svo komnu fara frekar orðum um það.

En mig langar til að vekja athygli á brtt. hv. þm. Vestm. á þskj. 271 frá sjónarmiði, sem ekki hefir verið tekið til athugunar undir umr. um þetta mál, en vert er að líta á.

Það má kannske segja, að almennum gjaldeyrisráðstöfunum í landinu stafi ekki mikil hætta af þessari undanþágu viðvíkjandi kolum, salti og olíu. En ef á að hnýta þar við samskonar ákvæðum viðvíkjandi veiðarfærum, þá verður öðru máli að gegna. Kola, salts og olíu er ekki hægt að afla hér á landi. En um veiðarfæri gegnir allt öðru máli, því að mikill hluti af þeim er búinn til hér á landi, og má áreiðanlega meira af þeim búa hér til en gert er. Það vita allir, að hér eru spunnar fiskilínur. Þá eru og til hér verksmiðjur, sem geta framleitt allt, sem þarf til botnvörpuveiða landsmanna. Hér eru búnir til hlerar, hnýtt net, búnir til lóðarbelgir og fleira af þessu tægi. Ef útgerðarmönnum væri nú gefinn laus taumurinn um veiðarfærakaup frá útlöndum, þá efast ég ekki um það, að þeir mundu margir hverjir verða tilneyddir af erfiðum kringumstæðum að kaupa kannske ódýrari vörur af þessu tægi frá útlöndum, en lélegri heldur en góð íslenzk veiðarfæri. Það hefir verið sagt, að ýmsar veiðarfæravörur, sem búnar eru til hér á landi, séu mun betri en hliðstæðar erlendar vörur, a. m. k. sumar þeirra, og þar af leiðandi verða þær örlítið dýrari en þær ódýrustu hliðstæðar vörur frá útlöndum. Ég átti í deilum við hv. þm. Vestm. í fyrra um það, hvort rétt væri að vernda þennan vísi að innlendum iðnaði, veiðarfæragerð, með 5% tolli. Hann taldi slíkt ógerlegt. Og það varð úr, að samþ. var að fella þennan toll niður, þannig að þessi ungi iðnaður okkar er algerlega varnarlaus gegn erlendum keppinautum. Ég tel því í fyllsta máta varhugavert að sleppa algerlega lausum undan öllu kontroli kaupum útgerðarmanna á þessum vörum, þannig að ekki sé beint a. m. k. að einhverju leyti kaupum á þessum vörum til innlendra framleiðenda þessara hluta. Allir vita, hve bágar gjaldeyrisástæður eru nú hjá okkur og að erlendur gjaldeyrir sparast með því að kaupa fremur innlenda framleiðslu í þessu efni. Og þó að kannske náist í bili vafasamur augnablikshagnaður með því að kaupa erlenda framleiðslu af þessum vörum örfáum % ódýrari heldur en innlenda,þá álít ég, að það eigi alls ekki að fara algerlega kontrollaust í gegn, heldur eigi slíkt að vera undir eftirliti innflutnings- og gjaldeyrisnefndar eða annars aðilja, sem hafi um það að segja, hvort ástæða sé til að fara með kaup þau út úr landinu, sem eins vel er hægt að gera innanlands. — Þetta viðhorf í málinu hefir ekki fyrr komið fram við umr. En þetta atriði þarf að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar. áður en brtt. hv. þm. Vestm. er samþ.

Um aðrar brtt. við frv. skal ég ekki ræða nú. Þær hafa þegar verið ræddar allmikið, og hefi ég þar engu við að bæta. En ég vænti þess, að hv. þdm. taki málið til athugunar einnig frá þessu sjónarmiði, sem ég hafi gert að umtalsefni, áður en gengið verður til atkv. um brtt. hv. þm. Vestm., sem ég vona, að verði ekki samþ.