02.04.1936
Neðri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eitt af því fyrsta, sem hv. þm. V.-Sk. fann sér til, var það, að forstjóri viðtækjaverzlunarinnar væri óhæfur, hefði nú veikzt og hefði verið óhæfur áður. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að sjálfstæðismenn hafa á fyrra stigi þessa máls lagt ríka áherzlu á það, að einmitt þessum manni, forstjóra viðtækjaverzlunarinnar, yrði falin stjórn raftækjaeinkasölunnar, svo ríka, að þeir höfðu í hótunum um, að það skyldi kosta mig ráðherradóm, ef það yrði ekki. (ÓTh: Ekki þessum manni). Jú, einmitt þessum manni, enda var einmitt viðurkennt um svipað leyti af sjálfstæðismönnum innan þings og utan, að rekstur viðtækjaeinkasölunnar hefði gengið vel. Því er engin ástæða til að taka hið minnsta mark á þessum nasablæstri hv. þm. V.-Sk.

Mér er kunnugt um það, að hv. þm. V.-Sk. hefir orðið að ganga á eftir rafvirkjameisturunum með grasið í skónum til þess að fá hjá þeim nokkrar upplýsingar frá þeirra sjónarmiði. Þeir álitu ekki heppilegt að hafa hann sem málaflutningsmann fyrir sig. (JJós: Er þá eitthvað að leiðrétta?). Svo hlýtur jafnan að vera í stórum fyrirtækjum, og það hefir aldrei staðið á mér að sinna réttmætum umkvörtunum. Hinsvegar hefi ég æskt þess, að menn sneru kvörtunum sínum í þessu máli fyrst og fremst til forstjórans.

Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að umr. verði frestað að sinni, svo að hægt sé að koma með upplýsingar þegar á þessum fundi, því að ef málið er sett í n. áður, mun hv. þm. V.-Sk. sí og æ vera að klifa á því, að við þorum ekki að ræða það.

Þar sem hv. þm. V.-Sk. segir, að erfitt sé að vita um verðlag verzlunarinnar, vil ég benda á, að ekki löngu eftir að hún var stofnuð var gefinn út verðlisti, svo að þessi fjarstæða hans er úr sögunni.

Hvað snertir A.E.G. vil ég segja hv. 3. þm. Reykv. það, að þótt viðskiptin við það félag séu mikil, eru þau samt ekki óeðlilega mikil. Ég óska þess, að hv. þm. kynni sér þetta atriði, því að hann hefir aðstöðu til þess, og ég veit, að hv. þm. V.-Sk. trúir honum betur en mér. Þetta félag hefir áður haft mjög mikil viðskipti hér í frjálsri samkeppni.

Út í fjas hv. þm. V.-Sk. um vörugæðin skal ég lítið fara. Það má vel vera, að pípur séu eitthvað lakari í Þýzkalandi en Englandi. Hv. þm. lagði hér fram pípu, sem var brotin í annan endann, af því að snúið hafði verið upp á hana. Hv. þm. Hafnf. tók hana og beygði hana eins og á að gera, án þess hún brysti. (GSv: Ég sagði, að hæstv. ráðh. væri ónýtur, eins og pípan). Um það verða menn að dæma eftir verkum mínum, en ekki eftir því, sem ég eða hv. þm. V.-Sk. segir.

Þá kem ég að því, sem hann sagði um bifreiðaeinkasöluna. Hann afgreiddi upplýsingar mínar með því að segja, að hann tryði því ekki, að fordbifreiðar hefðu verið seldar ódýrar en áður. Úr því að hann neitar staðreyndum, þýðir ekki að tala meira um þetta við hann, en þetta er rétt. — Viðvíkjandi verði á gúmmíi vitnaði hann í formann Þróttar. En gagnstæð vottorð liggja fyrir, og ég býst ekki við því, að hann geti dæmt þar á milli. Auðvitað er þetta gúmmí svipað að gæðum og aðrar gúmmítegundir frá heimsfirmum. Annars væri það ekki samkeppnisfært. Blöð stjórnarandstæðinganna hafa verið að halda því fram, að það væri lélegt, en þegar forstjóri frá Pirelli-verksmiðjunum kemur hingað, étur Morgunbl. allt ofan í sig, og hv. þm. V.Sk. líka. Hv. þm. V.-Sk. segist hafa birt yfirlýsingu þess efnis í Nýja dagbl., að hann hafi ekkert tekið aftur. Þetta er rétt, en blaðið bætti þeirri aths. við, að það tæki ekki ábyrgð á yfirlýsingunni. og fáir munu hafa tekið mark á henni. Þótt hv. þm. sé brattur innan þinghelginnar, er hann talar um hin erlendu firmu, er ekki víst, að hann verði það eins utan hennar, eins og reynslan hefir reyndar þegar sýnt.

Hann spyr að því, hvernig Morgunbl. hefði átt að geta hnekkt áliti þessarar heimskunnu verksmiðju. Það er rétt, að Morgunbl. getur það ekki, en það hefir engu að síður reynt til þess.

Hv. þm. svaraði því engu, hvað gera ætti, ef einkasalan yrði lögð niður. Hvort þá ætti að hætta að verzla við Ítalíu á kostnað sjómannanna. Slíkt væri auðvitað ekki nema rökrétt ályktun af því, sem hv. þm. V.-Sk. hefir haldið fram.

Nú stendur svo á, að Ítalía er eitt af þeim fáu löndum í heiminum, sem getur keypt af okkur fisk. En öll viðskipti milli þjóða byggist á þessum tímum á gagnkvæmri verzlun, og því hefir verið miðað að því að kaupa sem mest af vörum frá þessu markaðslandi voru. Því hefir bifreiðaeinkasalan keypt þar vörur fyrir hundruð þúsundir króna og jafnvel keypt vörur fyrirfram til árs, til þess að losa um innstæður vorar á Ítalíu. Einkasalan tekur á sig vaxtatap af þessu. Það má vera, að hv. þm. V.-Sk. telji þetta eftir íslenzkum fiskimönnum, en aðrir gera það áreiðanlega ekki.

Þá var hann að reyna að gera það tortryggilegt, að binda innkaup á hjólhestagúmmíi við Ítalíu. En þetta er gert í sama skyni og að innkaup á raftækjum eru færð til Þýzkalands — til þess að auka möguleika fyrir íslenzkar markaðsvörur í þessum löndum, og til þess að reyna að halda í fullu gildi þeim peningum, sem fást fyrir fiskinn frá þessum löndum og ekki fást yfirfærðir á annan hátt.

Ég mun ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um þetta mál, en vil aðeins beina því til hæstv. forseta að fresta umr., til þess að mér gefist tækifæri til að bera hér fram fyllri gögn í þessu máli til hnekkis framburði hv. flm.