04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

125. mál, framfærslulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi ekki hlustað á nema lítið eitt af þeim umr., sem orðið hafa um þetta frv. til breyt. á framfærslulögunum. En ég hefi kynnt mér töluvert ýtarlega þessar brtt. eins og þær liggja fyrir nú, og ég álít, að þær séu flestar til mikilla bóta frá því, sem nú er. Ég hefi ekki séð neitt í þessum till., sem er til hins verra. Ég vil því mæla með því, að þessar breyt. á núgildandi framfærslulögum séu samþ. eins og þær liggja fyrir.

Af þeirri þekkingu, sem ég hefi á þessum málum, fyrst sem fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Reykjavík og síðar sem lögreglustjóri, þá vil ég segja það, að eins og framfærslulögin eru nú, án þeirra breyt. sumra, sem hér er farið fram á, þá eru þau að ýmsu leyti óeðlileg í framkvæmd. Ég vil því mæla mjög með því, að þessar breyt., sem hér liggja fyrir, verði samþ. Þær eru gerðar í höfuðatriðum af þeim aðilja, sem hefir mjög vel kynnt sér þessi mál, og þess vegna byggðar á reynslu í þessum efnum. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þessar till., a. m. k. ekki að svo stöddu, nema þá sérstakt tilefni gefist til þess.