28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

95. mál, sveitarstjórnarlög

*Jörundur Brynjólfsson:

Það er rétt, sem hv. fyrri flm. þessa frv. sagði í ræðu sinni, að það er stutt síðan umr. fóru fram um þetta atriði, og er það mönnum þess vegna í fersku minni. Eins og ég vék að við þær umr., þá fer betur á því, að það atriði, sem þá var rætt um, eða sú till., sem þá var borin fram í sambandi við útsvarslögin, væri borin fram í sambandi við þessa löggjöf. Að því leyti er mér ekki ókært, að þessi breyt. er komin fram, en það er öðru máli að gegna um efni breytingarinnar eins og hún er orðuð í 1. gr. þessa frv. Ég get reyndar viðurkennt, að það skiptir enn sem komið er ekki miklu máli fyrir mörg sveitarfélög. En það eru þó tvö sveitarfélög, sem það skiptir máli allverulega. Það er Mosfellssveit og Ölfus í Árnessýslu. Hv. 2. þm. N.-M. benti réttilega á, hvað mikið verður að greiða til sýslusjóðs vegna þessara fasteigna — sumarbústaðanna — í Ölfusinu. Það var rúmlega 1/3, að ég ætla, af því, sem greitt er alls af fasteignum, en vitaskuld er með þessari breyt. komið í veg fyrir, að þeir, sem eiga sumarbústaðina, borgi af þeim, svo að á þann hátt verður þeim ekki íþyngt með þessu, en mér finnst þetta hálfandkannalegt, að flokka húseignirnar og láta menn greiða gjöld af þeim eftir því, hvar þeir eiga heima. Ölfusingar greiða sem sé samskonar gjöld, og utansveitarmenn, sem eiga þessar fasteignir, verða aukalega að greiða af þessum fasteignum sínum þetta gjald til sýslusjóðs. En samkv. þessum lögum á að flokka fasteignirnar í sveitunum eftir því, hvar þeir menn eiga heima, sem þær eiga. Þeir, sem eiga heima í sveitarfélaginu, eiga að borga þetta gjald, sem hér ræðir um, en séu þeir utansveitarmenn, eiga þeir að sleppa við þetta gjald. Þetta kann ég ekki við, en vera má, að hægt sé að færa nokkur rök fyrir þessu, t. d. að því leyti, sem þessi gjöld renna til sýsluvega, að þá slíti þessir menn ekki svo mikið vegunum, en hver einstakur maður í sveitinni slítur þeim kannske ekki heldur mikið. Ég held þess vegna, að það væri sanngjarnari leið, að menn greiddu hlutfallslega gjöld af þessum eignum og ekki sé farið að flokka eignirnar eftir því, hvar eigendurnir eiga heima. Það er fjarri mér að vilja á nokkurn hátt halla á þessa menn, en ég kaun ekki við, að það gildi aðrar reglur um þessar eignir að því leyti, að þær séu skoðaðar sem öðruvísi gjaldstofn heldur en hjá mönnum, sem eiga heima í sveitarfélaginu.

Ég mun því fyrir 2. umr. bera fram brtt. við 1. gr. þessa frv., sem felur það í sér, að eigendur slíkra eigna greiði þetta gjald eins og aðrir. Ég tel það ekki eftir mér að geta hv. dm. kost á að sýna það með atkvgr. sinni, hvernig þeir ætla að flokka menn niður eftir því, hvar þeir eiga heima. (GÞ: Það er ekkert einsdæmi, að það sé gert). Nei, ég sá það við atkvgr. um hitt málið, en það var gott, að maður, sem á einn sumarbústaðinn, greip fram í fyrir mér til þess að minna á þetta. — Við 2. umr. býst ég við að gera frekari grein fyrir þessu.