01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Hannes Jónsson:

Inn í þessar umr. hafa blandazt gengismálin. Það er raunar ekkert undarlegt. Í þessu frv., sem fyrir liggur, og þeim brtt., sem ræddar hafa verið, felst ekkert annað en sú þörf þessa atvinnuvegar til að hafa umráð yfir einhverjum litlum hluta þess gjaldeyris, sem hann lætur þjóðinni í té og þjóðin verður að flýja til með gjaldeyrisþörf sína. Ég ætla ekki að blanda hér inn í þessar umr. umr. um gengismálin, en ég vænti þess, að þeir menn, sem sjá, í hvert öngþveiti komið er í þeim málum, sjái sóma sinn í því að flýta afgreiðslu þess frv., sem fyrir þinginu liggur um þetta mál. Mér finnst, að það hafi í þessum umr. komið fram misskilningur á frv. sjálfu og þeim tilgangi, sem í því felst. En tilgangurinn skilst mér vera sá, og enginn annar en að útvegsmenn fái leyfi til að ráðstafa gjaldeyri sínum til greiðslu á þeim vörum, sem þeir hafa leyfi til að flytja inn, án þess að það þurfi að ganga gegnum bankana. Ég álít, að þó að þessi brtt. verði samþ., þá sé engin hætta á, að gengið verði framhjá innlendu framleiðslunni, sem er samkeppnisfær við erlendu vöruna, eða að þetta verði misnotað á nokkurn hátt. Ég álít hér ekkert gert annað en það, sem sjálfsagt er, að uppfylla sjálfsögðustu kröfur útvegsmanna, og mun því greiða atkv. með brtt. Af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, mátti ráða, í hvert óefni er komið öllum fjármálum þjóðarinnar eins og þau hafa verið rekin, eru rekin þann dag í dag og líkindi eru til, að þau verði rekin enn um sinn. Það er sennilega ekki annars að vænta fyrir þá menn, sem einhver peningaráð hafa, heldur en algers hruns, nema því aðeins, að þeir rísi upp og hrifsi völdin yfir sinni eigin framleiðsluvöru í sínar hendur.