28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2751)

111. mál, loðdýrarækt

Flm. (Þorbergur Þorleifsson):

Frumv. þetta, sem liggur nú fyrir hv. d. til 1. umr., er samið og flutt að tilhlutun hins nýstofnaða Loðdýraræktarfélags Íslands, í samráði við búnaðarmálastjóra. Það er fram komið vegna þeirrar nauðsynjar, sem á því er að fá heildarlöggjöf um loðdýraræktina, sem hlýtur að vaxa hér ört á næstu árum og er þannig í eðli sínu, að óhjákvæmilegt er að setja um hana ákveðnar, lögfestar reglur, til tryggingar því, að hún sé rekin á sæmilegan hátt, einstaklingum og allri þjóðinni til hagsbóta.

Um leið og ég ber þetta frumv. hér fram, get ég ekki látið með öllu undir höfuð leggjast að verja nokkrum tíma til þess að skýra fyrir hv. dm. þetta merkilega mál, loðdýraræktina, og leiða nokkur rök að því, að það er vel þess vert, að því sé fullur gaumur gefinn og allur sómi sýndur. — Það er vitanlegt, að skoðanir eru mjög skiptar hér á landi um þessa atvinnugrein og gagnsemi hennar fyrir þjóðina, eins og vænta má, þar sem hún er í eðli sínu nógu stór til þess, að hin ýmsu íslenzku sjónarmið, bæði hin smærri og hin stærri, fái notið sín. — Loðdýraræktin má teljast ný atvinnugrein í heiminum, aðeins nokkurra áratuga, og alveg ný hér á landi, — ekki nema fárra ára. En loðdýr nefnum vér þau dýr, sem á norðurlandamálum eru nefnd Pelsdýr, — dýr, sem eru aðallega og reyndar flest eingöngu verðmæt (og ræktuð) vegna skinnanna, en ekki vegna annara afurða. Það er aðeins undantekning, ef kjöt loðdýra er notað. eins og t. d. kjöt af kanínum, vatnsrottunni og karakúlkindinni. En þrátt fyrir það, þótt loðdýrin, svona flest, gefi engar aðrar afurðirnar en skinnin, þá eru þau svo verðmæt, að engin dýrarækt er arðsamari en rækt ýmsra tegund, loðdýra. Hve ve1 loðdýraræktin svarar kostnaði, er vitanlega undir ýmsu komið. — bæði því, um hve verðmætar tegundir er að ræða, svo og staðháttum, hve ódýrt er að afla dýrunum fóðurs og svo loftslagi og legu staðanna. Aðalheimkynni verðmætustu loðdýranna er í köldum löndum, þar sem sumrin eru stutt, en vetur langir, og þar má ná beztum þroska og gefa fegurst skinn. Okkar land er allra landa bezt fallið til loðdýraræktar, vegna hnattstöðu sinnar og þess, hve hér er ódýrt og auðvelt að afla fæðu handa dýrunum, sem flest eru kjöt- og fiskætur.

Af því að loðdýraræktin er ný atvinnugrein og hefir ekki langa, reynslu að baki sér, þá hefir hún alstaðar mætt andstöðu, vegna þess ný- breytnihaturs, sem virðist þjá mikinn hluta mannkynsins. En þó að loðdýraræktin sé ný, þá er hún samt nægilega gömul til þess, að það er full sönnun fengin fyrir því, að það er hægt með góðum árangri að hafa hendur í hári þessara dýra og rækta þau, eins og þau önnur dýr, sem maðurinn hefir fyrir örófi alda tekið í þjónustu sína. Og um núv. verðmæti afurða þessara dýra — loðfeldanna — orkar ekki tvímælis. Hitt er e. t. v. ekki öllum ljóst, hve glæsilega reynslu þau hafa að baki sér, — en framtíðarverðmæti þeirra draga margir í efa.

Ekkert er eins öruggt á að byggja eins og reynslan. En hvað segir nú reynslan í þessu efni, og hvað er hún gömul? Við teljum okkur vita nokkuð aftur í tímann um lifnaðarhætti mannanna. — a. m. k. 4000 ár ná sagnirnar, þær sem okkur er kunnugt um, eða jafnvel í einstökum atriðum allt að 6000 ár aftur í tímann. Allan þennan tíma, eða frá því fyrst hófust sögur, hafa loðskinn verið verðmæt og dýr vara — jafnvel stundum verið notuð sem verðmælir í stað peninga —, og alltaf hafa, þau verið notuð til fatnaðar, bæði til skjóls og skrauts, og verið meira eftirsótt á öllum tímum en nokkur önnur vara. Okkur er kunnugt af Íslendingasögum, hve miklar mætur Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar á söguöldinni höfðu á loðfeldum, sem þá voru einu nafni nefndir grávara. Hafa margar svaðilfarir verið farnar til þess að ná þeim dýrum, sem höfðu þessa dýrmætu feldi, og höfðu þær oft í för með sér margvíslegar afleiðingar og örlög, og sýnir það, hve mikið var oft og einatt lagt í sölurnar til þess að komast yfir þessa vöru. Konungar fyrri alda lögðu hið mesta kapp á að gera sér skattskyld þau lönd, þar sem hægt var að fá grávöru, en oft þurfti harðfengi til að heimta skattinn, og kostaði oft mörg mannslíf. Einn at ágætustu mönnum, sem Íslendingasögur geta um, Þórólfur Kveldúlfsson, varð að láta líf sitt fyrir það, að hann hafði skattheimtu fyrir Harald konung hárfagra á Finnmörk, og skyldi skatturinn greiðast í grávöru. Var Þórólfur rægður við konung á þann hátt, að hann vor ranglega sakaður um að hafa dregið undan, er hann skilaði skottinum, nokkur bjórskinn og safala.

Á öllum tímum hefir grávara verið þýðingarmikill þáttur í athöfnum og lífi mannanna, og haft margvísleg áhrif í leit þeirra eftir nýjum viðfangsefnum og auðugra lífi. Leitin eftir loðdýrum hefir lokkast mennina lengra og lengra inn í ókunn lönd. Þeir hafa brotizt óraleið inn í myrkvið frumskóganna og lagt leið sína yfir hið ókunna og ómælanlega haf í þeirri von að finna ný lönd, auðug loðdýrum. Þessi leit mannanna á allra mestan þátt í þeirri miklu og víðtæku þekkingu, sem við höfum öðlazt á þeirri jörð, sem við byggjum, og í því, að löndin hafa byggzt; og þó að löndin hafi byggzt eitt eftir annað, er saga loðdýranna og áhrif þeirra í atvinnulífinu ekki þar með búin. Eins og ráða má af því, sem ég nú hefi sagt, þá er loðskinnaframleiðsla og verzlun með loðskinn ein af allra elztu iðn- og verzlunargreinum jarðarinnar. Og gegnum allar þessar aldaraðir, í öllum þeim stórkostlegu byltingum, sem orðið hafa í atvinnuháttum, iðnaði og verzlun, hefir þessi grein iðnaðar og verzlunar alltaf haldið velli og tiltölulega litlum aðalbreytingum tekið frá fyrstu tímum til þessa dugs, að öðru leyti en því, sem hin eðlilega þróun og framfarir hafa skapað. Á ýmsum tímum hefir þessi vara vitanleg, tekið verðbreytingum, en þó oftast verið í hæsta verði, miðað við aðrar vörutegundir. Og allt bendir til þess, að svo muni einnig verða áframhaldandi í framtíðinni um ófyrirsjáanlegan tíma.

Loðskinn eru meiri heimsvara en nokkur önnur, sem við getum framleitt. Markaðurinn fyrir hana er eins víður og rúmur eins og hinn byggilegi heimur. Í öllum löndum og álfum er skinnavara notuð til klæðnaðar, til skjóls eða skrauts, eða hvorstveggja. Loðskinnaiðnaður og verzlun með loðskinn er ein af allra stærstu iðn- og verzlunargreinum jarðarinnar. Ef allt í einu yrði hætt að nota loðskinn til klæðnaðar, eins og lítur út fyrir, að ýmsir geri sér í hugarlund, yrði afleiðing þess stórkostlegra og víðtækara alheims fjárhagslegt hrun en dæmi eru áður til í veraldarsögunni. Undir loðskinnaframleiðsluna og loðskinnaiðnaðinn renna styrkari stoðir en margan grunar. Aðalstyrkurinn liggur að vísu í því, hvað þetta er hentug, nauðsynleg og góð vara. Klæði úr loðskinnum eru bæði hlý, haldgóð og fögur. En jafnframt því, sem þessi vara mælir með sér sjálf, er til mjög víðtækur félagsskapur, sem hefir það m. a. að markmiði að halda uppi verði á þessari vöru og vera á verði um það, að þessi iðn- og verzlunargrein hrynji ekki í rústir. Eitthvert elzta verzlunarfyrirtæki, sem til er, Hudson Bay félagið, sem var stofnað árið 1670 og er því meira eu 366 ára gamalt, starfar að því að útbreiða þekkingu á loðskinnaframleiðslu, efla loðskinnaiðnaðinn, viðhalda honum og halda uppi verðinu eftir mætti. Það hefir staðið af sér öll aldanna veður og aldrei staðið styrkari fótum en einmitt nú. En stundum hefir það átt erfitt uppdráttar, — ekki samt vegna offramleiðslu, ekki vegna þess, að of mikið bærist á markaðinn af þessari vöru, heldur einmitt vegna þess, að þurrð hefir verið á grávöru. Stundum hefir það verið svo, að félagsskapurinn hefir beðið alvarlegan hnekki vegna þess, hve loðskinnaframleiðslan hefir verið lítil. Þannig var það t. d. árið 1872; þá barst svo lítið á markaðinn það ár og nokkurt árabil áður, að fleiri og fleiri deildir félagsins höfðu orðið að leggjast niður vegna þess, að grávöru vantaði til þess að selja. Þannig hefir það jafnan verið, að það hefir verið ekla á þessari vöru, en ekki offramleiðsla. Og það var einmitt vegna þessa, að fyrrnefnt ár, árið 1872, hafði Hudson Bay félagið — eða aðalforstjóri þess. Maunt Royal, ásamt Strathcona lávarði, forgöngu um að gera tilraunir með að rækta silfurref í áheldi eða girðingu — fangelsi. En þessi ekla, sem af og til hefir verið á grávöru, stafar af því, að hin villtu dýr merkurinnar hafa meir og meir gengið til þurrðar, eftir því sem löndin hafa byggzt, — skógarnir verið ruddir, byggðin færzt lengra norður á bóginn, þekkingin vaxið og veiðiaðferðirnar orðið fullkomnari. Á síðari tímum hefir verðið á grávöru margfaldazt, einmitt vegna þess, hvað mikil vöntun hefir verið á þessari vöru, og það, sem kemur á markaðinn af grávöru af ræktuðum dýrum, er svo hverfandi lítið, að þess gætir tæplega á heimsmarkaðinum. Árið 1930 er t. d. talið, að það hafi varla verið 1% — einn of hundraði. En það ár var umsetning Bandaríkjanna einna í loðskinnum 500 milljónir dollara, og veiðimenn í Canada er talið, að innvinni sér árlega um 15 millj. dollara, — en sú upphæð, sem er frumverð, margfaldast í umsetningunni, þegar búið er að gera fatnað úr skinnunum og útbúa þau eins og síðustu kaupendur eða notendur vilja hafa þau. Umsetning Þýzkalands við útlönd hefir verið um 700 millj. gullmarka árlega. — Þessi dæmi eru aðeins örfá, en geta gefið góða hugmynd um, hve geysilega mikil umsetning allrar jarðarinnar er í þessari vörutegund, og hve óhemjumörg dýr þurfi til þess að fullnægja eftirspurninni eftir loðfeldum.

Tilraunir þær, sem Hudson Bay félagið gerði árið 1872. fóru út um þúfur og heppnuðust ekki, en nokkrum árum síðar kom til sögunnar sá maður, sem talinn er faðir silfurrefaræktarinnar og var með loðdýraræktarinnar yfir höfuð. Það var Charles Dalton, sem var veiðimaður og skinnkaupmaður á Prince Edwardseyju í St. Lawrenceflóanum í Norður-Ameríku. Tilraunir sínar byrjaði hann árið 1887 og náði fljótlega verulegum árangri. — Verð á silfurrefaskinnum þessi fyrstu ár, sem Dalton tókst að framleiða þau, var geipilegt, svo að einstök skinn komust jafnvel upp í 2700 dollara, og þegar hann byrjaði að selja undaneldisdýr, komst verðið upp í 30 þús. dollara parið.

Fyrsta silfurrefaparið, sem kom til Evrópu, var keypt til Noregs árið 1913 og kostaði 60 þús. krónur. Mun þá mörgum hafa þótt óvitaæði að ráðast í slík kaup, en nú er samt svo komið, að silfurrefaræktin er öruggur og tryggur atvinnuvegur í Noregi og gaf landinu t. d. síðastl. ár í útlendum gjaldeyri um 25 millj. króna. — Fleiri tegundir loðdýra en silfurrefurinn eru ræktaðar í Noregi með góðum árangri. Loðdýraræktin hefir valdið þó nokkrum aldahvörfum í atvinnulífi Norðmanna, — en það eru fleiri lönd en Noregur, sem hafa veitt loðdýraræktinni athygli. Í flestum löndum Evrópu hefir verið byrjað á loðdýrarækt, og það er athyglisvert, að það eru þing og stjórnir þjóðanna, sem hafa haft forgönguna í þessum löndum, og sýnir það, að hér er ekki um neitt hégómamál að ræða.

Tómlæti okkar Íslendinga hefir jafnan verið við brugðið. Það hefir verið einhver versti þröskuldurinn á vegi okkar til sannra framfara og menningar. Í þessu máli hefir það verið eitthvert ægilegasta ljónið í götunni. Þessu máli hefir lítill sómi verið sýndur, nema af örfáum einstaklingum, getulitlum efnalega, eins og þeir menn eru oftast, sem vilja gerast brautryðjendur. — því að það er sjaldnast mikið upp úr því að hafa að ryðja fyrst brautina. Raunar er það svo, að það má loðdýraræktin að nokkru leyti teljast undantekning, því að sumir þeirra, sem á því í sviði hafa gerzt brautryðjendur, hafa að lokum grætt of fjár á loðdýraræktinni. — eins og t. d. fyrsti brautryðjandinn, Charles Dalton. En svo var hann fyrirlitinn og hæddur fyrst meðan tilraunirnar misheppnuðust, að það var almennt á orði haft, að það væri góðverk við fjölskyldu hans að taka hann og drekkja honum með öllum dýrunum. En seinna, eftir að hann hafði grætt tugi milljóna á loðdýraræktinni og byggt kirkjur og skóla og gefið stórfé til almennra þarfa, var hann aðlaður af Bretakonungi. — En svo að ég víki aftur að tómlæti okkar Íslendinga í þessum málum, þá má það ekki lengur eiga sér stað, að látið sé reka á reiðanum með þessa atvinnugrein. Ríkið leggur árlega fram stórfé til atvinnuveganna. Til markaðsleita erlendis leggur það fram hundruð þúsund,, til þess að leita að markaði fyrir framleiðsluvörur, sem mjög tregt er um sölu á eins og sakir standa, en það er ekkert gert til þess að stuðla að því, að framleidd sé sú vara í landinu, sem allir vilja kaupa, eins og er um grávöruna. Og bankarnir, sem raunverulega stjórna landinu, þeir neita að lána nokkuð til loðdýraræktar. Það getur ekki farið saman hjá okkur Íslendingum, að vilja lifa sem frjáls og öllum óháð menningarþjóð og hafa, allt til menningar og lífsþæginda, sem aðrar þjóðir hafa, en nota ekki jafnframt þá möguleika, sem eru í landinu til þess að skapa þau verðmæti, sem þarf til þess að borga skuldir landsins við útlönd og kaupa fyrir þær vörur, sem þjóðin þarf að fá frá útlöndum. Af öllum þeim vörutegundum, sem við getum framleitt, er engin eins auðseljanleg í útlöndum eins og grávara. Og jafnframt því, sem þessi vara er svona verðmæt og auðseljanleg, hefir hún þann kost, að tiltölulega mjög lítið þarf að flytja inn frá útlöndum til þess að framleiða hana. Þá hefir einnig loðdýraræktin þann kost, að hún skapar markað fyrir aðra framleiðslu í landinu. Enga vöru er eins auðvelt að framleiða. Engin vara er eins mikil heimsvara. Í öllum löndum jarðarinnar er þessi vara seld og keypt, eins og áður er sagt. Ef þetta mál er tekið réttum tökum, getur þessi atvinnugrein stuðlað að bættri afkomu atvinnuveganna, og e. t. v. bjargað þjóðinni frá fjárhagslegu hruni.

Eins og kunnugt er, þá er loðdýraræktin aðeins fárra ára hér á landi. Okkar land hefir verið einangrað og lokað fyrir þessari atvinnugrein til skamms tíma. Tímamót í þessu urðu árið 1929, við það, að samþ. var hér á Alþingi þáltill. frá Gunnari Sigurðssyni á Selalæk um að leyfa innflutning á lifandi refum. Það sama ár voru svo fyrstu silfurrefirnir fluttir inn af Emil Rokstad á Bjarmalandi. Þeir menn, sem þarna hafa rutt brautina, eiga þakkir skilið fyrir; mætti vel svo fara, að þetta yrði til þess að skapa ný tímamót í íslenzkum landbúnaði. — Þess skal getið, að um allmörg ár áður en silfurrefurinn var fluttur inn höfðu ísl. refir verið hafðir í haldi í eyjum, og enda eitthvað byrjað á að hafa þá í girðingum. Ekkert liggur opinberlega fyrir um, hvernig þetta hefir gefizt. Hin eiginlega loðdýrarækt hér hefst með innflutningi silfurrefsins.

Silfurrefurinn er talinn konungur hinna ræktuðu loðdýra, og er eins og sakir standa einna arðsamastur, a. m. k. af þeim loðdýrum, sem hægt er að rækta hér, eða heppilegt er að rækta hér. Önnur reynsla, sem fengin er af innfluttum loðdýrum, er lítil enn sem komið er, en helzt af minkum og þvottabjörnum, og er útlit á, að það muni ætla að gefast vel hér. — Einnig hefir verið flutt inn karakúlfé. Útlit er fyrir, að ræktun þess, muni geta tekizt hér eins og annarsstaðar, ef réttilega er að farið; en vitanlega tekst ekki að framleiða söluhæf lambskinn — sem á heimsmarkaðinum eru nefnd Persianer, astrakan. broadtail og krimmer, eftir tegundum. — með einblöndun. Það hefir hvergi tekizt, og því ekki hægt að vænta þess, að það takist fremur hér en annarsstaðar. Þess vegna var það hið mesta glapræði, sem hægt er að hugsa sér, þegar leyft var að flytja inn frá Þýzkalandi blendingshrúta, með það fyrir augum að nota þá til einblöndunar. Það hefir, eins og vænta mátti, lítinn árangur borið, og að nota þá til framhalds-tímgunar, til þess að koma upp með tímanum hreinum karakúlfjárstofni, er ekki öruggt.

Við loðdýraræktina eru bundnir miklir framtíðarmöguleikar. Hún er í eðli sínu stórfelld, eins og nýtt, ónumið land. Það er því ekki nema eðlilegt, að menn líti á hana misjöfnum augum, og að fram komi sömu sjónarmið gagnvart henni eins og komu fram hjá þeim Hrafna-Flóka og félögum hans, Herjólfi og Þórólfi smjör, er þeir fyrst komu út til Íslands og höfðu haft hér vetursetu. Þegar þeir komu aftur til Noregs, sögðu þeir skoðun sína á landinu. Flóki lét illa af því, Herjólfur sagði kost og löst, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái. — Nokkuð svipað þessu er viðhorf manna til loðdýraræktarinnar. Hinir svartsýnu og kyrrstæðu sjá í henni enga möguleika. Hinir sanngjörnu og hægfara sjá bæði kost og löst. En hinir bjartsýnu brautryðjendur sjá ekkert nema hina miklu möguleika, sem við þessa atvinnugrein eru bundnir. Það er því rétt í þessu sambandi að gera sér grein fyrir, hvað mælir með og hvað mælir móti loðdýraræktinni.

Það er þrennt, sem loðdýraræktinni er fundið til forráttu — þegar frá er talin ein mótbára, sem er svo óendanlega langt í burtu, frammi í framtíðinni og auk þess ekki nema einstöku stærstu „idealistar“ færu fram (og er e. t. v. enginn svo mikill .,idealisti“ til hér á landi. — a. m. k. hefi ég ekki orðið var þeirrar mótbáru), en hún er sú, að við eigum ekki að rækta dýrin til þess að drepa þau, — við megum ekki taka líf nokkurrar lifandi veru, vel má vera, að þeir tímar komi, að mennirnir bætti að drepa dýrin sér til lífsframfæris, en það er sjálfsagt langt framundan, og þegar það verður, þá gildir það vitanlega eins öll önnur dýr: húsdýrin, fuglana í loftinu og fiskana í sjónum. Það á sjálfsagt mjög langt í land. Við getum því alveg sleppt þessari mótbáru gegn loðdýraræktinni, og þá eru aðeins þrjár eftir, og allar veigalitlar, ef krufnar eru til mergjar. — Þessar þrjár ástæður, sem ég hefi heyrt færðar fram gegn loðdýraræktinni, eru þær, sem nú skal greina: Sú fyrsta: að loðdýraræktin sé í raun og veru arðsöm og ágæt, en það þýði ekki fyrir okkur Íslendinga að reyna að stunda hana, af því að við séum svo hirðulausir og kærulausir og svo miklir sóðar og klaufar, að það sé ekki til neins fyrir okkur að reyna að leggja stund á svo vandasama atvinnugrein. — Önnur ástæðan er: Ótti við offramleiðslu, sem orsaki verðfall. — Þriðja ástæðan: Að eftir því, sem menningin vex, muni menn hætta að nota eins hégómlega hluti eins og loðskinn, sem séu „luxus“-vara, sem auðvelt sé að vera án.

Fleiri mótbárum en þessum þremur hefi ég ekki heyrt hreyft í þessu sambandi. — Um fyrstu mótbáruna er það að segja, að í henni felst svo mikil vantrú á þjóðina, að engu tali tekur. Ef þetta væri rétt, þá gætum við ekki verið til sem sjálfstæð þjóð. Annars er þetta það sama sem kyrrstöðumennirnir hafa alltaf sagt. Meðan Íslendingar áttu enga vélbáta og engin skip, var því haldið fram af þessum sömu mönnum — eða sömu manntegund, réttara sagt — að okkur þýddi ekki að fá þannig báta og skip, því að við mundum aldrei læra að fara með þau. Nú höfum við samt fyrir löngu síðan eignazt gufuskip og vélbáta og lært að fara með og stjórna þeim, eins og annara þjóða menn. En meðferð loðdýra er ekki eins vandasöm og menn ætla, og ólíkt vandaminni en meðferð sumra húsdýranna, sem þjóðin hefir verið að fást við í 1000 ár. Sem dæmi um það, hve auðvelt er að hirða t. d. silfurrefi, skal ég geta þess, að frá því í byrjun maímán. síðastl. og til októberloka hirtu tveir drengir, 11–12 ára, 14 silfurrefi heima hjá mér, og fór það vel úr hendi. — Það skal þó viðurkennt, að mikil mistök eiga sér stað hjá ýmsum, sem eru að fást við silfurrefarækt.

Önnur mótbáran, offramleiðsla, er þess verð, að hún sé tekin til athugunar, — en það eru lítil líkindi til þess, að offramleiðslu þurfi að óttast í náinni framtíð, vegna þess að villtu dýrin ganga meir og meir til þurrðar, og síðan farið var að framleiða grávöru af ræktuðum dýrum hefir það sýnt sig, að það er yfirleitt miklu betri vara; hárin á loðskinnunum eru eins og grasið á jörðinni, eins og blómin, en aðeins í blóma örstuttan tíma. T. d. er silfurrefurinn aðeins nokkra dag, á hverju ári með fegurstan feld, og þá er feldurinn tekinn, þegar hann er með fallegustum gljáa. Að hinum villtu dýrum merkurinnar er ekki hægt að ganga á þeirri stundu, sem heppilegust er; þar ræður tilviljunin, og það er líklega tiltölulega sjaldgæft, að það takist að veiða þau þann dag, sem feldurinn er fegurstur. — Jafnvel þótt hætta geti stafað af offramleiðslu, þá mundi það fyrst koma niður a þeim þjóðum, sem hafa erfiða aðstöðu til ræktunar loðdýra vegna óheppilegs loftslags og erfiðleika með að afla ódýrs fóðurs handa dýrunum. Hvað þetta snertir erum við Íslendingar betur settir en flestar aðrar þjóðir; offramleiðsla á heimsmarkaðinum mundi því síður koma við okkur en aðrar þjóðir.

Þriðja atriðið, að hætt verði að nota loðskinn vegna þess, að það sé óþarfa vara, er eins og hver önnur fjarstæða. — Í fyrsta lagi er það nú ekki rétt, að loðskinn séu óþarfavara. Í mjög mörgum löndum er vetrarkuldinn svo mikill, að það er ekki hægt að koma út nema klæddur í hlýjum fötum, og þá helzt loðfeldum. Alltaf færist byggðin lengra og lengra norður á bóginn, í kuldann og myrkrið. Síðan bílarnir komu til sögunnar hafa vetrarferðalög aukizt stórlega í köldum löndum, en bílarnir eru köld farartæki; hin mikla síaukna notkun þeirra eykur stórlega þörfina fyrir notkun loðskinna. Ýmsir halda því fram, að við eigum að framleiða aðeins það, sem þeir nefna gagnlegar vörur, — en svo kalla þeir helzt og fremst það, sem étið verður. En sannleikurinn er sá, að við eigum að framleiðu seljanlegar vörur. Við eigum, ef við getum, að framleiða tízkuvörur, sem eru eftirsóttar á heimsmarkaðinum. Sauðakjötið okkar er ágæt vara — eða svo teljum við —, en samt tekst okkur ekki að selja það í útlöndum með því verði, að borgi sig að framleiða það. Hvers vegna ekki að breyta því í loðskinn, þessa góðu og auðseljanlegu vöru, á þann hátt að nota lélegri tegundir kjötsins til fóðurs handa loðdýrum? — Það er líka einn stór kostur við loðdýraræktina, að með henni skapast stórkostlegur markaður fyrir ýmsa aðra framleiðslu, sem þegar eru söluvandræði með, og svo eru líka stórkostlegir möguleikar um aukning ýmiskonar landbúnaðarframleiðslu, sem skapast við loðdýraræktina.

Því verður ekki neitað, að þótt loðskinn séu gagnleg vara, þá eru hinar dýrari tegundir að vísu „luxus“-vara, og einmitt þess vegna er meiri trygging fyrir því, að verðið haldist uppi. Því að það er nú svo, að eftir því, sem menningin vex og tæknin verður meiri og vinnan arðsamari, eftir því vex eftirspurnin eftir luxusvörunum. Þetta er svona, og það verður að taka það eins og það er. Luxusvörunum má skipta í tvo flokka, — annarsvegar þær vörur, sem eru beinlínis skaðlegar nautnavörur, og hinsvegar þær, sem á engan hátt eru það, og undir þann flokkinn heyra einmitt loðskinnin.

Á miðöldunum voru loðskinn eingöngu notuð af karlmönnum; seinna var farið að nota þau jöfnum höndum af konunni, og nú eru hin dýrustu loðskinn skartgripir kvenna. Nú hefir það jafnan verið svo, að það hafa verið lítil takmörk fyrir því, hvað maðurinn hefir lagt í sölurnar til þess að auka fegurð konunnar, og það virðist alltaf halda áfram, og því meira sem menningin vex. Fallegir loðfeldir, sem er smekklega fyrir komið, auka fegurð konunnar og gera hana tígulegri í framgöngu. Þetta virðist vera haft fyrir satt um allan heim, og á meðan svo er þarf ekki að óttast verðhrun á grávöru.

Þótt loðdýraræktin sé ung hér á landi, er fengin af henni dálítil reynsla, þó aðallega af silfurrefnum. Hvernig er nú sú reynsla? Ég held mér sé óhætt að segja, að hún sé alstaðar góð, þar sem fylgt er settum reglum, sem byggðar eru á reynslunni, og öll meðferð og fóðrun dýr- anna er vönduð. Vitanlega getur viljað til eitthvert sérstakt óhapp í einstaka tilfelli; en það er tiltölulega fágætt. Hinsvegar er það vitanlega svo með þessa ræktun eins og allt annað, að ef ekki er fylgt þeirri reynslu, sem vel hefir gefizt, og vanrækt að hirða og fóðra dýrin vel, þá er arðurinn enginn og ekkert nema kostnaður að hafa dýrin. En þetta gildir einnig um alla aðra ræktun og allan annan atvinnurekstur. Þeir, sem kunna að taka hlutina réttum tökum, halda velli í þessu sem öðru: en hinir verða, að gefast upp, — Eins og eðlilegt er, spyrja menn um, hver sé arðurinn af loðdýraræktinni, — hver sé arðurinn af t. d. silfurrefaræktinni hér á landi. Þetta er ekki hægt að leggja fram reikningslega, því að um það vantar allar skýrslur. Hver arðurinn verður, er svo feikilega mismunandi og fer eftir svo mörgu. Verð skinnanna er svo afarmismunandi, eftir því hvað skinnin eru falleg; t. d. er nú í kreppunni verð silfurrefaskinna á heimsmarkaðinum í flestum tilfellum ekki undir 100 kr., og svo upp í 700–800 kr. allra fínustu skinnin. En hinu er hægt að svara, hversu skinnverðið má fara langt niður án þess að það hætti að borga sig að hafa silfurrefi. — Skuldlaust silfurrefabú, rétt rekið, hjá bónda, sem að miklu leyti getur framleitt og afla þess sjálfur, sem þarf til fóðurs handa dýrunum, ber sig, þótt meðalverð skinnanna fari niður í 100 kr. En svo lágt verð a silfurrefaskinnum hefir aldrei þekkzt. Þessi ár í kreppunni hefir meðalverð skinnanna oftast verið um það bil í ísl. krónum frá 180–200 kr. á skinnauppboðum í stórborgum Evrópu.

Sem dæmi um það, hvað silfurrefarækt getur verið fljót að borga sig hért á landi, ef rétt er að farið og um góð dýr er að ræða, skal ég skýra frá því, að í fyrrahaust keypu nokkrir menn í félagi eitt „tríó“, sem svo er nefnt, þ. e. 2 læður og 1 karl, fyrir 1500 krónur. Í vor fæddust svo 7 yrðlingar, sem allir lifðu. Er það að tölunni til tæplega meðalviðkoma. Í haust var tríó selt fyrir 1500 kr., en 4 yrðlingunum var slátrað. Í marz var komið með þessi 4 skinn hingað til Rvíkur; voru 3 af þeim mjög falleg en 1 í meðallagi. Skinnin seldust strax hér í bænum, — eitt á 400 kr., tvö á 350 og eitt á 200 kr., eða samtals öll þessi 4 skinn á 1300 kr. — Á einu ári hefir þannig þetta félag fengið allan stofnkostnað sinn og; framleiðslukostnað greiddan, og meira til. Býður nokkur atvinnurekstur betur? — Frá öðru dæmi skal ég skýra, sem er nú að vísu ekki eins fagurt, en gæti verið til viðvörunar og sýnir, hvernig ekki á að reka þessa atvinnugrein. Ég skal að vísu taka það fram, að ég get ekki ábyrgzt, að sagan sé sönn, þó að heimildir mínar séu að vísu góðar. En það skiptir ekki svo miklu máli, því hún gæti verið sönn, og ég veit með vissu um svipuð dæmi.

Eitt haust keyptu nokkrir menn í félagi rúmlega 20 silfurrefi, falleg dýr frá tveimur góðum búum. Þeir fengu góðan kunnáttumann (frá Noregi) til að hirða dýrin. Allt gekk vel til að berja með; læðurnar allar með hvolpa um vorið, og þeir lifðu allir. En svo þegar kom lengra fram á vorið, datt forráðamönnunum í hug að reyna að spara kjöt við dýrin og fóðra þau sem mest á mjölmat. En það reyndist ekki rétt vel, því að einn morgun, þegar vitjað var um dýrin, voru tvö þeirra upp étin til agna og það þriðja dautt af offylli. Þannig gafst nú sá sparnaður, — og ekki nóg með það, heldur voru hin dýrin, sem eftir lifðu, svo sárt leikin, að helmingur af læðunum var geldur vorið eftir, og sumar af þeim, sem áttu hvolpa, gutu þeim dauðum; má tvímælalaust rekja það til þessarar meðferðar um sumarið.

Margt fleira fróðlegt mætti segja um þetta mál, en ég mun nú fara að stytta mál mitt úr þessu. En ég vænti þess, að af því, sem ég hefi sagt um málið, sé hv. þdm. ljóst, að nauðsyn beri til að setja löggjöf um svo þýðingarmikið málefni, löggjöf, sem m. a. tryggi eftirlit með því, að þessi atvinnugrein sé rekin á heilbrigðum grundvelli, og að svona lagað dæmi, eins og ég gat um áðan, geti ekki komið fyrir.

Um efni einstakra greina frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Það er allt auðskilið mál og skýrir sig að mestu sjálft, og vil ég vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það fljótlega til athugunar og greiði fyrir því, svo að það geti náð fram að ganga á þessu þingi.

Ég vil svo gera það að till. minni, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.