21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þó þessar umr. séu orðnar langar, get ég ekki látið þær falla svo niður, að svara ekki því atriði, sem kom fram í síðustu orðum hv. 5. þm. Reykv. Hann sagði, að sú skoðun væri ríkjandi um allt land, að innflutningsúthlutun til kaupmanna væri mjög ranglát. Þetta er áreiðanlega ekki rétt; þar sem menn hafa séð reynsluna af innflutningshöftunum koma fram hjá kaupfélögunum, þar trúa menn ekki þessu. Hitt er annað mál, að mjög er alið á þessu af verzlunarstéttinni sjálfri, en ég vil algerlega vísa því á bug, að innflutningshöftunum hafi verið harkalega beitt gagnvart kaupmönnum sérstaklega. Verður þar vitanlega að standa fullyrðing á móti fullyrðingu. En þessi ásökun hefir hvað eftir annað verið hrakin af mönnum, sem hafa þekkingu á þessum málum. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði í ræðu hv. þm., en ég get tekið það fram, að mitt álit er, að betri samvinna sé um þessi mál nú um skeið en áður var. Er það ekki vegna þess, að ég hafi breytt um skoðun, heldur tel ég, að verzlunarmannastéttin sé samningufúsari og liprari til samvinnu en hefir verið. Og ég get gjarnan sagt það hér, að ég tel það stafa af því, að verzlunarstéttin hefir skipt um forráðamenn, að samvinnan hefir breytzt til bóta.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði ranglega huldið því fram, að bankarnir hefðu gefið S. Í. S. leyfi til umræddrar gjaldeyrismeðferðar. Ég vil vekja athygli á því, að þetta leyfi var um að undanþiggja S. Í. S. frá afhendingarskyldu gjaldeyris, og slíkt leyfi er ekki hægt að veita af gjaldeyrisnefnd, nema með samþykki bankanna. (PHalld: Er það í lögum?). Eftir lögunum getu þeir einir gefið slíkt leyfi, sem eiga vald á gjaldeyrinum, og það eru fulltrúar bankanna í gjaldeyrisnefnd, sem verða að leggja sitt samþykki þar á; þeir hafa neitunarvald um slíkt atriði.

Hv. þm. sagðist ekki vera ánægður með svar það, sem ég gaf um, hvort ekki væri hægt að tryggja vissa yfirfærslu á gjaldeyri, sem leyfi væri veitt fyrir af gjaldeyrisnefnd. Ég svara því, að það er ómögulegt að tryggja til fulls, enda eru leyfin gefin út með því fororði, að nægur gjaldeyrir sé fyrir hendi. Þetta er vel skiljanlegt, því margt kemur þar til greina, svo sem breyt. á mörkuðum, aflalbrestur o. s. frv. Ég held, að allir geti orðið sammála um þetta. (PHalld: Já. já). Brugðið getur til beggja vona um, hvort áætlun um gjaldeyristekjur þjóðarinnar standist, og erfiðleikarnir eru miklir. Þó við viljum allir ná markinu, þá næst það ekki hindrunarlaust.