21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

79. mál, viðgerðir á íslenzkum skipum

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Hv. 1. þm. Rang. sagðist hafa rekizt á blaðagrein um þetta efni í Nýja dagbl. fyrir nokkrum dögum, en sagðist ekki hafa búizt við, að nokkur mundi hlaupa eftir því; hér er það ekki heldur gert, enda er það ekki ný bóla, að skrifað sé um þetta mál í blöðin.

Forsaga þessa máls er sú, að síðastl. haust hafði nefnd frá járniðnaðarmönnum gert uppkast að frv. um þetta efni, og sneri þessi n. sér svo til þm. Alþfl. og óskaði eftir því, að þeir tækju þetta mál til athugunar. Var það gert, og er þetta frv., sem hér liggur fyrir, til orðið á þann hátt, enda þótt það sé nokkuð breytt frá því, sem járniðnaðarmenn höfðu hugsað sér í byrjun.

Í ræðu hv. þm. voru nokkur atriði, sem ég ætla að taka til athugunar. Hann vill halda því fram, að það sé staðleysa, að aðgerð á íslenzkum skipum erlendis hafi stundum verið framkvæmd svo illa, að það hafi þurft að lagfæra skipin strax og þau komu í land hérna. Það þýðir náttúrlega ekki mikið að segja, að þessar fullyrðingar hv. þm. séu staðleysa, en ég skal lofa honum því, að við 2. umr. þessa máls skal ég færa sönnur á mitt mál í þessu efni, enda þykist ég viss um, að hv. þm. muni vera vel kunnugt um, að það, sem ég segi, er ekki fjarri sanni, þar sem hann er einn af meðstjórnendum næststærsta togaraútgerðarfélags þessa lands.

Hv. þm. hélt því fram, að aðgerðir á skipum væru þriðjungi dýrari hér heima heldur en erlendis. — Þessu vil ég mótmæla, og vil ég undirstrika það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ef svo væri, að þessar aðgerðir væru þriðjungi dýrari hér heima, þá mundi það ekki koma fyrir, að til væru útgerðarmenn hér á landi, sem stjórna sínum fyrirtækjum ekki síður en flestir aðrir, sem létu framkvæma skipaaðgerðir hér heima. Þá sagði hv. þm., að afköst manna hér á landi væru miklu minni í þessari iðngrein en t. d. í Englandi; vildi hann kenna þetta tækjum þeim, sem hér eru notuð á þessu sviði. Ég vil mótmæla því, að afköst hérlendra manna í þessari iðngrein séu minni en erlendra manna. Það vill svo vel til, að ég hefi haft aðstöðu til þess að horfa á vinnubrögð innlendra og erlendra manna í þessari atvinnugrein, bæði í Englandi og víðar, og hefi ég ekki getað séð, að Íslendingar stæðu hinum neitt að baki, enda er það viðurkennt, að íslenzkir verkamenn og iðnaðarmenn eru jafnfærir og afkastamiklir eins og erlendir menn á samsvarandi sviðum.

Þá sagði hv. þm., að íslenzkir járniðnaðarmenn þyrftu að læra að verða hraðvirkari og verkhyggnari en þeir eru; ég skrifaði þessi orð upp, og vona ég, að þau verði prentuð í þingtíðindin sem ummæli þessa hv. þm. um járniðnaðarmenn.

Þá spurði hv. þm. að því, hvaðan mér kæmi sú vizka, að á þessu ári yrði varið um 1 millj. kr. til aðgerða á íslenzkum skipum. Ég vil spyrja hv. 1. þm. Rang., hvort hann geti neitað því, að það sem af er yfirstandandi ári hafi verið varið milli 300 og 400 þús. kr. til aðgerða á skipum okkar; og sé þetta rétt, sem mér er tjáð og ég hefi enga ástæðu til að efast um, þá vil ég biðja hv. þm. að athuga, hvort það er svo ákaflega ótrúlegt, að þessi upphæð geti verið komin upp í 1 millj. í lok þessa árs.

Þá spurði hv. þm. mig, hvort ég vissi, hvað togararnir væru margir. Hann sagði, að þeir væru 35, en ég held, að þeir séu 38, svo framarlega sem enginn þeirra hefir verið seldur úr landi eða farizt síðustu klukkutíma, og eftir upplýsingum frá mönnum, sem ég trúi eins vel til að fara með rétt mál og hv. 1. þm. Rang., eru allar líkur til þess, að það verði 15–20 íslenzk skip eða jafnvel fleiri, sem þurfa aðgerða við á þessu ári, bæði vegna flokkunar og annars. Hv. þm. sagði, að flokkun á skipum okkar Íslendinga kostaði að öllum jafnaði ekki meira en 10–15 þús. kr. Ef hv. þm. vildi fara rétt með í þessu efni og fara eftir sinni eigin reynslu sem gamall útgerðarmaður og bankastjóri í banka, sem hefir mikil ofskipti af togaraflotanum, þá hygg ég, að hann mundi komast að þeirri niðurstöðu, að flokkunaraðgerðir á skipunum komist oft og í flestum tilfellum upp fyrir þessa upphæð, sem hann nefndi.

Hv. þm. sagðist vilja óska þess, að sú nefnd, sem fengi þetta mál til athugunar, athugaði það vel, áður en hún léti í ljós álit sitt um það, og vil ég óska þess sama. Hv. þm. minntist ennfremur á það, að það fælist fjarstæða í einni frvgr., sem sé það, að ef skip bilar í hafi, þá er ætlazt til þess samkv. frv., að þau sigli til íslenzkrar hafnar til þess að fá aðgerð. Ég vil benda hv. þm. á það, að það væri hyggilegra fyrir hann að lesa þessa gr. út til enda, því að þá mun hann sjá, að undantekningar eru gerðar frá þessu, sem ættu fullkomlega að fyrirbyggja, að stofnað væri til nokkurs óhagræðis fyrir eigendur skipanna eða vátryggjendur, ellegar til öryggisleysi, fyrir þá, sem á skipunum vinna.