21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir lengi þótt góður kostur á íslenzkum hjúum, ef þau hafa verið húsbóndaholl, og ég held, að það megi segja um hv. 6. þm. Reykv., að hann sé húsbóndahollur, þegar kaupmennirnir eiga í hlut. Hv. þm. byrjaði með því um daginn, þegar málið var til umr., að slá því föstu, að gjaldeyrisnefnd hefði misbeitt innflutningshöftunum eftir pólitískum línum og dregið taum þeirra, sem fylgja stj. að málum. Mér fannst hv. þm. koma lítið að þessu í síðustu ræðu sinni, heldur eyddi hann orðum sínum að því, að kaupfélögin fengju bróðurpartinn við úthlutun innflutningsleyfa. En ég ætla að minna hv. þm. á það, að í kaupfélögum landsins eru menn af öllum flokkum, svo að ekki er því til að dreifa, að það séu eingöngu stuðningsmenn stj. í kaupfélögum landsins, sem njóti góðs af úthlutun innflutningsleyfanna.

Hv. þm. þóttist upplýsa eitthvað nýtt með því að segja, að gjaldeyrisnefnd hefði þá reglu, sem ég hefði sett, að úthluta kaupfélögunum innflutningsleyfum samkv. félagatölu. Þetta er ekkert nýtt, því að ég upplýsti þetta í svarræðu minni til hv. þm., þegar málið var síðast til umr.; ég upplýsti það þá, að ég hefði beitt mér fyrir því, að kaupfélögunum væri skapaður þessi réttur, vegna þess að ég vildi ekki taka á mig ábyrgðina á því að stöðva þróun þessarar verzlunarhreyfingar. Ég vil vinna að því, þrátt fyrir innflutningshöft, að þessi félög geti tekið við þeim mönnum, sem í þau vilja ganga. Á þessum tímum, þegar gera má ráð fyrir, að verðhækkun stafi af höftunum, þá er það sérstaklega óverjandi að gera mönnum ókleift að mynda neytendasamtök, og það væri gott, ef hv. þm. vildi upplýsa, hvort það er svo, að Sjálfstfl. ætlar sér sem heild hér á þingi að halda því fram sem sinni skoðun, að þetta sé rangt; það væru ekki einskisverðar upplýsingar.

Því ákvæði, sem ég hefi sett í starfsreglur innflutningsnefndar, hefir verið beitt mjög varlega, eins og hv. þm. varð að viðurkenna. Hv. þm. veit, að S. Í. S. og verzlunarráðið gerðu samkomulag fyrir síðustu úthlutun um það, hvernig skipt skyldi verða í heild milli S. Í. S. og verzlunarráðsins. Þetta upplýsti ég í ræðu minni um daginn, og hv. þm. getur aldrei komizt framhjá því, að það var samkomulag um þetta fyrir fyrstu 4 mánuði þ. á. Þetta er nú þessi pólitíska hlutdrægni, sem hv. þm. var að tala um, að beitt hefði verið; það er þetta fyrirkomulag, sem umboðsmenn beggja þessara verzlunarstefna töldu vera réttmætt fyrir fyrstu 4 mánuði þ. á., og ég vil biðja hv. þm. um að mótmæla þessu, ef hann getur. En annað mál er það, að verzlunareigendur í Reykjavík vilja gjarnan fá úr reglum þessum rétt til aukins innflutnings, en það hefir ríkisstj. ekki viljað ganga inn á. Ég held, að það muni allir hv. þm. eftir því, þegar Sjálfstfl. lét blöð sín fara að halda því fram, að innflutningshöftin væru sett til þess að kaupfélögin gætu grætt á þeim og flutt óeðlilega mikið inn. Eftir að búið var að hrekja þennan svívirðilega málflutning, fóru að koma víðsvegar af landinu afsakanir frá flokksmönnum sjálfstæðismanna út af því, að þeir skyldu leyfa sér að koma fram með þetta, því að viðskiptamenn kaupfélaganna vissu betur en þeir, sem vildu reyna að þyrla þessu upp, og þeir heimtuðu, að slúðurberar Sjálfstfl., eins og hv. 6. þm. Reykv., hættu þessu, og það varð til þess, að það hefir ekki sézt stafur um þetta í þessum blöðum sjálfstæðismanna, af því að þetta voru svo augljós ósannindi, að það gat ekki gengið að halda þessu uppi.

Þá sagði hv. þm., að það hefði komið fram meiri skilningur á þessu máli hjá S. Í. S. en hjá mér. Ég skal ekkert um það deila, en hitt ætla ég að segja, að það var m. a. að minni tilhlutun, að umr. hófust milli S. Í. S. og Verzlunarráðsins um samkomulag um heildar-„kvótann“, og þær umr. leiddu til þess árangurs, sem ég, gat um áðan, og ég vil leyfa mér að draga í efa, að málfærsla hv. 6. þm. Reykv. í þessu efni sé í samræmi við álit verzlunarstéttarinnar, því að ég hefi orðið var við allt annan tón frá forráðamönnum verzlunarstéttarinnar en hjá þessum hv. þm., svo að það er fyllsta ástæða til að ætla, að hann mæli hér ekki í þeim anda, sem forráðamenn verzlunarstéttarinnar vilja vera láta.

Hv. þm. færði það fram til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni, að innflutningshöftin væru til hagsbóta fyrir S. Í. S. og kaupfélögin, að vörusalan hefði verið svo mikil hjá þeim 1934, en hann passaði að nefna ekki það ár, því að það hefði ekki verið eins hagkvæmt fyrir málflutninginn; hann sagði aðeins, að samkv. skýrslu S. Í. S. síðan í júlí 1935 hefði salan aukizt frá því, sem hún var 1932. Nú veit hv. þm. vel, að hann fór með blekkingar, því að þessi skýrsla er fyrir árið 1934, og það ár voru flestar nauðsynjavörur undanþegnar innflutningshöftum. Hv. þm. ætti því að taka árið 1935, þegar allar vörur eru komnar undir löggjöfina um gjaldeyrisnefnd, og bera viðskipti S. Í. S. saman við viðskiptin á árinu 1934. Þá kæmi það í ljós, að viðskiptin hafa stórminnkað á árinu 1935, einmitt eftir að búið var að setja — að dómi hv. 6. þm. Reykv. — löggjöf, sem átti að vera til hagsbóta fyrir S. Í. S. Ef þeir menn úti um land, sem skipta við kaupfélögin, heyrðu þetta skraf í hv. þm. á sama tíma, sem þeir koma í galtómar búðir kaupfélaganna og geta ekki fengið kaffi, sykur eða hveiti, þá held ég, að þeir yrðu meira en lítið hissa, því að þeir myndu sjá, að þessi maður fer með vísvitandi blekkingar. Sannleikurinn er sá, að eitt hefir verið látið yfir alla ganga, og að hér sé gert ráð fyrir óeðlilegri þróun hjá kaupfélögunum, er alveg gripið úr lausu lofti hjá hv. þm., eins og t. d. það, að samkv. reglunum mætti búast við því, að félög uppi í sveit færu að flytja inn útgerðarvörur. Hvaða hagsmuni ætti slíkt félag að hafa af þessu? Þetta er ekkert annað en tóm endileysa og útúrsnúningur.

Þá ætlaði hv. þm. að halda því fram, að S. Í. S. væri ekki íslenzkt fyrirtæki. Ég held, að það sé ekkert fyrirtæki til, sem er jafníslenzkt; þetta fyrirtæki er eign 8000 manna, sem eru í S. Í. S., svo að það er ekkert fyrirtæki til í landinu, sem fleiri Íslendingar standa að. Það sýnir bezt, hvað þessi hv. þm. seilist langt til árása á S. Í. S. og kaupfélögin, að hann skuli láta sér detta í hug að bera fram á Alþingi aðra eins fullyrðingu og þetta. En ég hefi í rauninni ekkert á móti því, að fjandskapur hv. þm. komi sem bezt í ljós gagnvart S. Í. S., því að hann vinnur þeim mönnum, sem að samvinnumálunum standa, ekkert tjón, en þvert á móti gagn með því að uppljúka augum þessara manna fyrir hug hans og hans flokks til þessara mála.

Hv. þm. kom enn með þessa sögu um það, að S. Í. S. hefði algerða sérstöðu viðvíkjandi notkun gjaldeyrisins, þar sem það hefði sinn gjaldeyri frjálsan. Þetta er sama blekkingarfulla orðalagið eins og margir aðrir hv. þm. nota, og þetta er alls ekki rétt, eins og upplýst hefir verið hér í hv. d., því að S. Í. S. hefir alls ekki frjálsan sinn gjaldeyri; en í fyrra hafði það leyfi frá gjaldeyrisnefnd og bönkunum til þess að nota gjaldeyrinn til greiðslu á ákveðnum skuldum, sem skapazt hafa á þann hátt, að keyptar hafa verið vörur, sem fengizt hefir innflutningsleyfi fyrir, og það hefir líka verið upplýst, að mjög mörg önnur verzlunarfyrirtæki í landinu hafa fengið að gera samskonar viðskipti.

Þá sagði hv. þm., að fulltrúi gjaldeyrisn. hefði flutt þá till. á þingi verzlunarmanna, að skorað yrði á þá, sem hér eiga hlut að máli, að gera ráðstafanir til þess, að gjaldeyririnn væri ekki allur algerlega öryggislaus og að trygging á yfirfærslum gæti átt sér stað. Vitanlega væri það æskilegt, að unnt væri að gefa tryggingu fyrir því, að yfirfærslur færu fram viðstöðulaust um leið og gjaldeyrisleyfin eru veitt, en það er bara sá agnúi á þessu, að það er ekki hægt að vita fyrirfram, hvernig útflutningsvaran selst á þessum erfiðu tímum, en vitanlega verður í fulla hnefana reynt að standa við yfirfærslurnar samkv. gjaldeyrisleyfunum.

Ég vil svo enda þessi orð mín með því að minna á það, að ég hygg, að forráðamenn verzlunarstéttarinnar geti ekki með sanni sagt, að ég hafi verið tregur á að hafa samvinnu við þá stétt um fyrirkomulag þessara mála; þvert á móti hefir verið mjög mikil samvinna í seinni tíð milli þess ráðuneyti, sem þessi mál heyra undir, og forráðamanna verzlunarstéttarinnar um þessi mál. Vitanlega er ekki hægt að koma í veg fyrir, að ágreiningur verði í einstökum atriðum, en það, sem mestu máli skiptir, er það, að það hefir náðst árangur af þessu samstarfi, og sérstaklegu er hann mikill að því er snertir það samkomulag, sem náðist í höfuðdráttunum fyrir fyrstu 4 mánuðina milli Verzlunarráðsins og S. Í. S., og þó að hv. 6. þm. Reykv. taki það upp eftir fulltrúa gjaldeyrisnefndar, sem mun vera Björn Ólafsson, að hér sé á ferðinni skipulögð útrýming á kaupmannastétt landsins, þá hafa þessi orð ekki meiri stoð í veruleikanum en það, að þessi skipulagða útrýming var framkvæmd þannig, að það varð samkomulag milli S. Í. S. og Verzlunarráðsins um heildarskiptin. En það er hinsvegar nokkur ágreiningur um það ákvæði, hvort neytendafélögin skuli hafa réttindi til þess að auka sinn innflutning, og ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að ná þeim ágreiningi burt, en samt má gera ráð fyrir, að það verði mikil samvinna milli gjaldeyrisnefndar og verzlunarstéttarinnar.