17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Mig minnir, að ég hafi átt brtt. við þetta mál viðvíkjandi veiðarfærum, sem ég tók aftur til 3. umr., og vona ég, að hún verði látin koma hér undir atkv.Hæstv. fjmrh. talaði um, að hann ætlaði ekki að setja fótinn fyrir þetta mál við þessa umr. hér í hv. d., og að hann hefði hugsað sér að breyta því ákvæði frv., að útvegsmenn hefðu skilyrðislaus afnot af sínum eigin gjaldeyri fyrir kol, olíu og salt, þannig, að gjaldeyrisnefnd yrði heimilað að gefa undanþágu í hvert sinn. Þessi fyrirhugaða breyt. hæstv. fjmrh. er tvímælalaust til hins verra. Þessi tregða í garð útvegsmanna er lítt skiljanleg, sérstaklega þegar þess er gætt, að eitt af stærstu verzlunarfyrirtækjum þessa lands hefir, eftir því sem ég bezt veit, sérstök fríðindi í þessu efni, ekki aðeins að því er snertir veiðarfæri handa viðskiptamönnum sínum, heldur einnig að því er snertir allar aðrar vörur; þetta fyrirtæki er S. Í. S. — Ég fyrir mitt leyti felli mig alls ekki við þessa úrlausn málsins og tei útvegsmenn litlu bættari, þótt frv. verði afgr. frá hv. Alþ. í þeirri mynd, að gjaldeyrisnefnd hafi heimild til þess að veita þessa undanþágu í hvert skipti.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það ákvæði, sem ekki náðist samkomulag um við 2. umr., að sett yrði í frv. Ég verð að endurtaka það, sem ég sagði áður í þessu efni, að það er óneitanlega mjög óviðkunnanlegt fyrir Íslendinga að lögleiða ákvæði, sem heftir svo mjög frelsi borgaranna eins og hér er ráð fyrir gert, á meðan slíkt ákvæði er hvergi nokkursstaðar lögleitt, því að það er allt annað að leggja farbann á mann, sem ætlar úr landi í löglegum erindagerðum, heldur en að líta eftir því, að ekki sé farið ólöglega með gjaldeyri landsins. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði við 2. umr., að menn verða víða að sætta sig við, að á þeim sé leitað að þeim peningum, sem ekki má flytja landa á milli. Þetta er engin nýlunda. Þetta þykir alveg sjálfsagt, ef grunur getur leikið á um það, að menn hafi meðferðis dýrmætar vörur, sem þeir geta smyglað með því að bera þær innan klæða, og á þessum krepputímum er þetta líka látið ná yfir peninga, sem menn hafa með sér, og væri það t. d. ekkert varhugavert, þótt eftirlit með útflutningi íslenzkra seðla væri nákvæmara en nú er. Það kemur oft fyrir, að það er leitað á mönnum að peningum, vegna gjaldeyrisráðstafana í ýmsum löndum, en það er ekki gert, nema sérstök ástæða þyki til þess; en hitt, að mönnum sé beinlínis bannað að kaupat farmiða til annars lands, nema þeir hafi sannað það fyrir einhverri stofnun, hvernig þeir ætli að halda sér uppi, þegar þeir koma yfir landamærin, — það þekkist hvergi. Það getur verið, að hæstv. ráðh. geti fengið þetta lögleitt, en ég vildi beina því til hans að reyna aðra viðkunnanlegri leið í þessu máli, leið, sem betur væri samboðin siðuðu þjóðfélagi heldur en þessi. Vitaskuld er hætt við, að þetta verði misnotað á marga lund, eins og hv. þm. G.-K. benti á, en við teljum, að í till. sé sérstaklega lítil hjálp til þess að draga úr óþarfa utanferðum, ef ástæða er til að nefna það svo.

Eins og ég minntist á í upphafi máls míns, á ég hér brtt. um að veiðarfæri komi undir þessi ákvæði. En fyrir þessari till. blés ekki byrlega við 2. umr. hjá hæstv. ráðh., því hann virðist ætla að láta þetta verða örverpi, eins og honum og hæstv. ríkisstj. hefir tekizt vel um öll þau mál, sem snerta sjávarútveginn. Þó hún hafi ekki beinlínis drepið þau, þá hefir hún verið lagin á að gera þau að þeim örverpum, sem enginn hefir haft gagn af. Þess vegna er því til að svara um að draga till. til baka, að þó ég hefði talið það sanngjarnt, ef það hefði getað orðið til þess að draga úr andúð hæstv. ráðh. gagnvart frv., þá sé ég enga ástæðu til þess, þegar hann er búinn að lýsa því yfir, að hann ætli í Ed. að gera málið gagnslaust. Ég ætla því ekki að draga till. til baka, en vil, að hún sé borin upp, svo að það sýni sig, hvaða undirtektir þetta og önnur þurftarmál fá hjá þinginu og ríkisstj. Enda ber nú óðfluga að þeirri stund, þegar útvegsmenn um land allt rísa upp og heimta sinn rétt, þar sem jafnvel svo fast er haldið í, að menn geta ekki náð fiskinum úr sjónum vegna skorts á veiðarfærum. Þetta mun hæstv. ríkisstj. komast að raun um.