29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2795)

129. mál, síldarútvegssjóður

*Flm. (Finnur Jónsson):

Ég hefi flutt þetta frv. eftir beiðni síldarútvegsnefndar, og hefir hún samið frv. samkv. ósk félags síldarframleiðenda á Akureyri og við Eyjafjörð. Svo sem kunnugt er, þá er síldarútvegurinn að verða annar helzti atvinnuvegur þjóðarinnar, eða a. m. k. svo mikill þáttur í þjóðarframleiðslunni, að full ástæða er til þess fyrir ríkisvaldið að hlúa sem bezt að honum. Nú hefir það verið svo með þann hluta síldarútvegsins, sem síldarsöltun heitir, að til hans hafa menn ekki haft neina aðstöðu til þess að fá lánað rekstrarfé. Er það að vísu nokkuð skiljanlegt, þegar litið er á, hvað áhættusamur atvinnurekstur þetta hefir löngum verið. En með þeim ráðstöfunum, sem ríkisvaldið gerði með skipun síldarútvegsnefndar, þar sem hún hefir bæði eftirlit með framboði á síld og að ekki sé framleitt meira heldur en líkindi eru til, að seljist, þá er ekki hægt að neita því, að skipt hefir nokkuð um í þessu efni, þannig að síldarsöltun er ekki nærri eins áhættusöm síðan sú löggjöf var sett eins og áður var. En á síðastl. ári varð þó engin breyt. á aðstöðu síldarsaltenda hjá bönkunum, svo þeir eru enn komnir upp á náð og miskunn erlendra síldarkaupmanna að því er rekstrarfé snertir, og verða þar af leiðandi að sæta verri kjörum heldur en ef þeir hefðu t. d. sömu aðstöðu hjá bönkunum eins og saltfisksframleiðendur, í stað þess að það hefir verið og er enn svo, að það þýðir lítið fyrir síldarsaltendur að snúa sér til bankanna í því skyni að fá rekstrarfé. Því er það, að síldarframleiðendum hefir komið til hugar að reyna að koma á fót sinni eigin lánsstofnun, og í því skyni er þetta frv. flutt. — Gert er ráð fyrir, að fé safnist í sjóðinn á þann hátt, að síldarútflytjendur greiði 1% af söluverði útfluttrar síldar og útgerðarmenn 1% af söluverði síldar til bræðslu; ríkissjóður leggi síðan sjóðnum jafnháan styrk á ári hverju eins og það, sem síldarútvegsmenn leggja fram, og auk þess renni svo fyrst um sinn það fé í sjóðinn, sem síldarútvegsnefnd kann að hafa umfram 15000 kr. tekjuafgang á ári. Í venjulegu ári má gera ráð fyrir, að tekjur sjóðsins geti orðið 140–170 þús. kr., þannig að á tiltölulega skömmum tíma mundi sjóðnum safnast töluvert mikið fé til þess að vera einskonar bakhjarl síldarframleiðenda á Norðurlandi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um nauðsyn þessa máls við 1. umr. En ég vil leggja áherzlu á, að síldarsaltendum er það mjög mikið áhugamál, að eitthvað verði gert í þessu efni.

Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að lokinni þessari umr.