21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (2620)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég vil leyfa mér að mælast undan öllum glósum frá hæstv. fjmrh. Ég er aðalflm. þessa máls, en hefi ekki tekið til máls við umr. um það fyrr en nú í örfárra mínútna ræðu, og ég held, að fyrir mig þurfi hvorki ég né hv. þd. að bera neinn kinnroða fremur en fyrir hæstv. ráðh. a. m. k. Hæstv. ráðh. ætti að líta sér nær og athuga, hver hefir verið símalandi hér undir umr. og verið með hið barnalegasta hjal.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að ég bar fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það, hvaða útvegsmenn hér á landi hefðu notið samskonar fríðinda um ráðstöfun síns gjaldeyris eins og upplýst er, að S. Í. S. hefir notið í sambandi við þann gjaldeyri, sem það fær fyrir þær vörur, sem það selur, bæði fyrir hönd bænda og einnig vörur, sem það hefir keypt af mér og mínum líkum og flutt út. Svarið, sem ég fékk, var það, að þeir, sem keyptu Reykjaborg, hefðu fengið loforð eða vilyrði fyrir því, að þeir fengju að nota eitthvað af andvirði þeirra framleiðsluvara, sem þeir seldu út, til greiðslu á kaupverði skipsins — og að erfingjar Ólafs sál. Jóhannessonar á Patreksfirði hafi fengið tilsvarandi leyfi til að greiða stofnkostnað karfaverksmiðju á Patreksfirði með nokkrum hluta framleiðsluvörunnar.

Hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, að hér er um algerðan eðlismun að ræða. Þessi innkaup eru algerlega óhliðstæð við innkaup S. Í. S., sem það hefir mátt gera á þennan umrædda hátt. Hér eru annarsvegar aðiljar, sem kaupa frá útlöndum framleiðslutæki, en hinsvegar aðili, sem er S. Í. S., sem kaupir inn neyzluvörur — allir aðiljarnir kaupa þessar vörur fyrir sinn erlendu gjaldeyri, andvirði seldra vara. Þessi innkaup eru ekki sambærileg, eins og allir hljóta að sjá, þó að hæstv. ráðh. vilji helzt láta líta út sem svo sé.

Hæstv. ráðh. gat um, að hann vissi um auk þeirra, sem hann nefndi, ýmsa síldarútflytjendur, sem hefðu fengið að kaupa veiðarfæri fyrir þann erlenda gjaldeyri, sem þeir hafa fengið fyrir vörur sínar. Ég vildi, að hæstv. ráðh. benti á einhverja þeirra. Hann tilgreindi engan sérstakan síldarútflytjanda í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði talað um þetta mál þannig frá öndverðu, eins og það væri tilætlunin að neita öllum útvegsmönnum um að fá gjaldeyri til þess að kaupa notaþarfir til útgerðar sinnar. Ég vil segja það við hæstv. ráðh., að hann fer vitandi vits rangt með þetta. Því að hann hefir sjálfur tekið fram í ræðum sínum, að minn skilningur í þessu máli væri réttur, sá, að gjaldeyris- og innflutningsnefnd, ráðuneytið og bankarnir væru sér þess meðvitandi, að þennan gjaldeyri yrði að veita. Það, sem hér er farið fram á, er að greiða götu útvegsmanna með því að láta þá ekki þurfa undir högg að sækja um það, hvað gert er af hendi valdhafanna í hverju tilfelli um úthlutun gjaldeyris til nauðsynja útgerðarinnar. Ég geri ráð fyrir, að á meðan nokkur gjaldeyrir erlendur er til í landinu, þá verði heildarniðurstaðan sú, að útvegsmenn fái að kaupa sín veiðarfæri. En við viljum ekki aðeins hafa þessa reglu almenna reglu, heldur undantekningarlausa. Við viljum ekki, að útvegsmenn þurfi að koma með bænarskrár um þetta, heldur eigi þeir heimildina til þessa skýlausa. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að útvegsmenn meta mikils að eiga slíka heimild.

Ég viðurkenni að þegar þetta mál var í n., þá gekk ég inn á það til samkomulags, heldur en að fá enga réttarbót í þessu efni útvegsmönnum til handa, að veiðarfæri væru felld hér undan, eins og gert var. En eftir það var það upplýst af hæstv. ráðh., að hér á landi er aðili, sem fær að ráðstafa öllum sínum erlenda gjaldeyri sjálfur, og þá sé ég ekki, hvers vegna útvegsmenn þurfa að sækja með auðmýkt og undirgefni um það að fá að nota sinn eiginn gjaldeyri til sinna eigin þarfa vegna útgerðar sinnar, til þess að kaupa fyrir einar hinar allra nauðsynlegustu vörur, sem þjóðin þarf að kaupa, veiðarfærin.

Mér virðist, að ekki verði hjá því komizt að viðurkenna, að upplýsingar hæstv. fjmrh. hafi nokkuð raskað viðhorfinu í þessu máli. Frá mínum bæjardyrum séð hljótum við, sem flytjum þetta mál fyrir hönd útgerðarmanna, að verða kröfuharðari vegna þessara upplýsinga hæstv. ráðh. heldur en við hefðum annars verið, þegar búið er að segja okkur, að hér njóti annar aðili langtum meiri réttinda og fríðinda heldur en þeirra, sem við bárum mál á fyrir hönd útvegsmanna, hvað þá þeirra réttinda, sem hæstv. ráðh. vill úthluta útvegsmönnum. Þetta misrétti verður ekki til þess að auka þolinmæði útvegsmanna til að bera örðugleika yfirstandandi tíma. Hæstv. fjmrh. verður að gera sér það ljóst, að ef nokkur leið á að vera til þess að leiða þjóðina nokkurn veginn farsællega, eftir því sem unnt er gegnum þessa yfirstandandi þrengingatíma, þá verður valdhafanna fyrsta boðorð að vera að beita ekki hlutdrægni. Það er ekki hægt að fá fólkið til að sig við það neyðarbrauð, sem það nú þarf við að búa, nema menn viti, hver fyrir sig að það er ekki hann einn, sem verður að leggja á sig byrðar vegna ills árferðis, heldur verði aðrir þjóðfélagsþegnar að gera það nokkuð jafnt. Þetta er ekki mælt af neinni flokkapólitík, heldur af því, að það er ekki fyrir nokkurn mann unandi við það, ef þessi meginregla er brotin.