02.04.1936
Neðri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Hæstv. fjmrh. hefir nú talað hér nokkur orð. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum um hans ræðu, því að hún var að mestu utan við málefnið, sem hér er til umr., eins og vænta mátti. Það gegnir furðu, hversu ósvífinn hann er í flutningi máls síns og sinna manna, þegar hann játar, að allt þetta liggi til rannsóknar, og það kemur úr harðri átt sú óbeina yfirlýsing hæstv. ráðh., að hingað til hafi hið opinbera með þessari raftækjaeinkasölu ekki náð neinum öðrum árangri en þessum, sem vitaður er, að einkasalan hefir skaðað þá, sem viðskípti hafa þurft að eiga við hana. Allan þann tíma, sem liðinn er frá því raftækjaeinkasalan hóf að starfa, hefir hæstv. ráðh. og þeir aðrir, sem með einkasöluna hafa haft að gera, þverskallazt við að gera nauðsynlegar lagfæringar á starfsemi hennar. Ólagið á þessari starfsemi er alkunnugt mál öllum, sem hlut eiga að máli, og fjölmörgum fleiri. Því verður ekki neitað, að bæði hér í þessum bæ og víðsvegar um land annarsstaðar er almenn óánægja með þessa einkasölu, og hefir sú óánægja komið fram í fast rökstuddum kvörtunum yfir störfum einkasölunnar frá þeim mönnum, sem þurft hafa að skipta við hana. Og þessir menn vita bezt, hvar skórinn kreppir að. Þó að hæstv. ráðh. vilji kenna pólitískum hagsmunum um það, að hér er mælt á móti starfsemi raftækjaeinkasölunnar, þá er langt frá, að þau mótmæli spretti af slíkri andstöðu, heldur eru andmæli mín gegn einkasölunni sprottin af og komin fram í samræmi við skoðanir þeirra aðilja, sem við þau viðskipti verða að búa, sem einkasalan veitir, manna, sem tilheyra ýmsum stjórnmálaflokkum. Og ég hygg, að mestur hluti þeirra manna sé alls ekki mínir flokksbræður, heldur tilheyri margir þeirra Alþfl. Mér er kunnugt um þetta af viðkynningu við þessa áminnztu menn sjálfa og spurnum, sem ég hefi haft af þeim. Það er sannanlegt, að í n. þeirri, sem hefir haft með höndum mál rafvirkja, framkvæmdanefnd Rafvirkjasambands Íslands, er meiri hl. menn, sem eru stjórnarflokkanna megin í pólitík. Þá er og sama máli að gegna um það, að ekki eru þeir síður á bandi stjórnarflokkanna, sem þurfa að kaupa bílagúmmí. Þeir sneru sér með umkvartanir sínar hvorki meira ná minna en til formanns alþfl. og báðu hann ásjár. Hann lofaði þeim rannsókn á verði og gæðum gúmmísins, en vitanlega fór sú rannsókn aldrei fram. Það var ekki hv. 2. þm. Reykv., heldur form. Alþfl., sem bílstjórarnir sneru sér til í þessu, svo mér sé kunnugt. En hvort þeir hafa talað um þessi mál við hv. 2. þm. Reykv., sem er nú hér inni, núna upp á síðkastið, veit ég ekki. Þeir fóru ekki til hæstv. ráðh., rafvirkjarnir í landinu, af því að þeir treystu honum ekki, sem ekki var von, manni, sem er, eins og þeir sjálfir segja, snauður að þekkingu á þeirra málefni og virðist vera þrútinn af stráksskap. En þeir hefðu viljað, að hann setti mann, sem rétt hefði til að ráða yfir þessari grein, mann, sem væri sjálfráður gerða sinna. En það gerði hæstv. ráðh. varla, því að alkunnugt er það, að settur var yfir þetta maður, sem ekki er einráður gerða sinna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að formaður og aðrir, sem hæst eru settir í flokki hæstv. ráðh., hafa oft galað og hjalað um það í blöðum, að óreglumenn hafi verið í trúnaðarstöðum hjá íhaldinu. En við þeim vindrykkjuhugleiðingum er það að segja, að engin er sú ríkisstofnun til, sem þessi stj. hefir látið ráða menn í, að hún sé alveg laus við óreglumenn meðal starfsmanna, þó að mismunandi beri á því. En það er áberandi, þegar formaður, sem settur er til að ráða yfir svo viðkvæmum málum sem þessum, er óreglumaður, og eftir að hann er settur yfir þessi mál, er hann sendur úr landi. Það getur verið, að þessi forstjóri, sem fyrir óreglu varð í haust að fara úr landi til að leita sér hressingar, eigi að gera eitthvað fyrir einkasöluna. Ég veit það ekki. En þetta er dæmi, sem ekki tjáir móti að mæla, hvernig þessi maður fór, og að valdhafarnir fengust ekki til að setja almennilegan mann í þessa stöðu, en í stað þess ráðast þeir á viðskiptamenn einkasölunnar fyrir það að gera réttmætar og rökstuddar umkvartanir, sem um hefir verið getið. Þeir ættu að líta nær sér, þessir herrar, og það er tími til kominn fyrir hæstv. ráðh., ef hann ekki veltur úr ráðherrastólnum að segja, að fara að gera tilraun til að ráða bót á ólagi því, sem hefir orðið tilefni óánægju fjölda manna í þessum efnum. En slíkt gerist ekki með öðru móti en því, að til einkasalanna verði ráðnir góðir og gegnir menn. Því að það má gera einkasölurnar vinsælar með góðri stjórn og arðbærar með því að haga viðskiptum þeirra utan lands og innan á réttan hátt. En vinsælar verða þær aldrei gerðar með stífni né ósvífni né með því að þverskallast við réttmætum umkvörtunum viðskiptamanna þeirra. Hinir, sem hafa meira vit á þessu, þeir vita, að þetta er ódæði og að það verður að ráða bót á þessu, og það er sök beggja stjórnarflokkanna, ef ekki verður ráðin bót á því.

Hæstv. fjmrh. þóttist ætla að fara út í ýms atriði, sem hann þó gerði ekki og gat ekki, þótt hann hafi haft skjöl í höndum, sem hann hefir neitað mér um. En það er langt frá því, að rafvirkjar vilji ekki láta mig fá skjöl. Ég spurði, hvort þeir hefðu nokkuð á móti því að láta mig fá skjölin. Þeir sögðu, að það væri langt frá því. En þeir vissu, að hæstv. ráðh. þorði ekki að láta skjöl þeirra koma fram í dagsljósið. (Fjmrh.: Þeir gátu gert það). En hæstv. ráðh. skrökvar því, að þeir hafi ekki viljað það. Þeir ætluðust til þess, að skjöl þessi yrðu notuð, hvenær sem þörf væri á. Hæstv. fjmrh. lætur sem skjöl þessi séu komin til einkasölunnar og þar sé hægt fyrir hv. 3. þm. Reykv. að fá að athuga þau; en þetta eru ósannindi. Skjölin liggja í stjórnarráðinu. Það getur verið, að þar vanti fáein blöð, sem hæstv. fjmrh. hafi stungið í vasa Sigurðar Jónassonar, og að þau hafi siglt með honum til Vesturheims. — Hæstv. fjmrh. fer undan í flæmingi og skrökvar til, þegar hann kemst í vandræði, því að hæstv. fjmrh. hræðist það, að skjölin séu lögð á borðið. Hann óttast, að menn kunni þá að sjá svart á hvítu jafnvel fleira af því, sem hann ætlast til, að haldið sé leyndu.

Þá sagði hann, að vöruskortur einkasölunnar væri að kenna gjaldeyrisvandræðum og takmörkun á innflutningsleyfum. Allir vita, að einkasalan hefir fengið innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir öllum vörum, sem hún hefir þurft. Hún hefir fengið að panta allar vörur, sem hún hefir viljað, og pantað þannig, að hún hefir fengið ónýtt efni, eins og þessa pípu, sem ég er hér með. Af þessari pípu, sem ætluð er til að nota hana, þegar lagt er í steypu, hefir verið keypt svo ríflega, að til munu vera um 20 þús. metrar, og þessar pípur hafa menn verið neyddir til að nota. Þær þurfa að standast beygjuraun, og þessi pípa, sem ég er hér með, sýnir, hvernig þær fara. Hæstv. fjmrh. verður á sínum tíma beygður eins ömurlega eins og þessi ónýta pípa, og hann verðskuldar sömu meðferð, því að hann er ónýtur á sama hátt og þessi pípa, sem nú er búið að banna til þeirra lagninga, sem hún var ætluð til, og nú eru til um 20 þús. metrar af þessari tegund hjá einkasölunni. Ef til vill væri hægt að nota hana til einhvers annars en hún var ætluð til, en hún er ónýt til þess, og eins er um hæstv. ráðh. Það kann að vera hægt að nota hann til einhvers starfs, þótt hann hafi reynzt ónýtur og óhæfur ráðh.

Þá fór hæstv. ráðh. nokkuð að tala um hinar lélegu vörur, sem einkasalan hefir flutt, og talaði um, að varan hefði verið lakari vegna þess að viðskiptunum hefði verið beint sem mest til Þýzkalands; en þetta er ósatt. Það hefði vel mátt fá betri vörur frá Þýzkalandi, ef rétt viðskiptasambönd hefðu verið valin. En það má minna á, til að sýna frjálsræðið í þeim efnum og umhyggjuna fyrir viðskiptamönnunum hér, að þegar átti að fá mótorinn í sundhöllina, þá átti að panta hann frá þýzku firma, en kaupin voru tekin frá því og látin ganga í gegnum A.E.G., og það þótt mótorinn kostaði 1/3 minna hjá þessu firma, sem átti að kaupa hann frá. Þar kostaði mótorinn 330 Rm., en hjá A.E.G. kostaði hann 480 Rm. Er þetta eitt af þeim dæmum, sem fella allar fullyrðingar þessa hæstv. ráðh., sem sýnilega veit ekkert, hvað hann segir.

Það er náttúrlega mjög vel til fallið, að hv. þm. Hafnf., sem manna mest þykist bera blak af iðnaðarmönnum, er hér að beygja þessa pípu, sem ég kom með, og þykist nú ætla að slá sig til riddara með því að sýna, að hægt sé að beygja hana án þess að hún springi, en hann þekkir sýnilega ekki þá beygjuraun, sem gerð er á slíkri pípu; hún er ekki beygð með höndunum, og beygjan er ekki á svo löngu svæði sem hún verður, þegar hún er gerð með höndunum. En hv. þm. Hafnf., sem er með þessa ónýtu pípu, ætti að athuga, að það hefir verið skellt skolleyrum af ríkisstj. við þeim kröfum iðnaðarmanna, að láta hæfa menn veita þessu fyrirtæki forstöðu, og samt lætur hann samþ. á þingi iðnaðarmanna, að aðeins þeir menn, sem séu vel til þess færir, skuli settir til slíkra starfa. Þessi hv. þm. ætti að gera öðruvísi hreint fyrir sínum dyrum en að flangsa hér með þær pípur, sem ég kem með.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að þessi mikli verðmunur, sem sannað er nú og óhagganlegt, að er á vörum einkasölunnar og því, er áður var, sé ekki þannig, að almenningi blæði fyrir hann. En vitanlega er það svo, að almenningi blæðir. Hver sá, sem nú fer í búðir raftækjasalanna, sannfærist áþreifanlega um það, að hann verður að kaupa hlutina fyrir hærra verð en áður. Gamall málsháttur segir: „Grísir gjalda, en gömul svín valda“. Vitanlega fer og hér saman orsök og afleiðing, og ekki er hægt að hækka verð vörunnar í heildsölu án þess að útsöluverð hækki líka og almenningi blæði. En einkasalan hefir ekki haldið sama verði og áður var hjá heildsölum, og annaðhvort er, að einkasalan kaupir hærra verði en áður, eða álagningin er svo miklu meiri, nema hvorttveggja sé. Það lítur út fyrir, að skipt sé við þau þýzk verzlunarfyrirtæki, sem ekki láta vöruna nema með hærra verði en áður, og að þau beztu sambönd, sem áður voru, séu nú farin forgörðum, og að nú sé verzlað við aðra, sem á engan hátt gefa eins góð kjör, og niðurstaðan er sú, að varan er dýrari en áður til almennings, ekki eins góð, og er þá verr farið en heima setið, og öllum almenningi blæðir fyrir þessa ráðsmennsku. Öllum þeim, sem nú ætla að fara að rafvirkja og raflýsa og einkasalan ætlar að verzla við, er gott að vita, að það er tilætlunin að láta þeim blæða. Þetta er tilgangurinn, — þegar svo dæmi eru til, sem allir vita, að varan hefir stórhækkað, ekki eingöngu í búðunum, heldur líka hjá einkasölunni sjálfri, svo sem ég nú skal enn nefna eitt dæmi um. Firma eitt hér í bænum þurfti að fá mótor hjá einkasölunni. Þessi mótor átti að kosta 720 krónur, en frá þessu verði mátti svo gefa nokkurn afslátt. Alveg samskonar mótor gat þessi verzlun selt út fyrir 450 krónur, áður en einkasalan kom til sögunnar. Þarna er nærri því 300 króna munur. Þetta eru tölur, sem tala því máli, sem allir heyra, sem vilja heyra! Hvert rennur þetta fé? Sumt af því kemur fram sem ríkisgróði, segir hæstv. ráðh., en hann getur ekki gert grein fyrir nema nokkru af því á þann hátt. Líklega rennur mikið af þessu út úr landinu vegna óhaganlegra innkaupa, og svo fer vitanlega allmikið í allt einkasölubáknið. Þessar ríkisstofnanir kosta mikið fé. — Já, hvert rennur þetta allt? Það er eitt af því, sem er eftir að upplýsa. Þegar fengin er þessi rannsókn, sem nú hefir verið svikizt undan í heilt ár að framkvæma, þá væntanlega upplýsist það. — En ég spyr enn og krefst svars: Hvert rennur þetta fé? Það er eitt af því, sem stendur á þeim skjölum, sem hæstv. ráðh. hefir uppi í stjórnarráði, að þar eru sönnur á það færðar, að einkasalan selur miklu hærra verði en heildsalarnir gerðu áður. Það munar svo miklu, að heildsalarnir gátu, eins og ég sýndi hér áðan með fullsönnuðu dæmi, selt mótora mörg hundruð krónum ódýrari til almennings heldur en þeir sjálfir verða nú að kaupa þá hjá einkasölunni. Þetta hefir ekki verið hrakið og stendur fast, og nú er það öllum kunnugt, að niðurstaðan verður sú sama hér og annarsstaðar hjá þessu fyrirtæki, að illa hefir verið farið að ráði sínu. — Enn má því hér við bæta, að á síðasta þingi gerði ég hér verðsamanburð á 28 algengum vörutegundum og tilkynnti, með hvaða verði einkasalan seldi þær nú og hvert innkaupsverð hefði verið á þeim áður, og sýndi með þessum samanburði, að hækkunin komst upp í 400%. Og þessi samanburður var af handahófi.

Annað það, sem gerir viðskiptamönnum einkasölunnar mjög erfitt fyrir, er það, að þeir verða sem sagt alltaf að kaupa köttinn í sekknum. Ef þeir spyrja um tegundir og verð, segjast þeir fá svör, sem ekki standist. Nýlega ætlaði einn af viðskiptamönnum einkasölunnar að fá hjá henni svokallaðan mótorslökkvara, sem hafði fengizt fyrir 10 krónur áður. Hann gerir samning um verk við viðskiptamenn sína og reiknar með því, að þessi slökkvari kosti sama og áður, en var svo óvarkár að semja ekki við einkasöluna. Þegar til kom, sýndi það sig, að mótorslökkvarinn var kominn í 16 krónur. Maðurinn fer og kvartar undan þessu verði og fær það svar, að þeir kosti þetta, en þó endar það með því, að hann fær slökkvarann fyrir 11 kr. og 50 au. Svo viku síðar þarf maðurinn aftur að fá samskonar slökkvara, og þá er hann aftur kominn upp í 16 kr. Þá höfðu þeir háu herrar í einkasölunni gleymt hinum fyrri viðskiptum! — Þetta er dæmin um áreiðanlegheitin í viðskiptunum.

Þá skal ég nefna annað dæmi. Við þurftum að fá austur í Vík í Mýrdal rafmagnsvél, og gekk það mjög seint. Bjarni í Hólmi gæti sagt sögu um viðskiptin við Ziegler og Sigurð Jónasson. (Hann er í miðstj. Framsfl.). Bjarni hafði beðið einkasöluna að panta þennan mótor og sagt fyrir um það, hvernig hann ætti að vera og hvaðan hann skyldi pantaður. Svo liða margir mánuðir, að ekki kemur vélin. Þá fer Bjarni hingað suður og spyr, hvort vélin hafi ekki verið pöntuð. Jú, þeir segja, að vélin hafi verið pöntuð fyrir löngu og frá tilteknu firma. Bjarna þykir þetta undarlegt, svo hann tekur það fyrir að síma út til firmans og spyrjast fyrir um, hvernig þessu sé varið og hvort vélin hafi í raun og veru verið pöntuð. Og svarið kemur — og eftir allan þennan tíma hafði vélin alls ekki verið pöntuð. Þá fer Bjarni á ný til Zieglers og segir honum, að samkv. umsögn firmans hafi vélin ekki verið pöntuð; en Ziegler segir, að það sé misskilningur, hún hafi verið pöntuð. Þá sendir Bjarni á ný fyrirspurn til firmans. Svo líður dagur, og þá kemur svar, og er þar sagt, að vélin hafi verið pöntuð þá samdægurs. En hvernig var svo þessi vél, sem þá var pöntuð? Það var allt önnur vél en átti að vera, og ónothæf. — Fyrir þessu dæmi eru þær sannanir, sem ekki þýðir að reyna að hrekja, enda veit ég, að hæstv. ráðh. veit þetta. Bjarni í Hólmi hefir aðgang að hæstv. ráðh. og hefir áreiðanlega leyft sér að tala um þetta við hann. Óáreiðanlegheit einkasölunnar eru svo mikil, að ekki þýðir hér í móti að mæla. Þau eru á allra vitorði.

Hæstv. fjmrh. sagðist ekki vita vel, hvers vegna aðallega hefði verið skipt við A.E.G., en það er af öllum vitað, að það er af því, að til forstöðunnar voru valdir þeir menn, sem voru umboðsmenn A.E.G. Nú er því svo farið, að A.E.G. er ekki borin vel sagan af viðskiptamönnunum, og verður þetta þá sérstaklega áberandi, þegar önnur þýzk firmu fá ekki að njóta sinna viðskipta hér, sem hlutaðeigendur þó fullyrða, að væru okkur betri. Þess vegna verðskuldar hæstv. fjmrh. og verður að sætta sig við að fá þá útreið í þessu máli, sem hann fær nú og endranær, og ef hæstv. fjmrh. ætlar ekki að gera á þessu bragarbót, þá má hann vita það, að ekki verður á kröfunum slakað. Þeir menn, sem málið hafa tekið að sér, gefast ekki upp við að berjast fyrir hagsmunum almennings. Og þeir verða æ fleiri og fleiri, sem heimta endurbætur. Það getur verið, að þær komi, en þær verða ekki gerðar, nema þess sé gætt að setja vel hæfa og óvilhalla menn sem forstjóra fyrirtækisins, sem geri sér far um að ná sem beztum viðskiptasamböndum, og má með sanni segja, að grundvöllur sá, sem þessi ríkisstofnun byggir tilveru sína á, eigi ekki að vera sá, að ganga út frá því að græða sem mest á viðskiptamönnum sínum með því að hafa okurálagningu á vörunum. Það er að fara úr öskunni í eldinn.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þessir menn, sem hér ættu hlut að máli, væru aðeins raftækjasalarnir. En ég hefi sýnt það og sannað með dæmum og rökum, sem hann mun ekki reynast maður til að hnekkja eða hrekja, að hér á allur almenningur hlut að máli. Hann sagði, að þetta væri fram komið af því að nokkrar raftækjaverzlanir hefðu orðið hræddar um hagsmuni sína. En eftir því, sem mér hafa sagt þeir menn, sem þessu eru kunnugir, þá er ekki hægt að klína þessu á verzlanirnar, og þetta fellur um sjálft sig. Því að vitað er, að það er sameiginlegt hagsmunamál almennings, að hér verði betur gert. Enda er það sýnt samkv. því dæmi, sem ég tók um verðlag, að samskonar mótor, sem hjá einkasölunni átti að kosta 720 kr., hafði áður verið seldur á 450 kr., að hér er ekki aðeins verið að tala um fáa menn, sem vilja gæta hagsmuna sinna. Eða þegar einkasalan vill selja númerakassa fyrir 42 krónur, en þessir númerakassar fengust áður fyrir 18 kr. og 50 aur., — þá er ekki hægt að segja, að verzlanirnar hafi verið að hagnast á þeim með óhæfilegri álagningu.

Þá fór hæstv. fjmrh. nokkuð út í bifreiðaeinkasöluna. Eftir því, sem viðskiptamennirnir segja, er óhagkvæmara að skipta við hana en áður var við bílasalana. Þótt ef til vill sé hægt að fá sömu tegundir af bílum, þá eru þessar sömu tegundir miklu dýrari en þær voru áður.

Þetta hefi ég sýnt með tólum, og hefir það ekki verið hrakið. Þessi munur er svo mikill, að oft munar mörg hundruð kr. á hverri bifreið. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að ef um chevroletbifreiðar hefði verið að ræða, þá hefði verið hægt að selja þær ódýrari, ef margar bifreiðar hefðu verið keyptar í einu, en það segja þeir, sem bezt vita, að sé hreinn uppspuni, og hefir hann annaðhvort spunnizt af fávizku hæstv. fjmrh. eða öðrum verri toga. Hinsvegar fer hæstv. fjmrh. með vísvitandi rangan málsflutning með því að gefa í skyn, að við teljum vöruna lakari fyrir það eitt, að hún er flutt af einkasölunni. Vitanlegt er það, að ef það eru sömu bílarnir, sem menn fá, þá eru þeir jafngóðir, hver sem selur þá, og það hefir enginn sagt, að þeir hafi orðið verri fyrir það, að einkasalan flutti þá, — það hefir engum dottið í hug. En hinsvegar eru viðskiptin verri, þegar allt verður dýrara. En það, sem hefir versnað, er gúmmí og hjólbarðar. Nú vitnaði ég til þess, sem hvorki hæstv. fjmrh. né forstjóri einkasölunnar hafa borið við að hrekja, að það kemur maður hér fram með það í opinberu blaði, formaður vörubílastöðvarinnar Þrótts hér í Reykjavík, og fullyrðir, að þessi vara sé nú bæði verri og dýrari en áður var. Þetta er óhrakið. Það eru til vottorð frá bílstjórum, sem sýna, að þetta gúmmí endist ekki lengri veg en 10–14 þús. km. móts við það, að þær tegundir, sem áður voru, entust 20–30 þús. km. Það er með öðrum orðum helmingi minni ending, og má þá með sanni segja, að miklu muni á gæðum. Þá hefir það einnig staðið ómótmælt, sem bílasali skrifaði hér í Morgunblaðið. Þótt hæstv. ráðh. hafi ekki mikið álit á þessum bílasala, hefir hann ekki treyst sér til að hrekja ummæli hans. Það verður því að teljast upplýst, að þetta gúmmí stenzt alls ekki samkeppni hvað gæði snertir, og við því væri í sjálfu sér ekkert að segja, ef verðið væri þá þeim mun lægra, því að það er algengt, að framleiðsla er misjöfn að gæðum og höfð misjöfn að gæðum, til þess að hægt sé að selja hana með misjöfnu verði, en samanburði á þeim hlutföllum, sem eru á milli verðs og gæða, verður hvert firma að hlíta. Annað gúmmíið er í betra áliti en hitt, þótt báðar tegundirnar séu mikið keyptar. En það er ófært og óafsakanlegt, að selja lakari tegundina með hærra verði en hin var áður.

Forstjórinn svokallaði þóttist ætla að fara að andmæla röksemdum mínum og hótaði málsókn. Ég skellti auðvitað skolleyrunum við þessu blaðri hans. Hæstv. fjmrh. var að tala um, að ég hefði tekið eitthvað af ummælum mínum aftur. Ekki var nú sterkari grundvöllur undir þeirri fullyrðingu ráðh. en sá, að í Nýja dagbl. 12. marz kom frá mér yfirlýsing, þar sem ég lýsti yfir því, að öll ummæli mín standi óhrakin, og ennfremur að ég láti hótanir forstjórans sem vind um eyru þjóta eins og hverja endileysu. En svo hefir Morgunbl. átt tal við forstjóra frá Pirelli-verksmiðjunum og segir kurteislega í því viðtali, að það hafi á engan hátt ætlað sér að hnekkja áliti Pirelli-verksmiðjanna. Hvernig átti líka Morgunbl. að geta hnekkt áliti þessarar verksmiðju? Ekki gat það haft áhrif á framleiðslugæði þeirra. Héðan var ekki heldur í annað hús að venda en til þeirra. Þetta er því svo fáránlegt, að það tekur engu tali. En þegar þessi ágæti forstjóri ætlar að fara að sanna ágæti hjólbarðanna með vottorðum, þá endar það með því, að hann er ákærður fyrir nafnafals. Að vísu mun umboðsmaður hans, en ekki hann sjálfur, hafa gert sig sekan í þessari óhæfu. En sem sagt, þegar forstjórinn ætlaði að fara að sanna ágæti Pirelli-hjólbarðanna á þennan hátt, fékk hann 3 vottorð, og þar af eitt falsað. Fleiri fengust ekki hjá öllum þeim hundruðum bílstjóra, sem þessa hjólbarða verða að nota. — Hvaða tölur sem hæstv. fjmrh. les, þá er víst, að gúmmíið er dýrara en áður, hvað sem gæðum líður, og er hart, að svo skuli vera.

Það má ef til vill segja, að í þessum viðskiptum felist bjargráð fyrir fiskimenn landsins. En það er ljóst, að mjög varhugavert er að semja um kaup á vörum fyrir háar upphæðir, sem ef til vill er ekki hægt að selja nema með tapi. Það er t. d. alls ekki víst, að það þurfi að nota allar þessar vörur, og þá tapar hið opinbera þrátt fyrir það, að það selur nú þessar vörur með hærra verði en tíðkaðist á betri vörum í frjálsri samkeppni.

Það er nú fullkunnugt, að einkasalan er að svæla undir sig reiðhjólagúmmíið líka, og segja mér hjólreiðamenn, að þar kasti fyrst tólfunum um álagninguna. Hæstv. ráðh. getur náttúrlega sagt, að óþarfi sé að vera að hjóla, en þá verður gúmmíið ekki heldur keypt. En er nú víst, að engin áhætta fylgi þessum miklu innkaupum? T. d. sú, að allir geti ekki staðið í skilum. Því gæti svo farið, að ríkið sjálft skaðaðist fyrr en síðar á þessari verzlun, auk þess sem allur almenningur skaðast.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég sæi eftir þeim ágóða, er ríkið hefði af þessari verzlun. Það geri ég ekki, jafnvel þótt sá gróði sé illa fenginn. En ég tel það ósanngjarnt að kúga landslýðinn til þess að skila ágóða, sem tekinn er af lífsnauðsynjum alls þorra almennings. Ég sjálfur hefi hér ekki mikilla hagsmuna að gæta, þar sem ég hvorki verzla með raftæki né nota þau. En það gerir allur almenningur hér í bæ. Það er ekki heldur af því, að þm. Alþfl. viti ekki, hvert skaðræði er hér á ferð, að þeir fylgja mér nú ekki að málum, heldur af því, að þeir eru múlbundnir til að þegja.