02.04.1936
Neðri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er sagt um suma menn, þegar þeir gerast margmála um vissa hluti, að þeir hafi fengið þá á heilann. Ég held, að það megi segja um hv. þm. V.-Sk., að hann hafi fengið þessa einkasölu, sem hér er um að ræða, á heilann, og mun það vera vegna þess, að honum varð á einu sinni að gerast nokkuð munnhvatur í sambandi við atriði, sem þessa einkasölu snerti, en hefir ekki viljað viðurkenna það og því þráazt við með að tala um þessa hluti.

Þegar raftækjaeinkasalan var stofnuð, varð allmikill úlfaþytur á meðal rafvirkja og þeirra, sem með þessar vörur verzluðu, og það, sem þessir aðiljar aðallega báru kvíðboga fyrir, var það, að þeir fengju ekki að leggja eins mikið og áður á vöruna í smásölu eða efnið, sem þeir nota við innlagningu. Óttinn við að geta ekki skapað sér sama hugnað og tíðkaðist með frjálsri verzlun af vörunum í smásölu eða um leið og hún er notuð við innlagningu, olli andúð gegn einkasölunni hjá þessum stéttum, og saman við þetta blandaðist svo það, að hér hafði verið allmikil keppni milli raftækjaverzlananna, sem fyrir voru, og ein af þeim verzlunum var áður rekin undir forstöðu þess manns, sem tók að sér forystu raftækjaeinkasölunnar. Mun hafa eimt eftir af þeim ríg, sem oft vill verða milli þeirra, sem keppa um verzlunina í sömu grein, eftir að þessi maður tók við einkasölunni.

Þessir tveir straumar munu hafa lagt grundvöllinn undir þau mótmæli, sem fram komu frá rafvirkjastéttinni í þessu sambandi. Undir eins og rafvirkjarnir komu fram með sína gagnrýni og grennslazt hafði verið eftir því af mér, hvað var í rauninni aðalatriðið fyrir þeim, var reynt að komast að samkomulagi um þetta mál. Niðurstaðan af því varð sú, að þeim var gefið fyrirheit um það frá fjmrn., að rafvirkjameisturum skyldi leyfð sama álagning á raflagnaefni eins og áður hafði tíðkazt, m. ö. o., að þess skyldi gætt, að hagsmunum rafvirkjastéttarinnar sem iðnaðarstéttar yrði jafnvel borgið eins og verið hefði. Ráðuneytið áleit, að þessa hagsmuni iðnaðarmanna væri rétt að athuga og semja um við þá. Hinsvegar vildi ráðuneytið ekki ganga inn á að semja um þá verzlunarhagsmuni, sem hér komu til greina. Var úr vissri átt gerð ákaflega hörð tilraun til þess að fá iðnaðarstéttina til þess að gera þessa verzlunarhagsmuni að sínum hagsmunum og kröfur þeirra að sínum kröfum, en sú tilraun mistókst fyrir þeim, sem fyrir henni stóðu, og iðnsambandið fékkst ekki til að taka þessar kröfur upp. Mér er fyllilega ljóst, að af því að sú krafa fékkst ekki fram, þá voru eftir í þessu máli töluverð sárindi, sem hafa valdið einlægum umkvörtunum og vandræðalegri sambúð, sem vitanlega er aðallega staðið fyrir af þeim mönnum, sem lögðu áherzlu á, að samið væri um verzlunarhagsmuni þeirra í sambandi við hagsmuni iðnaðarmanna. — Jafnframt því, sem samið var við iðnaðarstéttina um hennar hagsmuni, var talað um það, að ráðning hins erlenda verkfræðings, sem ráðinn var í þjónustu einkasölunnar eftir till. forstjórans, sem við henni tók, skyldi aðeins vera til bráðabirgða. Hann ætti að hjálpa til að koma skipulagi á einkasöluna í bili, og ráðningartími hans skyldi vera úti 1. júní 1936, eins og líka verður. Með þessu öllu var í bili fengið samkomulag. Ég skal taka það fram, að ráðuneytið gekk einnig inn á, í samráði við atvmrn., að tryggja rafvirkjunum betur heldur en áður hafði verið, að þeir sætu fyrir allri raflagningavinnu, með nýrri reglugerð þar að lútandi. Var þannig reynt að verða við öllum eðlilegum hagsmunakröfum iðnaðarmanna, en hinsvegar ekki gengið inn á — sem ekki hefir heldur verið gert áður —, að ráðuneytið eða hlutaðeigandi einkasala færi að eiga í samningum við smásölukaupmenn um það, hvað þeir hafi rétt til að leggja á vöruna.

En þó þetta samkomulag fengist þarna í bili, var málinu ekki þar með lokið, því að eftir lítinn tíma var fitjað upp að nýju, þ. e. a. s., það var ekki hægt að kvarta um þau atriði, sem búið var að semja um, en þá var farið að kvarta um vonda afgreiðslu og ýmislegt annað, sem hv. þm. V.-Sk. hefir rakið hér í framsögu. Þetta var náttúrlega slæmt, eins og hægt mun verða að sýna fram á, þegar málið kemur úr n., en vitanlega voru þessar áframhaldandi árásir miðaðar fyrst og fremst við það, að koma þeim manni frá, sem þá var forstöðumaður einkasölunnar, og svo eimdi auðvitað eftir af þeirri óánægju, sem spratt af því hjá vissum smásölum, að þeir höfðu ekki getað fengið iðnaðarstéttina til að ganga inn á að semja um sína hagsmuni. Og þegar hér var komið málinu og um þetta fékkst enginn friður, stakk þáv. forstöðumaður einkasölunnar upp á því, að hann hætti að hafa forstöðu fyrirtækisins á hendi, þar sem sýnilegt væri, að þeir, sem þarna ættu hlut að máli, gætu ekki tekið neinum sönsum. Honum var það ekkert atriði að vera þarna; hann hafði tekið við þessu starfi eftir beiðni ráðuneytisins. Varð það ofan á, að hann hætti, og það ráð tekið upp, sem ýmsir gagnrýnendur þessa máls töldu, að hefði strax átt að taka, að þessi einkasala var lögð undir viðtækjaverzlunina.

Þegar þeir, sem að umkvörtununum stóðu, vissu þetta, töldu þeir rétt að láta allar umkvartanirnar liggja milli hluta og sjá, hvernig færi um þeirra samvinnu við hina nýju forstöðu einkasölunnar. Varð því að samkomulagi, að ráðuneytið skyldi ekki fara í að rannsaka þær umkvartanir, sem fram voru komnar, heldur sendi þær til viðtækjaverzlunarinnar, og var gert ráð fyrir, að hinn nýi forstjóri tæki þær til athugunar í samráði við viðskiptavinina. Þetta var það, sem gerði það að verkum, að hv. þm. V.-Sk. sagði, að sér hefði verið neitað um að fá skjölin þessu viðvíkjandi í ráðuneytinu. Þetta voru kvörtunarbréf frá sambandi rafvirkja, sem komu inn fyrir áramótin, en álitið var, að ættu að leggjast til hliðar, eftir að forstjóraskiptin urðu við fyrirtækið, og takast upp til athugunar með hinum nýja forstöðumanni. Og úr því út frá þessu var gengið, áleit ég rétt, að rafvirkjasambandið, sem hafði sent þessi skjöl, réði því, hvort hv. þm. V.-Sk. fengi þau til meðferðar eða ekki. Þar sem ég veit, að hann hefir legið mjög í þessum mönnum með að fá skjölin –náttúrlega ekki til þess að reka hagsmuni þeirra, heldur til þess að gera sjálfan sig breiðan hér á Alþingi —, en þó ekki fengið þau, heldur orðið að fara í borgarstjóraskrifstofuna til þess að fá þau, þá virðast þessir menn ekki hafa litið svo á, að hann væri sérstaklega skeleggur í þessu máli. Að ég lét hv. þm. ekki fá skjölin, var alls ekki fyrir það, að ráðuneytinu væri á móti skapi, að þau kæmu fram, heldur vildi ég, að þeir, sem að skjölunum stóðu, réðu því, hvort þau kæmu fram af þeirra hálfu á þessu stigi málsins.

Nú skeði það hinsvegar, eftir að búið var að leggja þetta undir viðtækjaverzlunina, að forstöðumaðurinn þurfti að fara utan og vera þar um nokkurt skeið sér til heilsubótar og að nokkru leyti í erindum verzlunarinnar. Kom þá fram nokkur óánægja hjá rafvirkjum yfir því, að ekki skyldi vera hægt að halda áfram athugun á þessu máli á þann hátt, er þeir gerðu ráð fyrir. Ég sagði þeim, að það væri vitanlega ekki hægt að gera sérstakar ráðstafanir um forstöðu einkasölunnar, þótt hinn nýi forstjóri þyrfti að vera fjarverandi stuttan tíma: það yrði að treysta því, að þeir gætu komið sér saman við einkasöluna á meðan, og taka svo málið upp aftur, þegar forstjórinn kæmi heim. — viðvíkjandi því, að búið sé að fela nýjum manni þessa forstöðu, þá er það misskilningur.

En hitt er annað mál, að yfir þessu fyrirtæki er rekstrarráð, eins og öðrum fyrirtækjum og rekstri ríkisins, og ég sagði þessum mönnum, að mér fyndist eðlilegt, að þeir beindu máli sínu til formanns þess. Annars skal ég taka það fram til fróðleiks, ef menn muna ekki eftir því, að í þessu rekstrarráði er einn flm. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv. Eftir þeim áhuga að dæma, sem hann og aðrir flm. þessa máls sýna, skil ég ekki í öðru en þeir, sem hafa eitthvað við rekstur þessa fyrirtækis að athuga, gætu séð sínum hag borgið með því að leita til þessa skelegga manns og gera honum grein fyrir umkvörtunum sínum, svo að hann athugi, hvort ekki er hægt að hafa þá hluti eitthvað öðruvísi. Mér þykir líka kyndugt, að hv. þm. V.-Sk. er að fárast hér yfir því, að hann hafi ekki fengið þessi skjöl í fjármálaráðuneytinu, en meðflm. hans, hv. 3. þm. Reykv., á sæti í rekstrarráðinu og á aðgang að öllum skjölum og bréfum fyrirtækisins, ef hann vill athuga þau. Þau bréf, sem hér er um að ræða, voru send einkasölunni til umsagnar, svo að hv. þm. hefði getað fengið að sjá þau þar, ef honum hefði dottið í hug að biðja um það. En ég býst við, að eftirlit hans með þessu fyrirtæki sé harla slælegt, sem eðlilegt er, í framhaldi af öðrum eftirlitsstörfum, sem hann hefir haft með höndum. (JakM: Hvernig er það eftirlit, sem hæstv. ráðh. sá fyrir á eftir mér?). Það er í fullkomnu lagi og allt öðruvísi en hjá þessum hv. þm., sem ég hafði þann heiður að losa við að gera ekki neitt.

Þá ætla ég að koma örfáum orðum að einstökum umkvörtunum, sem fram hafa komið, en ég skal taka það fram, að út í það efni mun ég ekki fara nákvæmlega í þessari ræðu, heldur láta athuga þær umkvartanir, sem hér hafa komið fram um einkasöluna og bréfin frá rafvirkjameisturunum, og láta þær athuganir ganga til þeirrar n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar. En eins og ég gat um áðan, lét ráðuneytið niður falla rannsókn á ýmsum kæruatriðum í sambandi við það, að gert var ráð fyrir, að rafvirkjarnir sneru sér til hinnar nýju forstöðu einkasölunnar. Ég veit, að þessar kvartanir, sem bornar hafa verið fram, eru meira og minna úr lagi færðar, og mun það koma fram á sínum tíma.

Fyrst ætla ég að minnast á vöruskortinn, sem talað hefir verið um. Það er náttúrlega erfitt bæði fyrir hv. þm. V.-Sk. og mig að dæma um, hvernig bezt er að nota þau takmörkuðu gjaldeyrisleyfi, sem gefin eru út handa einkasölunni. En um það er ég ekki í vafa, og mun það koma fram, þegar þetta verður krufið til mergjar, að ef gagnrýnin um þetta atriði á rétt á sér, er það sök hinna mjög takmörkuðu gjaldeyrisleyfa miðað við eftirspurnina.

Viðvíkjandi því, að einkasalan hafi lélegri vörur heldur en áður voru seldar hér vil ég taka þetta fram: Eins og áður hefir verið sagt, hefir á síðustu tímum þurft að beina vörukaupunum sem mest til Þýzkalands. Rafmagnsvörurnar eru nú keyptar nær eingöngu frá Þýzkalandi, og það er viðurkennt, að t. d. raflagningapípur fást yfirleitt betri frá Englandi en Þýzkalandi. En vegna verzlunarviðskiptanna við þessi lönd höfum við neyðzt til að leita þessara viðskipta í Þýzkalandi. Því fer mjög fjarri, að einkasalan hafi ráðið þessu eða fundið upp á að flytja þessi viðskipti til Þýzkalands. Þvert á móti varð að gera þetta vegna verzlunarsamninga við Þýzkaland. Hinsvegar er ég ekki í vafa um, þótt ég sé ekki rafmagnsfræðingur eða sérstaklega vel inni í þessum málum, að það er stórkostlega ýkt sú gagnrýni, sem kemur fram gegn þessum vörum. Það þarf ekki annað en vísa til þess, sem ég veit ekki, hvort hv. þm. er kunnugt, að allar vörur, sem rafvirkjar nota hér í sinni iðn, þurfa að vera löggiltar af rafmagnsveitu Rvíkur, og það voru áreiðanlega samskonar pípur og þær, sem hv. þm. talaði um, löggiltar hér í fyrra. Ef stóryrði hv. þm. ættu rétt á sér, ætti rafveitan vitanlega ekki að löggilda þessar pípur. Að ætlast til, að þessum pípum sé kastað nú, er í fullu ósamræmi við það, sem rafmagnsveita Rvíkur gerði í fyrra. Það getur verið einhver stigmunur á gæðum þessara vara, en að þær séu ónothæfar, er bara sagt út í hött. Hv. þm. talaði um, að í eitthvert skipti hefði rafveitan orðið að neita að löggilda efni til raflagna. Þetta mun hafa komið fyrir einu sinni eða tvisvar fyrir mistök eða skakkt afgreiddar pantanir, og svo mun vera til komið fleira af þeim gróusögum, sem verið er að bera út um einkasöluna.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að rafvirkjameistararnir kvörtuðu um hærra verðlag heldur en verið hefði. Það mun verða gerður samanburður á þeim hlutum og lagður fyrir þá n., sem um málið fjallar, og vænti ég, að hún kynni sér það efni til hlítar. En um þetta vil ég fyrst og fremst taka það fram, sem kunnara er en frá þurfi að segja, að vegna þess að við getum ekki komizt hjá að kaupa svo mikið af þýzkum vörum, verður oft og tíðum að kaupa þær vörur dýrari heldur en hægt er að fá þær annarsstaðar að. Áður en raftækjaeinkasalan tók til starfa, gátu menn yfirleitt keypt vörurnar hvaðan sem þeir vildu. Af þessu stafar verðhækknn á sumum þeim vörum, er raftækjaeinkasalan verzlar með, t. d. rafmótorum. Það komu einmitt vel fram í fyrra, þegar verið var að tala um þetta mál, óheilindi hv. stjórnarandstæðinga í þessum efnum. Einn þeirra deildi fast á ríkisstj. fyrir það, að hún hugsaði ekkert um að beina vörukaupum til Þýzkalands, þar sem væri þó beztur markaður fyrir sumar íslenzku framleiðsluvörurnar. En annar kom strax á eftir og svívirti raftækjaeinkasöluna fyrir það, að hún hefði verðið hærra en áður, þótt hann vissi vel, að það stafaði af því fyrst og fremst, að verið var að halda vörukaupunum til Þýzkalands. Þannig afsannar einn stjórnarandstæðingurinn það, sem hinn segir.

Þá er annað, sem kemur hér til greina, og það er, að margar af þessum umkvörtunum um hærra verð eru alls ekki miðaðar við útsöluverðið til almennings, heldur heildsöluverð einkasölunnar, sem smásalarnir fá vöruna fyrir. Ég get nefnt t. d., að í einu bréfinu er kvartað yfir háu verði á perum, og er þar talað um verðið til kaupmanna, en ekki verðið til almennings, því að það er hið sama og áður. M. ö. o., kvartanirnar eru fram komnar, eins og ég sagði áðan, vegna óánægju smásalanna yfir því, að þeir fái ekki að leggja eins mikið á vöruna eins og áður, — að einkasalan fái of mikinn hluta af því, sem lagt er á vöruna samtals, en ekki vegna hagsmuna almennings.

Þá segir hv. þm., að það hafi verið og muni vera keypt óeðlilega mikið frá firmanu A. E. G. Ég skal játa, að ég veit ekki nákvæmlega, frá hvaða firmum einkasalan kaupir sínar vörur. En þau dæmi, sem hv. þm. kom fram með í þessu sambandi, benda til, að þessu firma hafi í einu tilfelli eða svo verið falið að útvega vörur frá öðru firma handa einkasölunni. Nú vita allir, að það kemur oft fyrir í viðskiptum, að stærri firmu, sem e. t. v. hafa hagkvæma samninga við minni firmu í sínu landi, eru beðin að útvega frá þeim vörur, til þess að þær fáist með hagfelldari kjörum í skjóli þeirra samninga. Annars ætti hv. 3. þm. Reykv., sem á frjálsan aðgang að öllum skjölum einkasölunnar, að upplýsa, hvernig viðskiptum hennar er háttað við einstök firmu. Ég veit aðeins, að viðskiptin eru mest við A. E. G. og annað þýzkt firma, eins og íslenzku viðskiptin hafa áður verið í þessari grein, að svo miklu leyti sem þau hafa verið í Þýzkalandi.

Ég held þá, að ég hafi drepið á meginatriðin í gagnrýni hv. þm. á raftækjaeinkasölunni. Ég hefi ekki farið inn á tvö einstök dæmi, sem hann kom fram með um verðlag, en geymi mér réttinn til að láta rannsaka þau í hlutaðeigandi stofnun, og yfirleitt skal n., sem fer með þetta mál, fá samanburð á verðlaginu í einstökum atriðum.

Ég ætla þó að bæta hér við einu eða tveimur atriðum, sem hv. þm. minntist að vísu ekki á nú, en hann hefir verið með glósur um í sambandi við önnur mál hér á Alþingi, því að eins og ég sagði áðan og ekki mun ofmælt, hefir þessi hv. þm. fengið þessa einkasölu á heilann. Hann var að tala um fyrir nokkru í sambandi við annað mál, að það hefði verið sýnd hlutdrægni við ráðningu starfsmanna að raftækjaeinkasölunni, Sjálfstfl. mundi ekki eiga þar nema 1½ mann, eins og hann orðaði það. Ég kann þessum slettum hv. þm. um þetta atriði illa, einmitt vegna þess að þær eru gersamlega tilefnislausar. Að þessari einkasölu var einmitt reynt að taka menn frá öllum þeim firmum, sem áður höfðu hér heildsölu í þessari grein, til þess að fyrirbyggja, að hægt væri að gera fyrirtækinu skaða með svona slettum, eins og hv. þm. er hér með. Í einkasölunni eru samankomnir menn með kunnugleika á þessum málum, sem þeir hafa aflað sér með starfi í öllum þeim heildsölufirmum, sem hér voru áður til í þessari grein. Það þýðir því ekki að halda því fram, að í raftækjaeinkasölunni séu eingöngu menn, sem ekkert vit hafa á þessum efnum. Þarna starfar í einkasölunni forstöðumaður eins heildsölufirma, sem verzlaði með þessar vörur áður. Þarna starfar líka maður, sem áður startaði hjá Paul Smith.

Þá var því mikið á lofti haldið í sambandi við þetta mál við fyrri umr. þess — en það var ekkert minnzt á það nú —, að þessi einkasala hefði verið fyrst og fremst stofnuð fyrir Sigurð Jónasson, til þess að losa hans fyrirtæki við stórkostlegar vörubirgðir, sem hann hefði verið búinn að kaupa inn, en ekki getað selt nema með því að komast í einhver óeðlileg sambönd við raftækjaeinkasölu ríkisins. Ég hefi ekki áður haft tækifæri til að upplýsa, hvernig ástatt var um þetta birgðamál, sem af stjórnarandstæðingum á sínum tíma var haft mjög á oddinum, þegar hv. sjálfstæðisflokksmenn fluttu vantraust á stj., sem ekki sízt var beint gegn mér. En nú hefir skýrsla um þetta mál komið fram, og þar sést, að þau heildsölufirmu, sem seldu hér þessar vörur áður, voru þrjú. Af þessum firmum hefir ekkert verið keypt fyrir hönd einkasölunnar, heldur tekið í umboðssölu. Vörubirgðir þeirrar verzlunar, sem Sigurður Jónasson veitti forstöðu og raftækjaeinkasalan tók í umboðssölu, voru að verðmæti 25 þús. kr. En vörubirgðir þær, sem einkasalan tók til umboðssölu frá því firma, sem Paul Smith veitti forstöðu, voru 57 þús. kr. að verðmæti, eða miklu meira en tvöfalt meira virði en vörubirgðir þess fyrirtækis, sem einkasalan átti að hafa verið stofnuð til að selja vörubirgðir fyrir. Getur náttúrlega hver sem vill gert sig svo lítinn karl að halda það, að komið hafi verið upp einkasölu til þess að hafa í frammi óheiðarleg viðskipti í sambandi við þessar vörubirgðir. En ég ætla, að þessar tölur geri mönnum skiljanlegt, hversu viturlegt sé að álykta svo.

Ég er ekki í hinum minnsta vafa um það, að áður en langt um líður verður komin á bezta samvinna á milli þeirra, sem verzla við einkasöluna, og einkasölunnar sjálfrar, ef menn eins og hv. þm. V.-Sk. og aðrir fleiri gera ekki allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að spilla þeirri samvinnu, og ég hygg reyndar hvort sem er. Ég skal viðurkenna, að eins og tekið hefir verið fram, hefir nokkur óánægja átt sér stað á meðal rafvirkja út af því, að þessi þýzki maður, Ziegler, hefir starfað í einkasölunni. En nú verður það svo, og var það ákveðið í byrjun, að þessi maður lætur af starfi sínu þar 1. júní næstk., svo að þá er ekki lengur hægt að hafa hann að átyllu til þess að gera árásir á þessa stofnun, sem úr aumum áttum hafa verið gerðar að tilefnislausu.

Þá er bifreiðaeinkasalan. Ég er hissa á því, að hv. þm. V.-Sk. skyldi leggja út í að tala um það mál hér, jafnherfilega og til tókst fyrir honum í sambandi við það mál í vetur. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að það hefði verið svo um bifreiðaeinkasöluna eins og raftækjaeinkasöluna, að verðið á vörunum hefði verið hærra hjá einkasölunni og vörurnar verri en áður var hjá kaupmönnum. Ég skal þá fyrst koma að verðinu á bifreiðunum. Um það hefi ég fengið upplýsingar hjá bifreiðaeinkasölunni. Þeir segja þar, að ákaflega erfitt sé að gera samanburð á þessu, m. a. vegna þess, að verðið á t. d. chevroletbifreiðum fer og hefir farið mikið eftir því, frá hvaða landi bifreiðarnar hafa verið keyptar, og ennfremur, áður en bifreiðaeinkasalan tók til starfa, hvort seldar voru margar eða fáar bifreiðar til sama aðilja. Og ég geri ráð fyrir, að það, sem hv. þm. V.-Sk. byggir gangrýni sína á í þessu sambandi, sé það, að komið hafi fyrir, að chevroletbifreiðar hafi verið seldar hærra verði nú heldur en einhverntíma áður, og mun þá hv. þm. hafa miðað við það, þegar margar bifreiðar voru keyptar í einu af sama aðilja áður, en fáar nú, í hvorttveggja skiptið sömu tegundar. En bara til að sýna þessum hv. þm., hversu hálan ís hann hefir komizt út á í þessu efni, vil ég benda honum á það, að fordbifreiðar voru seldar hér áður en bifreiðaeinkasalan tók til starfa fyrir 4655 kr., en nú, eftir að einkasalan hefir tekið til starfa, hafa þær verið seldar fyrir 4255 kr. hæst. Þessi verðlækkun á þeim í útsölu hér stafar af því, að þeir, sem keyptu þær inn áður en bifreiðaeinkasalan tók til starfa, keyptu þær ekki frá því landi, sem hagkvæmast var að kaupa þær frá, heldur fengu þær neðan frá Spáni. Það er löng saga að segja frá því, hvernig á því stóð. En ég held, að ég geti ekki stillt mig um að minnast nokkuð á hana hér, fyrst farið er að ræða þetta mál á annað borð.

Öllum er það kunnugt, að í viðskiptasamningnum við Spán, sem gerður var árið 1934 og gilti árið 1935, var svo ákveðið, að ekki skyldi neita um neitt af innflutningsleyfum fyrir neinar vörur, sem beðið væri um innflutningsleyfi fyrir frá Spáni. Þetta ákvæði var náttúrlega notað allóspart af kaupmönnum til þess að reyna að koma með þessu móti inn í landið vörum, sem í raun og veru var ekki þörf á að flytja inn í landið. Og meðal þeirra, sem vildu notfæra sér þetta, var aðalumboðsmaður Fordverksmiðjanna hér á landi. Hann gekk svo langt í þessu, að hann pantaði bíla frá Spáni, þó að ekkert innflutningsleyfi lægi fyrir fyrir þann innflutning, í trausti þess, að vegna þess að við höfðum örðuga viðskiptaaðstöðu á Spáni, mundi hann geta pínt fram innflutningsleyfi fyrir þessu eftir á. Eins og samningarnir við Spán voru, þótti ekki fært annað en að veita þetta innflutningsleyfi. Þá lá það ekki fyrir, sem svo síðar kom fram við uppgerð, að þessi innflutningur var ekki tekinn með á innflutningsskýrslum frá Spáni, og því ekkert tillit tekið til hans, þegar gerð voru upp viðskiptin milli Spánar og Íslands.

Ef farið er að gera svona verðsamanburð af handahófi, eins og hv. þm. V.-Sk. hefir gert í þessu efni, þá er gengið út á mjög hálan ís. Þó að benda megi á, að chevroletbifreiðar séu dýrari nú en áður en einkasalan tók til starfa, þá má einnig benda á hitt, að fordbifreiðar eru talsvert ódýrari nú en áður en einkasalan starfaði. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að bifreiðaeinkasalan heldur sömu álagningu á þessum hlutum og áður var höfð, og það hefi ég grun um, að hv. þm. V.-Sk. viti, þó að hann reyni að koma því hér inn, að einhver dæmi megi finna um dýrari bifreiðar nú hjá einkasölunni heldur en áður sömu tegundar, sem kannske á sér stað sem afleiðing af því, að menn eru látnir sæta jafnari kjörum í þessu efni nú en áður var.

Um verð á bílagúmmíi er í raun og veru nokkuð sama að segja og um bifreiðarnar. Ég átti orðastað við þennan hv. þm. um þetta atriði í haust, og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkuð upp úr því bréfi, til skýringar þessu máli, sem ég hefi fengið frá bifreiðaeinkasölunni, dags. 25. nóv. 193á. Þar segir svo:

„Áður en einkasalan tók til starfa, voru seldar hér á landi mjög margar tegundir af hjólbörðum, en enginn kaupmaður gaf út verðlista né hélt föstu verði á þeim, og seldi einum það allt öðru verði en öðrum, án tillits til þess, hvort um mann, sem átti margar bifreiðar, var að ræða eða ekki.“

Það var búið að ákveða sama verð á þessu bifreiðagúmmíi frá Ítalíu áður en einkasalan tók til starfa, sem er á því nú.

Þá skal ég koma að vörugæðunum. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi í hugleiðingum sínum um þau átt við bifreiðarnar sjálfar, því að mér er kunnugt um, að þær bifreiðar, sem fluttar hafa verið inn síðan einkasalan tók til starfa, eru að öllu leyti eins og þær, sem fluttar voru inn áður. Eða kannske þessum hv. þm. sé svo farið, að honum sýnist allt verra, sem kemur frá einkasölunni, af því að það kemur þaðan, heldur en það, sem kemur frá einkafyrirtækjum? En sé svo, þá verður vitanlega ekki við slíkri sjónskekkju gert.

En um gæðin á gúmmíinu er það að segja, að hv. þm. V.-Sk. og fleiri gerðu um þetta harða hríð í sambandi við benzínskattinn, og töldu þeir, að gúmmí, sem keypt væri frá Ítalíu, væri verra en annað gúmmí. Síðan komu fram vottorð um þetta, sum um, að það væri verra, en önnur um hið gagnstæða. En sannleikurinn er, að þetta gúmmí er vara, sem seld er víðsvegar um allan heiminn, a. m. k. áður en refsiaðgerðirnar komu til sögu, og vara, sem hefir getað keppt við samskonar aðrar vörur. Um þetta mál er svo það að segja, að þegar flokksblað hv. þm. V.-Sk. fór að taka upp eftir honum það, sem hann sagði hér á Alþingi um þetta efni, nefnilega að þetta ítalska gúmmí væri vond vara, þá var eðlilega því firma, sem seldi þessa vöru hér, ákaflega illa við það, því að þetta var atvinnurógur. Það mun svo hafa komið fram, að þetta firma hafi viljað fá leiðréttingu í þessu máli. Maður frá firmanu mun hafa talað við Morgunblaðið, því að blaðið tók aftur öll hin niðrandi ummæli um þessa vöru og gerði þannig það allt að engu, sem hv. þm. V.-Sk. var búinn að segja hér á hæstv. Alþingi um þetta atriði. M. ö. o., þegar þeir sjá framan í umboðsmann firmans, sem selur þessar vörur hér, þá leka þeir niður og afneita því, sem þeir hafa sagt.

Önnur hlið á þessu máli er svo sú, að það, að hægt er að kaupa þetta gúmmi frá Ítalíu, í stað þess að kaupa það frá öðrum löndum, er vitanlega bjargráð fyrir okkar sjávarútveg, og það ekkert lítilfjörlegt. Það er sem sé öllum kunnugt, að nú er varla hægt að fá fisk greiddan á Ítalíu öðruvísi en með því að taka út á hann vörur. Er það nú meining þessara manna, sem hér skrafa fram og aftur um þessi mál, án þess að hafa nokkurt vit á þeim, að við hættum að þíða með þessum vörukaupum þaðan þær frosnu lírur, sem við eigum þar fyrir fisk? Vitanlega er allt þetta umtal þessara manna um, að óhagkvæmt sé að kaupa þetta ítalska gúmmí, ekkert annað en óvitahjal, sem er afkvæmi illvilja og vanþekkingar. (ÓTh: Það vantar þó a. m. k. ekki gorgeirinn í ráðh.). Hv. þm. G.-K. ætti ekki að tala um gorgeir í öðrum, því að hann er þekktur fyrir að vera nokkuð mikill á lofti sjálfur.

Ástæðan fyrir því, að hv. þm. V.-Sk. beitir sér svo mjög í þessu máli hér og að svo mikið er talað um afnám raftækjaeinkasölunnar, er engin önnur en sú, að það er séð eftir þeim ágóða, sem verða kann á þessum viðskiptum og ríkið fær. Þó að sá ágóði sé ekki mikill eins og nú standa sakir, þá mun það fyrirtæki eiga mikla framtíð, eftir því er séð verður, vegna þess að alltaf er verið að raflýsa víðar og víðar og alltaf er að aukast notkun allskonar rafmagnsvara. Og það er einmitt gróðavonin, sem bundin er við þessa stórkostlegu aukningu á notkun þessara vara, sem veldur því, að hv. þm. V.-Sk. er fenginn til þess að reyna að hnekkja þessari starfsemi nú þegar í byrjun, og ef verða mætti að ríða niður þetta fyrirtæki, raftækjaeinkasöluna, á byrjunarstigi, til þess síðan að bandamenn hv. þm. V.-Sk. geti tekið til sín ágóðann af viðskiptunum með raftækin.

Sama er að segja um bifreiðaeinkasöluna. Hún hefir ekki enn náð þeim tilgangi, að ágóði hafi orðið mikill af henni; þó má vona, að úr því rætist, því að vitanlega verður í framtíðinni að flytja inn bifreiðar. Og alveg sama undirrótin er einnig að mótstöðu hv. þm. V.-Sk. gegn henni eins og mótstöðu hans gegn raftækjaeinkasölunni.