04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Hannes Jónsson:

Ég vil taka það fram, að ég bjóst ekki við öðru svari frá hæstv. fjmrh. en ég fékk, því að mér skilst þetta vera rökrétt niðurstaða af því, sem stendur um þetta atriði í frv. sjálfu og eins í álitsskjali vegamálastjóra, en hinsvegar gat vel verið, að hv. fjvn. hefði misskilið þetta í fyrra, eins og mér finnst hv. frsm. n. hafa misskilið þetta ákvæði, sem hér um ræðir, og útreikningana í sambandi við lögin sjálf. En það kom ekkert fram hjá hæstv. ráðh. um það, hvort hann teldi þá leið, sem byggist á þeim skilningi, sem við leggjum báðir í þetta atriði, eðlilega eða ekki. Og svo vil ég minna á annað í þessu sambandi, sem æskilegt væri, að hæstv. ráðh. svaraði og það er það, hvernig hann hefir hugsað sér að framkvæma lögin; það væri ákjósanlegt að fá að vita, hvort hann ætlar að framkvæma þau á svipaðan hátt og gert hefir verið, en sú framkvæmd hefir verið hálfeinkennileg. Þau hafa verið framkvæmd þannig, að ráðh. hefir verið heimilt að veita leyfi til meiri álagningar en sem svarar 6‰; héruðin hafa mátt leggja meira á sig, og fengið dálítið á móti, en þó ekki eins mikið og lögin sjálf gera ráð fyrir; eftir þessu er framkvæmdin þannig, að það er aldrei lagt fram jafnmikið af ríkissjóði og héruðunum, en eftir sjálfum lögunum að dæma á að veita þessa heimild skilyrðislaust, og þá færi hlutfallið vaxandi, þannig að framlag ríkissjóðs yrði því meira sem héruðin leggja meira fram.

Ég ætla svo að svara hv. frsm., því að hann virðist gleyma þeim 2‰, sem héruðin leggja fram án þess að ríkissjóður leggi neitt fram á móti. Héruðin komast ekki hjá því, að leggja á sig þetta gjald til þess að komast í þá aðstöðu að fá eitthvert framlag úr ríkissjóði; til þess að geta fengið það minnsta, sem um er að ræða, 1‰, verða þau að leggja á sig 3‰.

Þetta er svo augljóst mál, að hvert mannsbarn hlýtur að skilja það, nema ef til vill hv. 2. þm. Skagf., og furðar mig á því, að hann skuli ekki geta skilið þetta, því að hann er yfirleitt glöggur á tölur, en hann virðist hafa fengið þetta inn í kollinn, svo að hann vill ekki falla frá þessari skoðun sinni, hversu rækilega sem honum er sýnt fram á það rétta í þessu atriði.