21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2616)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Pétur Halldórsson:

Ég vil benda á það hér að lokum, að fyrir liggur frv. um að heimila sjávarútvegsmönnum, að þeir megi nota lítinn hluta þess gjaldeyris, er þeir afla, til að greiða með erlendar þarfir útgerðarinnar; en eftir því, sem fram hefir komið, þá virðist frv. þetta að þarflausu fram borið. Ég get a. m. k. ekki annað séð, þar sem það er yfirlýst af hæstv. ráðh., að S. Í. S. hefir árum saman notað allan sinn gjaldeyri. (Fjmrh.: Það hefi ég aldrei sagt). Ég bið forláts, en ég geng út frá, að S. Í. S. hafi fengið þann hluta gjaldeyrisins, sem það hefir viljað nota. Þegar þessi stofnun hefir árum saman haft leyfi fyrir slíkri gjaldeyrisnotkun samkv. lögum, þá verð ég að segja, að það er hlálegt, að farið skuli fram á samskonar réttindi til handa hliðstæðum fyrirtækjum með lagasetningu, því þó þetta frv. yrði að lögum, fá þau ekki meiri réttindi en S. Í. S. hefir áður haft. Það er því suma, hvort frv. nær fram að gunga eða ekki, því mér virðist, að ef talin er þörf á lögum fyrir þessa aðilja, þá viðurkenni þingið, að þeir séu réttminni en S. Í. S. En ef neitað er um lögin, þá er þeirra minni réttur svipaður og var, en það getur vitanlega ekki staðizt að mismuna þessum aðiljum.

Það er verið að deila um, hvort útgerðarmenn skuli mega greiða veiðarfæri með sínum eigin gjaldeyri, og ég man ekki betur en hæstv. ráðh. segði, að ef það yrði samþ., gengi hann gegn frv. í Ed. En hvað er með S. Í. S.? Flytur það ekki inn og fær sinn gjaldeyri til kaupa á veiðarfærum, stórum og smáum, a. m. k. höfuðkömbum ? Ég skil því ekki, að hæstv. ráðh. geti verið á móti því, að útgerðarmenn fái þennan rétt, eða fái sama rétt og bændur landsins hafa. Ég trúi ekki, að því verði mótmælt, og þess verður að krefjast, að útgerðarmönnum beri ekki minni réttur en bændum landsins, og það er sanngirniskrafa.