17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Það er að vísu rétt, að till. sú, sem ég eyddi að nokkrum orðum, var felld við 2. umr. og er ekki á dagskrá nú. En ástæðan til þess, að ég minntist á hana, voru tilsvör hæstv. ráðh. og harmagrátur hans yfir því, að hún skyldi vera felld, og fyrirheit hans um að koma till. inn í Ed. Það getur vel verið, að honum takist það, en það er alveg einstakt að hefta þannig ferðir frjálsra borgara. Og ég trúi því ekki, að hv. Alþ. samþ. óbreytt ákvæði till. þeirrar, sem drepin var. Það er a. m. k. mjög óviðkunnanlegt út á við, því það mun vera svo alstaðar í heiminum, að á friðartímum eru menn taldir frjálsir ferða sinna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera að eltast frekar við það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta atriði, en ég vildi sérstaklega biðja hann um glögga skýringu á því, sem hann sagði um S. Í. S. Ég hélt því fram, að S. Í. S. hefði þá sérstöðu að fá að ráðstafa sínum gjaldeyri á annan hátt en aðrir borgarar, fyrir innkaup á nauðsynjum yfirleitt. Hæstv. ráðh. fór þar dálítið undan í flæmingi og sagði, að S. Í. S. fengi ekki annan ráðstöfunarrétt en fjöldi útvegsmanna. Ég ætla ekki að bera brigður á, að hæstv. ráðh. fari hér með rétt mál eftir þeim upplýsingum, sem honum hafa verið veittar, en ég er hræddur um, að þær upplýsingar, sem hann hefir fengið, séu ekki réttar; a. m. k. er mér ekki kunnugt um, að slíkur réttur hafi af gjaldeyrisnefnd verið veittur nokkrum útvegsbónda eða útgerðarfirma. En ef svo er, væri æskilegt að fá að vita, hverjir þeir eru, því ég veit, að það hefir ekki gilt um alla. Ef svo var eins og hæstv. ráðh. gaf í skyn, að S. Í. S. og einstakir útvegsmenn hafi haft sérstöðu í þessum efnum, væri gott að fá að heyra, hverjir þeir eru. En mér leikur grunur á, að S. Í. S. hafi þau sérréttindi, sem enginn annar í landinu nýtur. Vænti ég því, að hæstv. ráðh. útskýri þetta greinilega, og fyrst S. Í. S. hefir verið nefnt, að hann nefni þá einnig þá útvegsmenn, sem þessara hlunninda hafa notið. Um S. Í. S. hefi ég það fyrir satt, að þessi undanþága gildi um allar vörur þess fyrirtækis, sem það þarf að flytja inn. Að því er snertir þessa litlu brtt., sem ég hefi borið hér fram, er það svo, að þó hún verði samþ., er allt eftirlit með gjaldeyrinum það sama, því orðið „veiðarfæri“ er jafnfast hugtak eins og t. d. olía og kol, og helgað af margra alda hefð. Ég fæ ekki skilið þau rök hæstv. ráðh., að snúast á móti till. vegna þess, að það verði of umfangsmikið fyrir gjaldeyrisnefnd að annast eftirlitið, ef hún verði samþ. Ég fæ ekki skilið, að það sé aðalástæðan til þess, að hann leggst á móti till., vegna þess að þetta eru hlutir, sem eru algerlega eins nauðsynlegir fyrir útgerðina eins og kol, olía og salt.