07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2640)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég lýsi yfir fylgi mínu við brtt. 3. minni hl. Það er að vísu rétt, að fyrri brtt. er gerbreyting á frv., og því fylgi ég henni. Ég hefi áður haldið því fram í umr. um þetta mál, að eins og frv. er nú valdi það svo mikilli röskun á gjaldeyrislögunum, að óviðunandi sé. Það yrði næstum eða alveg ómögulegt að hafa lengur eftirlit með gjaldeyrinum, ef útflytjendur hefðu ótakmarkaða heimild til að verja honum til kaupa á ýmsum vörum. Nú má, með leyfi bankanna, veita einstaklingum leyfi til þess að nota gjaldeyri sinn til greiðslu á einstökum skuldbindingum. Eftir brtt. er það tekið fram berum orðum, að gjaldeyrisnefnd hafi leyfi til að veita slíka heimild ein, án samþykkis bankanna. Það má ef til vill segja, að þetta sé ekki mikil breyting, en þó er skýrara ákveðið um þetta en áður. Ég vil þegar lýsa yfir því, að ég fylgi frv., ef þessi brtt. verður samþ., en að öðrum kosti ekki.

Um 2. brtt. er það að segja, að það er að vísu rétt hjá hv. frsm. 2. minni hl., að aldrei verður algerlega hægt að koma í veg fyrir, að menn afli sér gjaldeyris á ólöglegan hátt, en mikið er þó hægt að gera í því efni. Brtt. í þessa átt var flutt í Nd. að minni tilhlutun. Ég get ekki séð, að í slíku ákvæði felist meira ófrelsi fyrir einstaklingana en að menn verða að sækja um gjaldeyrisleyfi til vörukaupa, jafnvel þótt menn eigi gjaldeyrinn sjálfir. Ég fæ ekki séð, að þetta sé meiri frelsisskerðing en margt annað í sambandi við þessi mál. Ég mælist því til þess, að þessi till. verði samþ., en vil endurtaka það, að ég óska, að frv. verði fellt, ef hin fyrri verður ekki samþ. (MJ: Eru bankarnir reiðubúnir að taka þá kredit á sig, sem útflytjendur missa við (það að hafa ekki umráð yfir gjaldeyri sínum?). Það liggur ekkert sérstakt fyrir um neinn „kredit“missi útflytjenda, enda ætti þeim að koma jafnvel að fá leyfi til umráða yfir gjaldeyri sínum á hverjum tíma, þótt hitt megi líka vera, að hvorug aðferðin komi að fullu haldi. (MJ: Þær staðreyndir liggja fyrir, að menn hafa misst lánstraust af þessum ástæðum).