28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

125. mál, framfærslulög

*Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og í grg. frv. segir, er frv. þetta flutt vegna þess, að þó að skammur tími sé liðinn frá því, að framfærslul. nýju gengu í gildi, hefir það komið í ljós við framkvæmd þeirra, að á þeim eru allmiklir annmarkar í einstökum atriðum.

Mæðrastyrksnefndin í Rvík, sem hefir látið sig miklu máli skipta fátækramál og framfærslumál, sérstaklega í Rvík, hefir snúið sér til ýmissa þm. og farið þess á leit, að þeir styddu að því að lagfæra nokkra liði þessara laga, sem þótt hafa koma sér sérstaklega illa í framkvæmd. Ég og hv. 2. þm. Reykv. höfum orðið við þessari beiðni mæðrastyrksnefndar með því að flytja frv. á þskj. — 423.

Ég þarf í raun og veru ekki að láta fylgja þessu frv. mörg orð, því að ef það er borið saman við framfærslul., þá sést greinilega, í hverju breyt. eru fólgnar. En ég mun þó stikla á stærstu atriðunum, til þess að sýna, hvað í frv. felst.

1. gr. frv. er breyt. á 10. gr. framfærslul., þar sem farið er fram á, að fráskilin kona eigi rétt til að fá fullnægt úrskurði sínum á sama hátt og móðir óskilgetins barns. Virðist það í alla staði eðlilegt, að svo sé, því að það er í raun og veru ekki ástæða til að setja fráskilda konu, sem berst fyrir barnahóp, skör lægra um rétt til meðlags með börnum sínum heldur en móður óskilgetinna barna.

Í 2. gr. frv. er farið fram á breyt. á 15. gr. framfærslulaganna, þar sem talað er um, að ekki megi taka barn frá fósturforeldrum, ef þeir vilja halda því og krefjast af viðkomandi sveit ekki hærri meðgjafar en meðalmeðlags, en eins og kunnugt er, þá er með meðalmeðlagi átt við meðlag barnsföður. Í framkvæmdinni hefir það verið hálfur framfærslueyrir barns í hverju héraði, nema í Rvík mun það hafa verið um 2/3 af framfærslukostnaði barns á aldrinum 1–4 ára, ef miðað er við það gjald, sem það eina barnaheimili, sem rekið er hér í Rvík, tekur fyrir ungbörn á þessum aldri. En ef á annað borð er miðað við eitthvað ákveðið, þá virðist eðlilegast að miða við venjulega meðgjöf með börnum í því héraði eða þeim hreppi, þar sem fósturforeldrarnir búa. Þess vegna er þessi breyt. fram komin.

3. gr. frv. fer fram á breyt. að því er snertir upplýsingar, sem afla á áður en úrskurður er uppkveðinn um styrk með börnum ekkna. Eins og framfærslul. eru nú, er gert ráð fyrir, eins og þetta hefir verið framkvæmt hér í Rvík, að skilyrðislaust skuli leita umsagnar framfærslunefndar, eða annarsstaðar hreppsnefndar, áður en meðgjöfin er ákveðin. Það hefir komið í ljós hér í bænum, að mörgum ekkjum er það mjög óljúft, að gerð sé einskonar þrotabúsrannsókn hjá þeim, áður en ákveðinn er meðlagseyrir með börnum þeirra. Þær hafa kosið, að framkvæmd yrði öðruvísi hagað á skýrslugerð um heimilisástæður þeirra og hagi yfirleitt, sem bæri á sér minni blæ þess, að um veitingu fátækrastyrks eða sveitarstyrks væri að ræða. Þess vegna er lagt til, að þessu verði breytt þannig, að konan sjálf skuli leggja fram skriflega umsókn, og fylgi henni skýrsla umsækjanda, gefin af henni sjálfri o. s. frv. Þessi breyt. er gerð til þess, að framkvæmd á þessum upplýsingum verði á þann hátt, sem ekkjum er geðþekkari, þannig að þær gætu eftir þessari breyt. notið með meiri ánægju þessa styrks og fráfældust síður að leita hans.

Þá er lagt til í 4. gr. frv., að 26. gr. framfærslul. falli niður, sem hljóðar um það, að þegar ekkja giftist, sem meðlag fær með börnum sínum samkv. fyrirmælum framfærslul., þá falli meðlagsúrskurðirnir sjálfkrafa úr gildi. Mæðrastyrksnefnd finnst engin ástæða til þess að láta meðlagsúrskurðina falla úr gildi í þessum tilfellum, þó að ekkja giftist, heldur að þeir haldist eftir sem áður.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að hver einstakur maður í framfærslunefnd geti áfrýjað áliti meiri hl. framfærslunefndar, sem sá einstaki nm. er ekki ánægður með. En eftir því, sem nú er ákveðið í framfærslul., verður sá, sem sætir afgreiðslu máls hjá framfærslunefnd, sjálfur að áfrýja málinu til yfirstjórnar framfærslumálanna. En það virðist eðlilegast, að þeir menn, sem um þessi mál fjalla og komnir eru í minni hl., geti leitað eftir æðri úrskurði um þessi mál. ef þeim finnst ekki beitt nægilegu réttlæti í meðferð meiri hl. framfærslun. á þeim.

Í 6. gr. frv. eru aðeins smávægilegar breyt., aðallega þær, að áfrýja megi úrskurði barnaverndarnefnda samkv. 41. og 42. gr. l. til ráðh.

Í 7. gr. frv. er ákvæði snertandi 61. gr. framfærslul., þar sem ákvæði eru um það, að ef barnsfaðir deyr, sem samkv. úrskurði yfirvalda átti að greiða meðlag með barni sínu, skilgetnu eða óskilgetnu, þá falli niður skylda heimilissveitar þeirrar, er hann síðast átti, til greiðslu meðlags með barni hans, en heimilissveit móður barnsins eða heimilissveit framfærslumanns greiði hið úrskurðaða barnsmeðlag. Hér í þessari 7. gr. frv. er lagt til, að hið sama gildi, ef faðerni barns er fullsannað, þó ekki hafi verið kveðinn upp úrskurður um meðlagsskyldu föðurins áður en hann dó. En það er altítt, að barnsfaðir gefi með barni án þess að úrskurður hafi fallið um það, og játar þannig faðernið opinberlega, án þess að barnsmóðir þurfi til þess að grípa að fá úrskurð og láta framkvæma hann á venjulegan hátt. Okkur fannst eðlilegt, að sama gilti, þegar faðerni barns er sannað, þó að úrskurður sé ekki fyrir hendi, þegar faðirinn fellur frá.

Þá leggjum við til í 8. gr., að 62. gr. l. falli niður, en hún fjallar um það, að ef móðir barns, sem hefir tekið meðlag eftir dauða barnsföður, giftist, þá falli úr gildi réttur hennar til þess að krefjast meðlags af heimilissveit sinni. Okkur virðist engin ástæða til, að kona, sem á börn og hefir notið meðlags með þeim, missi þennan rétt, þó að hún gangi í hjónaband að nýju. Má segja, að með þessu móti væri verið að spyrna gegn því, að barnsmóðir gangi í hjónaband, því að það væri auðvitað hægt að fara í kringum þessi ákvæði þannig, að maður og kona gætu búið saman sem gift væru, og þá mundi barnsmóðir halda rétti sínum til barnsmeðlags, en ef hún giftist, mundi þessi réttur hennar glatast og hún yrði verr sett. Það sýnist engin sanngirni mæla með, að þannig sé þessu fyrir komið, eins og nú er gert með 62. gr. framfærslul. Leggjum við því til, að hún verði felld niður.

Að lokum leggjum við til í 9. gr., að sett verði svipuð ákvæði í framfærslulögin nýju eins og áður var í fátækralögunum, þar sem bæjarstjórnum og hreppsnefndum var skylt að kveða á um það, hvort greiddur framfærslustyrkur skyldi afturkræfur eða ekki. Þó að það sé rétt, að samkv. nýju framfærslul. missi styrkþegi minni rétt en áður með því að þiggja framfærslustyrk, þá er ekki rétt að halda yfir höfðum manna stórri skuldasúpu, sem ekki eru líkur til, að verði greidd. Hitt er eðlilegast, að slík framlög séu eftir gefin, þegar sýnt þykir eftir öllum aðstæðum, að styrkþegi hafi litla eða enga möguleika til að greiða þann framfærslueyri, sem hann hefir þegið. Fyrir þá, sem framfærslustyrksins njóta, yrði það viðfelldnara og þægilegra, ef þetta ákvæði yrði sett inn í l., en ég tel, að það yrði til örlítils eða jafnvel einskis tjóns fyrir bæjar- og sveitarfélög, því að reyndin er sú, að greiddur framfærslustyrkur fæst sjaldan aftur, jafnvel þótt styrkþegi geti um stund eða jafnvel fyrir fullt og allt losnað við að þiggja slíkan styrk.

Ég vil vænta þess, jafnvel þótt langt sé liðið á þing, að þingið greiði fyrir þessu frv. svo sem unnt er. — Ég legg svo til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.