14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég skýrði frá því áður, að sjútvn. hefði farið rækilega yfir þetta frv., og það er einhuga álit n., að í frv. felist þau ákvæði, sem tryggja vélbátaeigendum það, að þeir geti vátryggt skip sín fyrir hverskonar tjóni með beztu kjörum, sem hægt er að fá hjá starfandi félögum.

Ég skal ekki fara út í það að svara þeim þremur hv. þm., sem talað hafa síðan ég talaði síðast, en út af því, sem hv. þm. Borgf. minntist á í sambandi við það, að frv. um tryggingu fyrir opna vélbáta hefði ekki borið neinn árangur, vil ég aðeins segja það, að það hefir komið í ljós, að ekki hefir verið unnt að stofna og starfrækja sérstök tryggingarfélög fyrir opna vélbáta; hversu nauðsynleg sem þessi lög eru, hafa þau ekki komið að gagni, og koma ekki til framkvæma öðruvísi en í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir.

Það er rétt, sem hv. þm. G.-K. og hv. 6. landsk. tóku fram, að þetta er mikilsvert mál og nauðsynlegt, að menn kynni sér það sem bezt, sérstaklega þeir, sem eru fulltrúar fyrir sjávarútvegskjördæmi. Þetta frv. hefir legið lengi fyrir til athugunar, svo að hv. þdm. hafa haft tækifæri til þess að kynna sér það, og auk þess hefir hver þingflokkur haft sína trúnaðarmenn í sjútvn., sem hefir unnið mjög mikið að þessu máli. Ég skal játa, að það er svo um þetta mál eins og ýms önnur stórmál, að það hefir að sjálfsögðu ekki mjög mikla þýðingu, hvort það kemst fram á þessu þingi, og sé svo, að ýmsir hv. þm. óski eftir því að kynna sér málið nánar, þá gæti ég fyrir mitt leyti fullizt á, að afgreiðsla þess bíði næsta þings, en hinsvegar er þetta frv. flutt eftir beiðni hæstv. atvmrh., sem er ekki viðstaddur, svo að óviðkunnanlegt er að láta fara fram atkvgr. í hv. d. án þess að hann geti sagt sitt álit í þessu máli.

Sjútvn. Nd. hefir haft þetta mál til meðferðar á svo gagngerðan hátt, að ekki er ástæða til að ætla, að sú n. geri frekari breyt. á því; ég vil þess vegna skjóta því til hv. till.manns og hv. þm. G.-K., hvort þeim mundi ekki þykja rétt að láta málið fara til hv. sjútvn. Ed. til frekari athugunar, þótt málið fengi ekki fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.