04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

125. mál, framfærslulög

*Jakob Möller:

Það er ágreiningur milli mín og hv. 1. landsk. um orðalagið á 3. gr. frv., þar sem talað er um að leita staðfestingar á skýrslu konunnar. Hann vill þýða þetta á þá lund, að valdsmaður eigi rétt á að leita sjálfstæðra upplýsinga, burtséð frá skýrslunni. Þetta nær vitanlega engri átt, og ég vil spyrja hv. 1. landsk og aðra hv. þdm., hvort þeir hafi lesið 22. gr. l. og borið saman við frv. — Í 22. gr. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Leita skal valdsmaður álits framfærslunefndar eða hreppsnefndar, þar sem ekkjan á heima, og annara kunnugra, telji hann þess þörf, um hagi hennar, áður en úrskurður er upp kveðinn.“

Hvað þýðir þetta orðalag? Um það er ekki ágreiningur, heldur hvort ávallt skuli leita umsagnar þessara aðilja og auk þess annara kunnugra manna, eða ekki.

Hæstv. forsrh. hefir fellt sinn úrskurð, og ég spyr, hvort ekki megi búast við útúrsnúningi á þessari gr. Ég er sannfærður um, að ef samþ. verður þetta orðalag frv. og kemur til framkvæmda, þá muni hæstv. atvmrh. og fólk af hans sauðahúsi halda því fram, að valdsmanni sé ekki heimilt að leita upplýsinga. Ég hefi spurt 2 lögfræðinga um þetta, og eru þeir sömu skoðunar og ég, að valdsmaður hafi aðeins heimild til að láta konuna staðfesta sína eigin skýrslu. (StJSt: Má ég skjóta inn í? Ég skyldi gjarnan vera með brtt. í þessa átt). Þetta er þó ekki svo mikilsvert í sjálfu sér, heldur hitt, að tekin er af valdsmanni skyldan til að afla sjálfstæðra upplýsinga, en til þess hefir hann enga aðstöðu, nema gegnum framfærslunefnd eða hreppsnefnd, og er sjálfsagt að snúa sér til þeirra, m. a. vegna þess, að ef leitað er upplýsinga annarsstaðar, þá er hætt við, að glundroði kæmi í allt saman, vegna þess að persónur geta notið allt annara kjara eftir umsögn óvilhallra manna, og verða því upplýsingar í þeim tilfellum til óhags. En hvað sem þessu líður, þá er sjálfsagt að tryggja það eins og hægt er, að jafnt gangi yfir alla og allir njóti sama öryggis.

Um önnur atriði skal ég ekki verða langorður. Ég vil benda hv. þm. á, hvernig samræmi muni verða í lögunum, þegar búið er að fella niður 26. gr., þar sem segir svo: „Nú giftist ekkja, sem meðlög fær með börnum sínum samkv. fyrirmælum þessara laga, og falla þá meðlagsúrskurðirnir sjálfkrafa úr gildi.“ Og í 4. gr. l. segir: „Nú gengur maður að eiga konu þá, er átt hefir áður með öðrum manni barn eða börn, og er honum þá skylt að framfæra og ala upp til 16 ára aldurs það eða þau börn hennar,“ o. s. frv. — Til hvers er að fella niður 26. gr., ef skylda mannsins helzt eftir sem áður samkv. 4. gr. alveg tvímælalaus? Hinsvegar virðist sem ruglað sé saman við framfærsluskyldu föður, sem skýrt er tekið fram í 4. gr. Mér finnst því, að þessi breyt., að fella niður 26. gr., sé alls ekki til bóta, heldur til þess eins að valda ruglingi. Svipuðu máli gegnir um það ákvæði frv., að fella niður 62. gr.