03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki mörgu að svara hv. þm. G.-K. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að hann hefði hótað að lækka olíuverðið. Ég hefi aldrei sagt það hér í d., og vil ég í því tilefni vitna til hv. deildarmanna. Ég sagði, að hv. þm. G.-K. hefði stundum hótanir í frammi, en þær væru venjulega markleysa. Ég sagði, að hann væri nú með gullin loforð, en því miður væru þau sama markleysan og hótanir hans. Hann þykist t. d. geta selt olíu á 13 aura kg., þar sem olíufélögin selja hana á 17 aura. Ég verð nú að segja, að ef allt er reiknað, sem á vöruna hlýtur að falla, og hinsvegar afsláttur olíufélaganna, þá verður ekki um neina lækkun að ræða, svo að loforð hv. þm. eru líka að þessu sinni tómt munnfleipur.

Hann sagði, að það kæmi ekki til mála, að Kveldúlfur eða Alliance hefðu gagn af þessari till. fjhn. Nú er það upplýst, að smáútvegurinn hefir ekki gagn af henni, — og hver hefir það þá?

Hv. þm. vítti mig fyrir að hafa greitt atkv. með hv. 2. þm. Reykv. í bankaráð Landsbankans. Sagði hann, að ég hefði greitt þannig atkv. til þess að tryggja, að hann gæti útvegað olíufélögum þeim, er hann stjórnar, gjaldeyri. Nú játa ég, að slíkt hefði verið vítavert, ef gert hefði verið í þessum tilgangi. En þó að hann vilji niðra okkur bankanefndarmönnum Alþfl. fyrir að hafa Héðin Valdimarsson í kjöri, þá get ég fullyrt, að hv. þm. G.-K. hefði ekki klígjað við að kjósa Héðin Valdimarsson í bankaráðið, ef hann hefði með því getað dregið nokkuð úr því stóra hneyksli, að hann komst sjálfur í bankaráðið.

Hv. þm. talaði um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Sjútvn. hefir haft málið til meðferðar og hefir sent það fjhn., sem hv. þm. situr sjálfur í. Meiri hl. n. þykist ekki geta lagt til, að frv. nái fram að ganga. En frá minni hl., hv. þm. G.-K., hefir engin umsögn komið. Þó má gera ráð fyrir, að hann vilji láta málið ná framgangi. Frá fjvn., sem 4 sjálfstæðismenn sitja í, hefir heldur engin umsögn komið. Það er því ekki sjútvn., sem tefur málið hér á þingi, heldur sjálfstæðismennirnir í fjvn.

Þá vil ég víkja lítilsháttar að þeim ásökunum, sem hv. þm. G.-K. bar mér á brýn í sambandi við Samvinnufélag Ísfirðinga. Hann lýsti fjárhag félagsins þannig, að það ætti eignir fyrir 200–300 þús. kr., en skuldaði um 800 þús. kr. Gamalt máltæki eitt segir, að fáir ljúgi meira en helmingi, en þó nægir hv. þm. G.-K. þetta sjaldnast. Eignir félagsins eru metnar á 637535 kr. af eiðsvörnum matsmönnum skuldaskilasjóðs. Nú eru skuldir félagsins 779 þús. kr. Skuldar það því umfram eignir ca. 141500 kr. Nú hefi ég engan þátt átt í þessu mati, og ég vil geta þess, að reikningsmat félagsins sjálfs á eignum sínum er um 60 þús. kr. lægra en mat skuldaskilasjóðs. Sé gengið út frá því, að mat skuldaskilasjóðs sé í lagi, eða jafnvel þó að dregnar væru frá 60 þús. kr., þá væru skuldir félagsins umfram eignir ekki nema ca. 200 þús. kr. Nú er félag þetta ekki atvinnutæki mitt, heldur nokkurra hundr. verkamanna og sjómanna. Fyrirtækið er ekki mitt að öðru leyti en því, að ég ber ennþá eins og ég hefi borið frá byrjun að sjálfsögðu persónulega ábyrgð á skuldbindingum þess, hlutfallslega á við aðra félagsmenn. Það er því tilhæfulaust, að ég hafi reynt að koma mér undan skuldbindingum og böggum, sem af þessum félagsskap leiðir. Ég þykist vita, að hv. þm. muni með aðdróttunum sínum eiga við fyrirkomulagsbreytingu, sem gerð var á félaginu og notuð hefir verið af andstæðingum Alþfl. til að kasta rýrð á ýmsa, er að þessu stóðu. En þessi breyt. var á þann veg, að nokkrir félagsmenn slógu sér saman í upphafi um að eignast báta félagsins. En það kom fljótt í ljós, að ekki var hægt að reka útgerðina, nema reksturinn væri sameiginlegur og eignarréttur skipanna þá einnig. Sérstaklega varð ágreiningur um það, hvort ætti að halda úti bátunum, þegar úthaldið borguði sig miður. Til þess að koma í veg fyrir þetta tekur svo félagið bátana að sér sem sína eign.

Ýmsir, sem þessu báta höfðu átt, höfðu tekið lán í peningastofnunum upp á framlög sín í bátunum. Þeir gátu því ekki sleppt sinni eign í bátunum án þess að fá nokkuð í staðinn. Því fengu þeir veðrétt í bátunum fyrir eigninni, sem þeir höfðu átt í þeim, að sínum hluta, en allir halda þeir áfram að vera ábyrgir fyrir skuldbindingum félagsins.

Ég ætla nú, að þó að hv. þm. G.-K. hafi flutt þetta mál eftir röngum upplýsingum og með allmiklum ofsa, þá sættist hann þó á, að hann hafi haft rangt fyrir sér, þegar ég nú upplýsi hið rétta. Nú hefir þessi saga hans mjög oft verið sögð í blöðum íhaldsmanna, og hefi ég ekki fundið ástæðu ti1 að skipta mér af því. Ég er því vanur, að bornar séu á mig ýmsar sakir, ýmist stærri eða smærri en þessar, og ég kæri mig yfirleitt ekki um að svara slíkum áburði. Það hefir verið borið svo mikið á mig af þesskonar sögum, að ég hefi ekki viljað eyða tíma í meiðyrðamál út af þeim.

Eftir mati skuldaskilasjóðs skuldar þetta mikla atvinnufyrirtæki. Samvinnufélag Ísfirðinga, sem á 3. hundrað sjómenn og verkamenn eru þátttakendur í, umfram eignir svipaða upphæð og hv. þm. G.-K. einn skuldar Kveldúlfi, hafandi haft fimm- og sexfaldar eða jafnvel tífaldar verkamannstekjur umfram það, sem hann fær lánað hjá Kveldúlfi á hverju ári. Þessi hv. þm. lýsti yfir því í vetur, að þessi skuld hans væri óveðtryggð, eins og skuldir Kveldúlfs við bankana eru óveðtryggðar. Hann sagði sjálfur, að það væri ekkert undarlegt, þótt atvinnufyrirtæki væru skuldug. Hann ætti því ekki að vera að býsnast yfir skuldum Samvinnufélags Ísfirðinga, sízt þegar þess er gætt, að það skuldar ekki meira en Ólafur Thors einn skuldar fyrir óveðtryggðan eyðslueyri hjá h/f Kveldúlfi.

Ég átti að vera mættur á fundi sölusambandsins fyrir hálftíma. Bið ég hér með hæstv. forseta um leyfi til að mega fara.