17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Það var út af skýringu hæstv. ráðh. um sérréttindi Sambandsins með erlendan gjaldeyri, að ég vildi aðeins bæta við fáum orðum. — Hæstv. ráðh. segir, að Sambandið hafi í mörg ár haft sambönd í Englandi og hafi fengið leyfi til að verja ákveðnum hluta af gjaldeyrinum til þess að borga skuldir við þessi sín sambönd. Ég hafði beðið hæstv. ráðh. að nefna mér þau fyrirtæki önnur hér á landi, ef nokkur væru, sem hann í sinni fyrri ræðu gaf í skyn, að hefðu samskonar sérréttindi og Sambandið. Hann nefndi engin slík fyrirtæki, og ég hygg, að honum muni verða erfitt að finna þau.

Nú er þess að gæta, að það er ekki Sambandið eitt, sem hefir í mörg ár haft föst sambönd við útlönd. Það eru mörg verzlunarfyrirtæki hér á landi, sem hafa svipuð sambönd og Sambandið, þannig, að menn hafa fengið vörur á vissum tíma árs, og jafnvel fengið að standa í skuld nokkra mánuði. Þessi verzlunarfyrirtæki eru mörg, og ég staðhæfi, að ekkert þeirra hefir þessi sérréttindi, sem Sambandið hefir.

Það þýðir ekkert að vera að fara í kringum þetta mál. Það er ekkert sambærilegt, þó að keypt sé skip og kaupendurnir fái vilyrði fyrir að fá að nota sinn gjaldeyri á komandi árum til þess að borga skipið. Við erum að ræða um almenn vörukaup, og það er upplýst í þessu máli, að Sambandið hefir sérréttindi um sín almennu innkaup samskonar og kaupmenn og yfirleitt önnur verzlunarfyrirtæki á landinu þurfa að hafa með höndum.

Það er ennfremur upplýst, að það er ekki hægt að nefna neitt verzlunarfyrirtæki hér á landi, sem hefir hliðstæð sérréttindi og Sambandið í þessu efni.

Ég er alls ekki að halda því fram, að Sambandið ætti ekki að hafa þessi réttindi, en hinu vil ég halda fram, að önnur gömul verzlunarfyrirtæki — og þau eru til eins gömul og jafnvel eldri en Sambandið — séu þá látin hafa sömu aðstöðu um meðferð síns gjaldeyris.

Með yfirlýsingu hæstv. ráðh. er því alveg slegið föstu, að Sambandið nýtur sérstakra ívilnana um meðferð síns gjaldeyris til kaupa á almennum nauðsynjum sínum, og þegar svo er, þá virðist mér andstaða hæstv. ráðh. móti brtt. minni um veiðarfæri, og yfir höfuð andstaða hans gegn nauðsynjum útvegsins, lítt skiljanleg og alls ekki réttlætanleg.

Mér kemur það alls ekki á óvart, þegar hæstv. ráðh. segir, að menn yrðu að gera grein fyrir því, hvernig þeir verðu gjaldeyrinum til veiðarfærakaupa. Hann taldi það miklum örðugleikum bundið og í raun og veru einn stærsta erfiðleikann. En eftirlitið með þessu kæmi vitanlega af sjálfu sér, því að auðvitað yrði eftir sem áður að fá innflutningsleyfi fyrir þessum vörutegundum. Er þá hægt að sjá á innkaupsreikningunum, hversu mikinn gjaldeyri viðkomandi maður hafi þurft að nota til kaupanna.