21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

79. mál, viðgerðir á íslenzkum skipum

Jón Ólafsson:

Það var óþarft fyrir hv. þm. að fara að afsaka sig fyrir að hafa tekið þessa hugmynd upp úr Nýja dagblaðinu. Það skiptir vitanlega ekki miklu máli, hvort hann hefir fengið hugmyndina þar eða einhversstaðar annarsstaðar, því að frá einhverjum hefir hann fengið hana öðrum en sjálfum sér. Um það ber frammistaða hans í þessu máli vitni, t. d. viðvíkjandi kostnaðinum á viðgerð skipanna, þar sem hann gerir ráð fyrir 1 millj. kr. kostnaði. Þótt gert sé ráð fyrir, að 15 skip muni þurfa viðgerðar við á þessu ári — en það, sem menn vita til, að viðgerðarkostnaður (klössun) á gömlum skipum nemi, er í hæsta lagi 30 þús. kr. —, þá nær það vitanlega engri átt, að viðgerðarkostnaður þessara skipa geti komizt upp í 1 millj. kr., því að venjulega kostar „klassinn“ ekki nema 8–12 þús. kr. á skip, fyrir utan það, sem kallað er venjulegt viðhald. Ég held því, að hv. þm. ætti ekki að rengja orð mín í þessu efni, því að ég hefi fengizt við þetta í mörg ár; ég hefi samið um viðgerðir á skipum og litið eftir þessu á allan hátt mörg undanfarin ár.

Hv. þm. þótti hart, að ég skyldi halda því fram, að járnsmiðirnir íslenzku væru ekki nógu afkastamiklir. Ég hefi aldrei lagt það í vana minn að skríða eða hræsna fyrir nokkurri stétt í orðum eða athöfnum, og mun ég því standa við það, sem ég hefi sagt í þessu efni, því að ég hefi fullkomna reynslu fyrir því, að smiðir okkar afkasta ekki nærri eins miklu verki og ég hefi orðið var við, að smiðir gera utanlands. Þótt hv. þm. þykist hafa horft á vinnubrögð erlendra smiða, þá get ég sagt honum það, að ég hefi sjálfur látið íslenzka skipasmíði gera verk, sem var þriðjungi dýrara en samsvarandi verk erlendis. Þetta er ómótmælanlegur sannleikur, sem hægt er að færa sönnur á. — Ég er ekki í vafa um, að svo geti orðið með tímanum, að þessir menn geti jafnazt á við erlenda menn á sama sviði, en meðan svo er ekki, þá liggur það í augum uppi, að með því að skylda skipaeigendur til þess að kaupa viðgerð hér á landi, þá er bara verið að leggja skatt á eigendur skipanna, og eins þá, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við skipin. Það er líka atvinnutjón fyrir þá, sem skipunum vinna, ef viðgerð skipanna er framkvæmd hér á landi, því að hún tekur þrefalt lengri tíma hér en erlendis, m. a. af því, að okkur smiðjur hafa hvorki eins góðum tækjum né heldur smiðum á að skipa og erlendar smiðjur. Þetta atriði hefir talsverða þýðingu, því að tíminn getur oft verið dýr, þegar fiskveiðar eru í fullum gangi.

Það er ekki ástæða til að segja meira um þetta á þessu stigi málsins, en ég vil vænta þess, að hv. n. athugi þetta mál rækilega áður en hún gleypir þessa sömu flugu og hér er á ferðinni úr Nýja dagblaðinu.