17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Út af þeim ummælum, sem fallið hafa hér um aðstöðu þá, sem S. Í. S. hefir verið veitt í gjaldeyrismálunum, vil ég taka það fram, að það eru vissulega margir aðrir aðiljar en S. Í. S., sem hafa gömul viðskiptasambönd ytra og hafa því þörf fyrir að viðhalda lánstrausti sínu gagnvert lánardrottnum sínum. En það er rétt, að lánstraust þessara manna er alveg á förum ytra, því að svo mikil hefir tregðan verið á yfirfærslunum, að menn hafa alls ekki fengið hinar allra nauðsynlegustu yfirfærslur. Og er það óneitanlega hart, a. m. k. fyrir þá menn, sem sjálfir eiga gjaldeyrinn.

Það er vitanlega hrein og bein fjarstæða að halda því fram, eins og gert hefir verið undir þessum umr., að menn hafi fengið gjaldeyri eftir þörfum fyrir innflutningi vegna útgerðarinnar. Það þýðir ekkert að segja slíkt æ ofan í æ, því að það er vitanlega ekki rétt. Hitt er vitanlega ekki nema eðlilegt, að örðugleikar séu á því að veita gjaldeyrisleyfi, en það er aftur alveg óþolandi, að menn séu látnir sætu misjöfnum kjörum um úthlutun hans, einum gert hærra undir höfði en hinum.

Hæstv. fjmrh. sagðist ekki ætla að svara því, sem ég sagði um óvildina í garð útgerðarinnar. Þetta skil ég mætavel, því að ég býst við, að honum hefði orðið þar svarafátt, því að það mál hefir fyrir löngu fengið sinn dóm hjá þjóðinni.

Þá sagði hæstv. ráðh. ennfremur, að ekki myndi vera mikil óánægja um framkvæmd gjaldeyrislaganna, þar sem ekki hefði verið fundið að henni í eldhúsumr. Þessu er því að svara, að slíkt er engin sönnun. Það er nfl. alls ekki hægt að tína upp allar syndir stj. á jafnstuttum tíma og stjórnarandstæðingar höfðu þar yfir að ráða. Á svo skömmum tíma er aðeins hægt að sýna á eyrnabroddana á mestu ávirðingum stj., svo margar og miklar eru þær. Máli sínu til sönnunar vildi hæstv. ráðh. og halda því fram, að góð samvinna væri í gjaldeyrisnefndinni. En þetta er hreinasta blekking. Hvernig er ánægja þeirra, sem gjaldeyrinn þurfa að nota? Er hún kannske mikil? Nei, og aftur nei. Annars vil ég bjóða hæstv. ráðh. upp á það, að láta þessa misklíð niður falla, ef hann getur fengið einn tíunda hluta kaupsýslu- og útgerðarmanna til þess að lýsa því yfir, að þeir séu ánægðir með úthlutun innflutnings- og galdeyrisleyfanna. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. er með öllu ókleift, svo mikil er óánægja, fólksins.