21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. G.-K. bað mig að nefna mann eða firma, sem fengið hefði hliðstæð réttindi yfir gjaldeyri sínum eins og S. Í. S. — Sambandið hefir fengið leyfi til að verja gjaldeyri sínum til að greiða skuldir í Englandi, sem það hefir stofnað þar til vegna vörukaupa. Ég skal endurtaka það, að ýms fleiri verzlunarfirmu og innflytjendur hér á landi hafa tengið þessi leyfi, til þess að greiða fyrir kaupum á vörum, alveg hliðstæðum þeim vörum, sem Sambandið hefir á þennan hátt keypt inn. Nöfn á þessum firmum hefi ég ekki hjá mér, vegna þess að ég hefi ekki veitt þessi leyfi, heldur hefir gjaldeyris- og innflutningsnefnd gert það. En ég hefi umsögn formanns n. fyrir því, sem ég sagði, og skal ég svo fljótt sem kostur er á nefna hv. þm. G.-K. dæmi um þetta.

Út af því, sem hann sagði um hagsmuni útgerðarmanna í þessu sambandi, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Við erum þegar búnir að karpa allmikið um það. Ég held því enn fram, að þessi lagabreyt. sé ekkert hagsmunamál útvegsmanna, m. a. vegna þess, að hún er óþörf, þar sem í núgildandi l. er heimilt að veita útvegsmönnum þessar undanþágur, ef það þykir sérstaklega til hagsbóta fyrir útgerðina.

Og eins og ég sagði, ef málið kemst til hv. Ed., sem ég geri nú ráð fyrir, þá mun ég við meðferð málsins þar beita mér fyrir því, að frv. verði breytt á þann hátt, að það verði skýrt orðað, að heimilt sé fyrir gjaldeyris- og innflutningsnefnd að veita útflytjendum slík leyfi, til þess að hægt sé þó að hafa kontrol á því, að þetta sé ekki gert nema því aðeins, að sérstök ástæða sé til. Því að ef þetta yrði gert mikið, þá mundi það auka á erfiðleikana á því, að allur gjaldeyrir kæmi inn.