04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Sigfús Jónsson):

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð. Mér finnst hv. þm. V.-Húnv. fara gegnum sjálfan sig, þar sem hann ætlast til, að ríkissjóður leggi fram 4/5 á móts við framlög héraðanna til sýsluvegasjóðanna. Ef héruðin leggja t. d. fram 1000 kr. í sýsluvegasjóð, þá á ríkissjóður samkvæmt till. hv. þm. að leggja fram aðeins 4/5 á móti, en samkvæmt lögunum á hann að leggja jafnmikið, eða 1000 kr. 4/5 af þessari upphæð er ekki nema 800 kr. Þannig hefi ég a. m. k. lært að reikna, en hv. þm. virðist reikna öðruvísi. Þetta er svo augljóst mál, að ég nenni ekki að þrefa lengur um þetta við hv. þm. V.-Húnv.