04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á því, að prentvilla hefir slæðzt inn í 6. gr. frv., og vildi ég biðja hæstv. forseta að leiðrétta það, að í staðinn fyrir orðin „eftir því, sem ...“ komi: að því leyti, sem ...

Um frv. þarf ég ekki að vera langorður, þar sem hæstv. forsrh. hefir svarað þeim andmælum, sem fram hafa komið hér í þessari hv. d. Ég vil geta þess út af því, sem hv. þm. V.- Sk. sagði — og tók hann þar undir við hv. þm. Borgf. —, að ég hefði gefið í skyn, að máli þessu væri tryggður framgangur hér í þinginu, vegna þess að mæðrastyrksnefndin hefði rætt við formenn flokkanna, að sé hv. þm. V.-Sk. eitthvað óánægður við kvenfólkið, sem mér fannst hann vera út af því, að það hafi gengið framhjá honum sem einum foringja Sjálfstfl., þá verður hann að eiga um það við hv. þm. G.-K., sem konurnar töldu form. þess flokks og áttu viðtal við.

Í annan stað var þessi hv. þm. að fetta fingur út í það, að notað skyldi vera í frv. orðið kona, eða að ekkja skyldi kölluð kona. Skildist mér sem hann teldi vafa leika á um, að ekkja væri kona. Það getur verið, að hv. þm. þekki eitthvert dæmi þess, að ekkja sé ekki kona, en ég þekki ekkert slíkt dæmi. Ég held því; að orðalag gr. sé vel skiljanlegt, og nægilega skýrt að tala um ekkju sem konu.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um þessa gr. frv. og sagði, að sér virtist óhæfilegt að láta nægja umsókn ekkjunnar einnar, og skildist honum, að eftir þessu gæti valdsmaður ekki annað gert en staðfest skýrslu hennar. En eins og ég hefi sagt við þennan hv. þm. í einkasamtali, þá sé ég ekki, að það hafi neitt að segja, þó að valdsmaður kalli konuna fyrir sig eina eða hafi vitni við, því að hann hefir opna leið til að leita umsagnar allra, sem honum finnst ástæða til eða þörf vera á.

Þetta átti ekki að vera nema stutt aths., og skal ég því ekki orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að frv. fari nú til 3. umr., og þá gefst allshn. tækifæri eða meiri hl. hennar til að athuga þetta nánar.

Út af orðum hv. þm. V.-Sk., að framfærslunefnd Reykjavíkur hefði mælt á móti þessu frv., vil ég taka það fram, sem hann mætti vita, að þessi lög eru fyrir fleiri staði en Reykjavík, eins og þessi þm. tók líka fram sjálfur. Má því ætla, að ágallar frv., þeir sem nú á að bæta úr, komi alstaðar í ljós, bæði í Rvík og utan. En aðalatriði frv. er að gera rétt ekknanna nokkru fyllri og betri en er eftir lögunum, og eiga ekkjur utan Reykjavíkur engu síður rétt á, að bætt séu þeirra kjör.