17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. fjmrh. var með ásakanir um það, að máli þessu hefði verið beint inn á aðrar og óviðkomandi brautir. Og jafnframt beindi hann því til mín, að ég hefði farið hér með vísvitandi blekkingar. Þessi ummæli krefst ég, að hæstv. ráðh. taki aftur og biðji mig gott fyrir.

Ef hæstv. ráðh. heldur, að ég hafi minnzt hér á S. Í. S. og aðstöðu þá, sem það hefir gagnvart gjaldeyri sínum, af því að ég telji það ranglátt eða sjái eftir því, þá er það mesti misskilningur. Það, sem ég hefi viljað sýna fram á, er það, að hið sama eigi að ganga yfir aðra hlutaðeigendur í þessum málum. Annars gaf hæstv. ráðh. mikilsverða yfirlýsingu. Hann sagði, að S. Í. S. hefði svo dýrmæt verzlunarsambönd ytra, að gagnvart þeim mætti enginn skuggi falla á S. Í. S., og þess vegna hefði því verið leyft að fara með sinn eiginn gjaldeyri eftir vild. Síðar í ræðu sinni sagði hann ennfremur, að það væri sama, hvort skuldirnar erlendis væru við banka eða aðra viðskiptamenn. Þetta er vitanlega alveg rétt. En ég vil aðeins benda hæstv. ráðh. á það, að það eru fleiri aðiljar en S. Í. S., sem hafa dýrmæt verzlunarsambönd ytra, sem þeim er stórtjón að missa, en hann getur bara ekki bent á nokkurt dæmi þess, að hlaupið hafi verið undir bagga með þeim, sem þar eiga hlut að máli, á sama hátt og gert hefir verið gagnvart S. Í. S.

Ég skal svo endurtaka það, sem ég hefi sagt áður, að ég tel sjálfsagt og rétt, að S. Í. S. fái aðstöðu til þess að halda lánstrausti sínu og virðingu erlendis, en ég vil jafnframt taka það fram, að ég tel jafnsjálfsagt, að aðrir aðiljar fái sömu aðstöðu til þess gagnvart sínum viðskiptamönnum. S. Í. S. á ekki að fá nein sérréttindi umfram aðra hvað þetta eða annað snertir.