14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Mér þykir leitt, að hv. þm. Borgf. skuli hafa farið þessa leið, í stað þess að koma með brtt., sem ég líka bjóst við að hann myndi gera, eftir því, sem honum fórust orð síðast. Mér kemur því nokkuð á óvart, að hann skuli leggjast á móti málinu nú. Aths. þær, sem hv. þm. færði aðallega fram gegn frv., virtust að mestu byggðar á því, að hann hefði ekki kynnt sér málið sem skyldi. Hann taldi það t. d. ókost við frv., að ekki væru ákveðin föst iðgjöld, en það tel ég kost. Frv. er að sjálfsögðu miðað við það, að vátryggjendur geti fengið báta sína tryggða fyrir hverju því tjóni, sem þeir eru tryggðir fyrir nú, og iðgjöldin eiga vitanlega að miðast við það, að tryggingarnar svari kostnaði. Í félaginu verða engir nema þeir, sem í því tryggja, og því kemur það tryggjendunum sjálfum til góða, ef iðgjöldin kynnu að verða sett of há til að byrja með. Yrði nú sú raunin á, að iðgjöldin yrðu sett svo há, að fé safnaðist fyrir hjá félaginu, þá er vitanlega hægt að lækka iðgjöldin fljótlega, og eins má hækka þau, ef reynslan sýnir hið gagnstæða, að þau séu of lág í byrjun. Aðalatriðið verður alltaf það, að miða iðgjöldin við það, að fyrirtækin verði fjárhagslega trygg; annars getur engin innlend vátryggingarstarfsemi staðizt. Iðgjöldin verða alltaf að hrökkva fyrir útgjöldunum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það liggja engir útreikningar fyrir um þetta efni, en það út af fyrir sig getur ekki talizt svo mikilsvert, að rétt sé að ganga á móti frv. fyrir þeirra hluta sakir. Það er og alveg rétt, að sumstaðar starta vátryggingarfélög með góðum árangri, en á öðrum stöðum eiga vélbátaeigendur aftur á móti við þröngun kost að búa í þessum efnum, og er því ekki að ófyrirsynju, þó að gerð sé tilraun til þess að bæta úr því ástandi, sem nú er í þessum efnum hjá okkur.

Mér virðist rétt að geta þess hér, að fyrir síðasta fiskiþingi lá ákveðin ósk frá samábyrgðinni um það, að skyldutryggingar vélbáta yrðu leiddar í lög á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, því að annars myndi hún verða að hætta starfsemi sinni. En í samábyrgðinni er sem kunnugt er sú stofnun, sem hin starfandi vátryggingarfélög endurtryggja hjá. Það væri því óneitanlega illa farið, ef hún yrði gerð óstarfhæf.

Ástæðan fyrir því, að ekki er hægt að áætla iðgjöld fyrir vélbáta á öllu landinu, er sú, að skipin eru ýmist tryggð hjá starfandi vátryggingarfélögum eða í samtryggingarfélögum vélbáta í hinum ýmsu sjávarplássum. Ef þau eru tryggð í þeim vátryggingarfélögum, þá er hæt að fá skýrslur um þau. En þar sem allmikill hluti þeirra er tryggður hjá einkafélögum, þá er vitanlega ekki hægt að fá skýrslur um þau. Yfirleitt er niðurstaðan sú, að í vélbátasamtryggingum, sem starfa fyrir sérstök svæði, eins og í samtryggingu vélbáta við Eyjafjörð, þá geta félögin veitt betri kjör en vátryggingarfélög einstakra manna. Og ennfremur geta þau safnað í sjóði, sem geta orðið til hagsmuna fyrir þau byggðarlög, sem vátryggingarsamböndin starfa í. Ég vil mega vænta þess, að ef hv. þm. Borgf. hefir eitthvað við þetta frv. að athuga, þá sjái hann sér fært að flytja brtt. við það, og mundi ég þá geta fallizt á, að umr. yrði frestað, ef hann óskar eftir því. Enda ætti það að koma að sama gagni fyrir hann.