21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

79. mál, viðgerðir á íslenzkum skipum

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv., enda geri ég ráð fyrir, að því verði vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, og mun ég því fá tækifæri til þess að athuga það nánar þar. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni yfir því, að þessi skriður er nú loks kominn á þetta stórmál.

Ég vil ekkert segja um það að svo stöddu, hvað ég álít, að gera eigi við frv. eins og nú er. en ég tel sjálfsagt að vísa því til áframhaldandi umr. og til nefndar.

Í sambandi við það ákvæði þessa frv. að lögbjóða innlenda aðgerð á íslenzkum skipum er annað atriði, sem miklu máli skiptir, og það er sjálf skipasmíðin. Það hafa verið uppi háar raddir um það, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til þess að smíða smærri skip innanlands; það hefir verið stungið upp á leið til þess, eins og t. d. þeirri að setja toll á innflutt skip. Hingað til hefir ekki þótt fært að fara þá leið, því að það mundi vitanlega auka örðugleika útgerðarinnar. Ég álít sjálfsagt, að n. athugi þetta mál í sambandi við viðgerðarmálið, því að til frambúðar er í sjálfu sér engu minna um það vert, hvar smáskipin eru smíðuð.