25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

82. mál, Raufarhafnarlæknishérað

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. er flutt samkv. áskorun almenns borgarafundar á Raufarhöfn í febr. í vetur. Eins og grg. frv. ber með sér, eiga íbúarnir þar og í nágrenninu mjög erfitt um læknissókn. Þeir verða að sækja yfir langa og erfiða heiði til Kópaskers, eða mjög langa leið á sjó, og kostnaður við læknisvitjanir svo mikill, að hann má heita ókleifur. Rökin fyrir öllu þessu eru nánar rakin í fskj., er nefnd sú hefir samið, er kosin var á borgarafundinum. Ég vil bæta því við, að til Raufarhafnar kemur fjöldi skipa, sem oft hafa sjúklinga innanborðs, og auk þess er þar nú rekin stofnun, sem slysahætta fylgir, þar sem síldarbræðsluverksmiðjan er. — Auk þess er nú heilsufar íbúanna orðið það athugavert, að landlæknir sendi lækni þangað til að athuga útbreiðslu berklaveiki, og komst hann að þeirri niðurstöðu, sem tjáð í er í 5. lið fylgiskjalsins, að veikin væri óðum að breiðast út.

Ég óska þess, að máli þessu verði að loknum umr. vísað til allshn., og taki hún það til velviljaðrar athugunar og afgreiðslu svo fljótt, að það geti fengið lögfestingu á þessu þingi.