04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Bjarni Ásgeirsson:

Ég og hv. 2. þm. N.-M. flytjum hér brtt. á þskj. 269 þess efnis, að hækka tillag til búfjárræktar úr 42 þús. kr. í 56 þús. kr., en það er sú upphæð, sem þarf samkv. gildandi lögum. En vegna þess að við búumst ekki við því, að hægt verði að fá þessa hækkun, nema lækkað verði sem henni svarar annarsstaðar, leggjum við það til, að fjárveitingin til kaupa á tilbúnum áburði verði lækkuð um 14000 kr. Þetta má að vísu teljast neyðarúrræði en þar sem áburður hefir nú lækkað nokkuð í verði, er þess að vænta, að þessi lækkun á framlagi ríkissjóðs til áburðarkaupa þurfi ekki að verka á verðið. En við teljum það betra af tvennu illu en að svo mjög verði dregið úr búfjárræktarstyrknum sem frv. ætlast til.

Ég vil ennfremur gera þá sömu aths. og ég gerði við þetta frv. á síðasta þingi um það, að ég geng út frá því, að frestunin á greiðslu til ræktunarsjóðs verði ekki til að hnekkja starfsemi sjóðsins, heldur verði honum bætt þetta upp með jarðræktarbréfakaupum, svo að sjóðurinn biði ekki hnekki af. Að öðrum kosti get ég ekki greitt atkv. með þeim lið frv.