28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

95. mál, sveitarstjórnarlög

*Gísli Sveinsson:

Það skal vera stutt aths. Hv. 2. þm. N.-M. fór að bera nokkuð saman þessi gjöld, sem hvíla og koma til með að hvíla á þessum 2 hreppum, sem sumarbústaðir eru í, eftir því sem hv. þm. sagði. Ég hefi sýnt hér fram á, að hér er ekki beinlínis verið að leggja nein gjöld á menn, hvorki á fasteignir manna, aðrar eignir né tekjur, heldur er þetta notað sem mælikvarði fyrir skiptingunni milli hreppa. Annars virðist mér, að hv. 2. þm. N.-M. hafi töluverðan skilning á þessu máli. Aftur á móti hv. 1. þm. Árn. veður enn í villu og svima um þessi mál. Eins og ég sagði áðan, fagna ég því mest, þegar þessi hv. þm. er kominn í sinn stól, sem hann hefir ekki með mínu atkv. komizt í, því að það ferst honum betur að sinna sínu forsetastarfi heldur en að tala um þessi mál.