02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég hafði reyndar búizt við, að hv. meiri hl. allshn. mundi á þessum 4 eða 5 dögum síðan við höfum haldið fund í allshn. hafa athugað þetta mál og fengið þær upplýsingar, sem þeir óskuðu eftir, áður en þeir tækju endanlega afstöðu til málsins. En þó að svo hafi ekki orðið, eins og hv. þm. Snæf. hefir þegar upplýst, þá ætla ég, að það mundi óhætt fyrir þá — og vænti þess, að þeir geti stutt að því — að láta málið halda áfram til 3. umr., því að svo áliðið er orðið þingtímans. Ef svo sú umsögn, sem þeir æsktu eftir, væri á þann veg, að þeir léðu frv. lið, þá væri það betur komið lengra í d. Hinsvegar er nægur tími við 3. umr. þessa máls, ef hv. meiri hl. allshn. af einhverjum ástæðum vill leggja á móti málinu.

Út af því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væri ekki ástæða til þess að gera verulegar breyt. á þeim lögum, sem samþ. hefðu verið á síðasta þingi, er þess að geta, að framfærslulögin voru samþ. í lok síðasta þings, og mér er óhætt að fullyrða, að ekki fekkst jafngóð athugun á því máli og þurft hefði, vegna þess hve áliðið var þings. Mér er kunnugt um, að hv. Ed. mundi hafa kosið, að þar hefðu komið fram breyt. á frv., ef d. hefði ekki álitið, að málinu væri með því stefnt í tvísýnu vegna þess, hve áliðið var þings. Ég vildi þess vegna vænta þess, að hv. þm. A.-Húnv. sæi ekki ástæðu til að bregða fæti fyrir málið við þessa umr., þar sem það gefst væntanlega kostur fyrir hann og aðra að athuga það milli umr. og hlýða á þær umsagnir, sem fram kunna að koma við 3. umr.