08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

100. mál, landaurar og verðlagsskrár

Flm. (Jón Pálmason):

Eins og kunnugt er, þá eru lagaákvæði þau, sem gilda um verðlagsskrár hér á landi, frá 1897, og þau ákvæði eru orðin ákaflega úrelt, svo varla er gerlegt að láta þau standa óbreytt, ef menn á annað borð vilja nokkuð með verðlagsskrár gera. Nú vita allir hv. þm., að landaurareikningurinn gamli var á löngu tímabili notaður sem aðalgjaldmælir á mestöllu viðskiptalífi þjóðarinnar, og hann byggðist á verðlagi framleiðsluvaranna til sjávar og sveita, þeirra er hagur framleiðandanna var fyrst og fremst bundinn við. Nú er þetta gersamlega breytt. Eftir því sem lengra líður, og eftir því sem öldurót viðskiptalífsins og gengisbreytingar hafa orðið örari, því minna tillit hefir verið tekið til þessa grundvallar, sem fjármál okkar lands og hvaða þjóðar sem er hljóta að byggjast á, verðlagins á þeim vörum, sem framleiddar eru úr skauti náttúrunnar. Nú er það álit okkar flm. þessa frv., að stefna eigi að því, ef unnt er, að miða viðskipti okkar sem mest við það, hvernig gengur með sölu og verðlag á þeim afurðum, sem hagur framleiðendanna byggist fyrst og fremst á. Hitt er annað mál, að það er talsverðum vandkvæðum bundið að finna eðlileg og fullkomlega ábyggileg hlutföll til þess að leggja eftir í einingar þær vörur, sem þarna, koma fyrst og fremst til greina. Okkur er fullkomlega ljóst, að þarna er undir öllum kringumstæðum þörf breytinga. Hitt er annað mál, hvort við höfum hitt á réttu leiðina að því er þessi hlutföll snertir. En ég vil taka það fram nú þegar, að við samningu þessa frv. höfum við verið í samráði við hagstofuna um þau atriði, sem þar koma helzt til greina, og með tilliti til þess, sem við höfum fengið upplýst í viðtali við hagstofustjórann, sem er manna fróðastur á þessu sviði, höfum við tekið hér upp ýms ákvæði, sem gera algerlega nýja skipun á því, hvernig gengið er frá verðlagsskrám í landinu. M. a. er mjög breytt hlutföllunum milli hinna einstöku vörutegunda, og er það gert með tilliti til þess, hvernig verðlag hefir verið að meðaltali um langt árabil. Í öðru lagi eru teknar upp í þetta frv. og lagðar til grundvallar þær afurðir, sem mesta þýðingu hafa fyrir framleiðendur landsins, en ekkert tillit er tekið til, sumra hverra, í núgildandi verðlagsskrárákvæðum, eins og t. d. mjólk og dilkar, sem eru nú aðalgjaldeyrir íslenzkra bænda. Hitt er ennfremur nýmæli, að láta þær vörur ráða mestu um niðurstöðu útreikninganna, sem mesta þýðingu hafa fyrir afkomu manna, sem eru til sveita mjólk og dilkar, en til sjávar saltfiskurinn. — Hvaða breytingar menn kunna að óska eftir að gera á þessum hlutum, er frá okkar sjónarmiði ekki aðalatriðið, heldur hitt, að fá á þessu nýja skipan og þann grundvöll, sem gerir mögulegt að sjá nokkuð glöggt þær verðbreytingar, sem verða frá ári til árs, og byggja á þeim atriðum, sem helzt kemur til greina að reikna verðlagsskrár eftir.

Að svo komnu skal ég ekki fara um þetta fleiri orðum, ef ekki koma nú þegar andmæli fram, en óska eftir, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og nefndar.