25.02.1936
Efri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun reyna að vera stuttorður og ekki fara út í einstök atriði, þótt segja mætti, að nokkurt tilefni hafi gefizt til. Ég vil fyrst láta ánægju mína í ljós yfir þeirri rödd, sem fram kom frá síðasta ræðumanni um það, hvað vel hefði tekizt skipun þessarar ágætu n. Var að vísu ekki við öðru að búast, eins og til var stofnað, og var þetta því aðeins staðfesting á því, sem ég hafði gert mér í hugarlund.

Meginhugsun þessa frv. og tilætlunin með flutningi þess er að minni hyggju sú, að flytja einhvern vissan hl. af útsvarsbyrðinni yfir á aðra öruggari tekjustofna. Í sjálfu sér hygg ég, að flestir geti verið sammála um það, að í raun og veru sé torvelt að finna leið til þess að leggja sameiginleg gjöld á íbúa sveitar- og bæjarfélaga, sem eðlilegri sýnist og réttlátari heldur en niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. En það er ekki til neins að loka augunum fyrir því, að möguleikinn til að jafna gjöldunum þannig niður, svo að þau innheimtist skilvíslega, er takmarkaður; hafa þar komið fram geysilegir örðugleikar, einkum á seinni árum. Því hefir ýmislegt valdið, auknir fjárhagserfiðleikar o. fl., sem ég skal ekki fara út í. Ég hygg, að ef miða ætti við það, sem réttlátast þætti og e. t. v. eðlilegast, þá yrði að telja sumt af þeim tekjuöflunarleiðum, sem stungið er upp á í frv., beina afturför frá niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. En það er ekki annað en viðurkenning á þeirri nauðsyn að tryggja betur heldur en áður hefir verið gert í sveitarstjórnarl., að bæjar- og sveitarfélögin geti fengið þær tekjur, sem þeim er nauðsynlegt, jafnvel þótt til þess þurfi að fara leiðir, sem ekki eru eins æskilegar eins og niðurjöfnunin.

Ég álít, að l. kafli frv. um fasteignaskatt, sé sjálfsagður, og að þar sé einmitt bent á þann tekjustofn, sem jafnvel sé eðlilegast fyrir bæjar- og sveitarfélögin að nota; þarf ég ekki að eyða mörgum rökum til að sýna fram á það. Verðmæti fasteigna á hverjum stað er yfirleitt mjög komið undir sameiginlegum athöfnum og átökum íbúanna, og að sumu leyti beinlínis skapað af sameiginlegum aðgerðum, auk þess sem það miðast við starfshætti og hag bæjar- eða sveitarfélagsins í heild. Hinsvegar teldi ég æskilegt, að nokkrar ekki óverulegar breyt. væru gerðar á þessum kafla. Ég tel t. d., að húsaskatturinn sé fullhár. Það er gert ráð fyrir, að hann geti orðið 1% í stærstu kaupstöðunum, og þá er eftir að leggja á fasteignaskatt ríkisins, sem er 1½%, auk hinna sérstöku fasteignagjalda, sem lögð eru á hús, holræsagjöld og þesskonar. Hinsvegar tel ég, að lóðaskatturinn mætti vera hærri, a. m. k. í sumum tilfellum, heldur en frv. gerir ráð fyrir. Tel ég eðlilegt, að hann sé þyngri, vegna þess að þar er lagt á varanlegt verðmæti, sem einmitt er að miklu leyti orðið til fyrir sameiginlegar aðgerðir þeirra, sem innan bæjar- eða sveitarfélagsins búa. — Annað atriði, sem ég vil benda á um leið, er það, hvort ekki sé ástæða til í sambandi við þessar ákvarðanir að setja visst hámark, sem fasteignagjöldin til samans megi ekki fara fram úr. Mér finnst það væri eðlilegt, úr því leyft er að hafa önnur fasteignagjöld heldur en þau, sem renna beint til sveitarsjóða eða ríkissjóðs. Í þriðja lagi er það atriði, hver eigi að greiða skattinn. Hér er gert ráð fyrir, að eigandi, eða sá, er eignina notar, greiði hann. Ég held, að ekki sé rétt að slá fastri neinni ákveðinni reglu um þetta atriði. Þegar leigjandi greiðir eiganda hátt afgjald og skapar honum mikinn arð, virðist sanngjarnt, að eigandinn greiði skattinn, en þar sem leigjandi greiðir lágt afgjald, eins og t. d. þegar um erfðafestu er að ræða, þá ætti hann oftast nær að geta greitt þetta. Því held ég, að rétt sé að setja í frv. ákvæði um, að eftir að leiga er komin yfir visst hámark, skuli eigandi greiða skattinn, en leigjandi, sé hún undir ákveðnu lágmarki, en þegar leigan liggur þar í milli, yrði þá að fara um greiðsluna eftir atvikum. Hugsum okkur, að landspilda væri leigð fyrir 10% af mati eignarinnar. Þá finnst mér, að ekki væri sanngjarnt, að skatturinn kæmi á leigjanda. Aftur finnst mér hann vel settur, þótt hann yrði að greiða skattinn, ef leigan næmi ekki meira en t. d. 2%. Ég skýt þessu til hv. n.

Um það ákvæði í II. kafla frv., að leggja á vegaskatt í kaupstöðum, hliðstætt því, sem á sér stað í sveitum, verð ég að segja, að mér finnst það ógeðfellt. Ég held, að hæpið sé að leggja út í þessa breyt. fyrir ekki meiri tekjuvon en gert er ráð fyrir, að af þessum skatti leiði.

Þá get ég illa fallizt á hækkun þá á tollum í ríkissjóð, sem ráð er fyrir gert í IV. kafla. Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ekki sé heppilegt, að bæði ríkið og bæjarfélögin hafi sér til tekjuöflunar sömu tekjustofna. Ég vil því beina því til hv. n., hvort ekki muni hægt að komast hjá að leggja á þessa gjaldaaukningu, og hvort ekki myndi vera tiltækilegra að hækka heldur fasteignagjöldin, sérstaklega af lóðum. Ef ég man rétt, þá er fasteignamatið nálægt 200 millj. kr. Ég geri ráð fyrir, að fasteignaskatturinn nemi samkvæmt þessu frv. um 1400 þús. kr. Ef ráð væri nú fyrir því gert, að fasteignagjald til bæjar- og sveitarfélaga, ásamt fasteignaskatti til ríkissjóðs, næmi að meðatali 1% af fasteignamati, þá myndi sú upphæð nema nálægt 2 millj. kr. Sé nú frá þessu dreginn fasteignaskatturinn til ríkissjóðs, yrði eftir til sveitar- og bæjarfélaga um 1600–1700 þús. kr., eða á þriðja hundrað þús. kr. meira en gert er ráð fyrir í frv. n. Með þessari aukningu á tekjum bæjar- og sveitarfélaga mætti losna við álagið og tollana.

Um skatta af ríkisstofnunum verð ég að játa, að mér finnst þeir eðlilegir. Býst ég ekki við, að hægt verði að komast hjá því að taka slíka skatta umfram það, sem nú er, til sveitar- og bæjarfélaga. En í sambandi við ummæli, sem féllu hér um þetta atriði, verð ég að segja, að þá væri fleira, sem ástæða væri til að láta svipaðar reglur gilda um. Sé t. d. rétt að taka slík útsvör, sem skiptast á alla hreppa á landinu, af tóbakseinkasölunni, þá ætti að vera sjálfsagt að taka þau einnig af öðrum fyrirtækjum, sem hafa aðstöðu til að selja vörur með svipuðum hætti, eins og t. d. Ludvig David.

Um III. kaflann, vörugjaldið, verð ég að segja, að ég tel það vandræðaráðstöfun að þurfa að ganga inn á þá braut. Hinsvegar get ég búizt við, að það sé rétt, að erfitt muni að komast hjá því. Ég tek undir við hv. 1. þm. Reykv. um það, að 50-auraflokkurinn þurfi nánari athugunar við. Vil ég skjóta því til hv. n., að hún athugaði, hvort ekki væri ástæða til að setja einhver ákvæði um það, að ekki mætti hækka vörugjald til hafna upp úr ákveðnu marki. Hér vakir fyrir mér svipað og almennt gildir um hámark fasteignagjalda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða fleiri atriði frv. við þessa umr. Ég tók eftir því, að hv. 1. flm. lagði til, að málinu yrði vísað til allshn. Ég vildi óska, að það yrði látið ganga til fjhn., enda þótt það, fljótt á litið, gæti virzt heyra undir allshn. En þess ber að gæta, að hér er um að ræða breyt. á gjöldum, er snerta sömu gjaldstofna og þá, er ríkið notar sér.