25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

83. mál, síldar- og ufsaveiði

*Gísli Guðmundsson:

Það er vitanlega misskilningur hjá hv. þm., að hér sé aðeins um að ræða einhvern sérstakan fjörð á Austurlandi. Þessi ákvæði eru almenn. Það, sem þetta mál fjallar um, er það, hvort eigi að leyfa mönnum að veiða með nót í netalögum landeiganda, þ. e. a. s. það skammt frá landi, að það telst til landareignar þess, sem landið á. Áður en tilskipunin um síldar- og ufsaveiði með nót 1872 var sett, var slík veiði algerlega óheimil. En tilskipunin 1872 rýmkaði þetta þannig, að þessi veiði var heimil, en þá skyldi koma landshlutur fyrir, enda er það algild regla, að ef eignarréttur manna er eitthvað skertur að tilhlutun hins opinbera, þá verði bætur að koma fyrir. Þetta er það, sem tilskipunin frá 1872 um síldar- og ufsaveiði með nót gerði ráð fyrir, en þetta vill hv. 3. landsk. afnema. En meiri hl. þingsins féllst á það á síðasta þingi, að ekki gæti komið til mála, að gengið væri á þennan rétt landeiganda, án þess að þar kæmu venjulegar bætur fyrir. — Ég vildi aðeins rifja þetta upp til viðbótar mínum orðum áðan, en ég sé annars ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál.