03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að ræða mál þetta mikið við þessa umr., en af því að hv. flm. gerðist svo mjög espur í minn garð í gær og í dag, þá sé ég mér ekki annað fært en beina til hans nokkrum orðum. En ég mun halda mér við það, sem hann beindi til mín, og svo málið almennt, í stað þess að vaða um alla heima og geima, eins og hann gerði. Annars er það ekki venja að ræða mál við 1. umr. eins og hv. þm. hefir rætt mál þetta nú, en það má vera, að hann geri það sakir þess, að hann telji það ekki muni þola umr. í nefnd.

Afskipti þau, sem ég hefi haft af máli þessu, eru lítil. Ég hefi aðeins þrisvar sinnum lítillega komizt í kast við það. Það mun hafa verið það fyrsta, að nokkrir rafvirkjar komu til mín á síasta ári og spurðust fyrir um það, hvort ekki myndi vera hægt að fá lagfæringu á framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Ég hafði nú frá upphafi litið svo á, að einkasalan ætti að verða til þess að færa til betri vegar bæði verðlag og gæði vörunnar, og því sagði ég rafvirkjunum, að ég myndi verða fylgjandi hverri skynsamlegri umbót á stjórn fyrirtækisins, sem orðið gæti til þess, að þessum tilgangi yrði náð. Rafvirkjarnir vildu að sjálfsögðu fara rólega til þess að ná kröfum sínum fram. Úr þessu hefir hv. þm. V.-Sk. svo viljað gera einhver ósköp, og hann hefir boðið upp á próf um það, hversu margir rafvirkjar stæðu að baki honum í þessu máli. Það má vera, að einhverjir rafvirkjar standi að baki honum í þessu tilfelli, en margir munu þeir ekki vera, og það er víst, að þeir, sem fylgja honum að málum, gera það af pólitísku fylgi. Annars býst ég við því, að sú sé almennt skoðun rafvirkjanna, að hv. þm. V.-Sk. sé ekki góður forsprakki í þessu máli frekar en öðrum.

Hin önnur kynni, sem ég hafði af máli þessu, munu hafa verið á iðnþinginu á Akureyri. Og það mun hafa verið með tilliti til þess, sem þar gerðist, að hv. þm. sagði við mig í gær, að það væri bezt fyrir mig að fara varlega í þessu máli, því að á iðnþinginu hefði verið samþ. áskorun um það, að þeir einir yrðu látnir veita þessu fyrirtæki forstöðu, sem hefðu vit og þekkingu á þeim sviðum, sem fyrirtækið nær til. Þetta munu allir vera á einu máli um. Hvort mistök hafi átt sér stað um val forstjórans, veit ég ekki, en ef svo hefir verið, þá er ég fús til að vinna að umbótum hvað það snertir, en ráðið til þess tel ég ekki vera það, að leggja einkasöluna niður.

Þriðju afskipti mín af þessu voru á síðastl. vetri. Þá bar svo til, að til iðnn. Nd. kom umsókn frá manni einum um það, að hann fengi að flytja inn vörur til nýsmiða framhjá einkasölunni. Út af þessari umsókn fengum við forstjórann á fund með okkur, og varð það þá að samkomulagi, að hann lofaði að útvega manninum vörur til nýsmíða frá þeim firmum, sem hann óskaði að fá þær frá, og það með því verði, sem vægast væri hægt að selja honum þær fyrir, en það var með 5–10% álagningu. Var því hér ekki um neina stífni að ræða, eins og hv. þm. vildi vera láta, heldur liðlegheit, þar sem boðizt var til að útvega vörurnar frá þeim firmum, sem maðurinn hafði verzlað við áður. Nú hefi ég spurzt fyrir um, hvort þetta hafi verið gert, og fengið það upplýst, að svo muni hafa verið.

Ég fæ nú ekki séð, að þessi þrjú atriði, sem ég hefi nefnt, réttlæti það á nokkurn hátt, að raftækjaeinkasalan verði lögð niður. Á hinu er ekkert mark takandi og það sannar ekkert nauðsyn þess, að einkasala þessi verði lögð niður, þó að þm. V.-Sk. komi hér með rangar og villandi tölur, sem þegar eru reknar ofan í hann, máli mínu til stuðnings.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, fylgdi ég frv. um einkasölu á raftækjum fyrst og fremst með það fyrir augum, að einkasalan væri trygging fyrir því, að menn gætu fengið góðar vörur fyrir sanngjarnt verð, og eins og ég sömuleiðis hefi tekið fram, mun ég fylgja rökstuddum kröfum, sem miða til umbóta á þessu fyrirtæki, því að mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þetta fyrirtæki frekar en önnur fyrirtæki, sem eru á byrjunarstigi, eigi ekki við einhverja byrjunarörðugleika að stríða, sem ráða þarf bót á.

Þá skal ég með fáum orðum víkja að því tilfelli, sem varð til þess, að þessi hv. þm. sleppti sér alveg hér í þinginu í gær og jós mig óbótaskömmum. Hv. þm. hafði haft með sér pípu hingað inn í þingsalinn, sem átti að sanna það, að raflagningapípur, sem einkasalan seldi, væru úr vondu efni, þyldu ekki beygju. En til þess að reyna bograun pípunnar hafði hann látið snúa upp á hana. Nú hefi ég aldrei heyrt, að bograun hluta væri reynd með því að snúa upp á þá. Að þm. fór svo að, sýndi og sýnir, að hann hefir ekkert vit á því, sem hann er að gera í þessu tilfelli. Eigi að reyna snúningsraun hluta, þá á að snúa upp á þá, en bograun með því að beygja þá. Eins og hv. þdm. muna, þá tók ég pípu þessa og beygði hana, og það alveg án þess að í hana kæmi hin minnsta sprunga. Hv. þm. vildi þá halda því fram, að ég hefði ekki beygt hana nógu mikið, ekki eins mikið og venjulega þyrfti að beygja slíkar pípur, en ég beygði pípuna a. m. k. um 90 gráður, og tel ég, að það muni hafa verið nægileg bograun.

Að endingu vil ég taka það fram, að mér virðist sem öll aðferð hv. þm. í þessu máli hafi verið eins og með pípuna. Þegar hann talar um beygju, á hann við snúning, og þegar hann talar um snúning, á hann við beygju. M. ö. o., það snýst allt öfugt fyrir honum, og það er trúa mín, að enn eigi hann eftir að snúast og bogna nokkrum sinnum, áður en hann kemur þessu máli sínu fram.