25.02.1936
Efri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2804)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Magnús Guðmundason:

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um málið að þessu sinni. Það má segja, að frv. þetta hafi fengið vonum betri móttökur hér í hv. d. Reyndar hefir það mætt nokkrum aths., og er það ekki nema eðlilegt, þar sem þetta mál mun snerta hagsmuni alls almennings í landinu meira en nokkurt annað þingmál að þessu sinni, því að það snertir hag hvers einasta manns í landinu. Mig langar þó til að gera nokkrar aths. við sumt af því, sem sagt hefir verið um frv.

Hæstv. atvmrh. vill láta hækka skatt á lóðum, en lækka á húseignum. Ef það ráð yrði tekið, hygg ég, að ómögulegt yrði að ná eins miklum tekjum inn fyrir bæjar- og sveitarfélögin og hægt er eftir þessu frv. eins og það er, því að lóðir og lendur eru margfalt minna virði en húseignirnar. Því síður væri þá hægt vegna slíkrar breyt. að fella niður það vörugjald, sem fara á til sveitarfélaga. Ég vil benda á, að þegar er tekinn í mörgum sýslum 4 til 5‰ fasteignaskattur til vega, og þótti n. varhugavert, þar sem þessi skattur er fyrir, að leggja til að fyrirskipa hærri fasteignaskatt í sveitum en 6‰, þar sem svo er nú ástatt með sveitabúskapinn, að við borð liggur, að margar jarðir á landinu leggist í auðn vegna þeirra erfiðleika, sem landbúnaðurinn á við að búa nú. — Annars fannst hæstv. ráðh. víst, að flestir kaflar eða tekjuliðir frv. væru slæmir. Útsvörin væru í raun og veru sanngjarnasti skatturinn, því að þeir, sem jöfnuðu honum á gjaldendurna, þekktu þá alla og þeirra hag, og útsvörin væru lögð á eftir efnum og ástæðum. En það er nú víða ekki nema í orði kveðnu, sem það er gert. Í Reykjavík eru útsvörin t. d. mjög ósanngjarn skattur. Þar er alveg horfið frá því að leggja þau á eftir efnum og ástæðum. Niðurjöfnunarn. þar býr sér til skala til þess að fara eftir, og niðurjöfnunin verður því ekki nema einfalt reikningsdæmi, og lík aðferð, hygg ég, að þegar sé upptekin víða í sveitarfélögunum líka. Útsvörin eru því ekki orðin annað en hreinn tekju- og eignarskattur, og þau eru nú orðin svo há, að ómögulegt reynist að innheimta þau. Þess vegna hygg ég, að það sé alveg rétt stefna að lækka útsvörin með þessum nýju sköttum. Það er rétt, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, að það er ótiltekið, hve há útsvörin megi vera í samanburði við útgjöld sveitar- og bæjarfélaganna, og þess vegna geti þessir nýju tekjustofnar þeirra orðið til þess að auka eyðsluna, og ef eyðslan aukist, þá hljóti útsvörin að standa í stað eða hækka þrátt fyrir hina nýju tekjustofna. En hvað sem þessu líður, þá hygg ég þó, að þessar nýju tekjur bæjar- og sveitarfélaga geri það að verkum, að þessir aðiljar fái betur en áður ráðið við sín fjármál, og ef eyðslan vex, þá mundi hún gera það eins eftir sem áður, þótt engar nýjar tekjur kæmu til. Annars er það svo, að bæjar- og sveitarfélög eru alls ekki einráð um það, hve há þeirra útgjöld eru. Löggjafarvaldið leggur þessum aðiljum á herðar nýjar og nýjar byrðar, sem bæjar- og sveitarfélögin verða nauðug, viljug að taka á móti. — Hæstv. atvmrh. sagði, að sér þætti það mjög leitt að þurfa að leggja á viðbótaraðflutningsgjaldið, vegna sveitanna. Það er vitanlega rétt, en um annað er ekki að gera. Ég get fallizt á það, að kannske væri rétt að hækka tollana, en lækka vörugjaldið, því að mér er ljóst, að tollar eru sanngjarnari en vörugjald. Við erum alltaf í þinginu að reyna að samræma þessi gjöld og finna út sem réttlátastar reglur um álagningu þeirra. Vörugjaldið er nú 50 aurar á kg., og er það jafnt hvort sem eðlisþyngd vörunnar er mikil eða lítil; það er sem sagt jafnt á hvert kg., hvort sem er æðardúnn eða t. d. kornvara eða önnur þungavara, en þetta gjald hefir þann kost, að það er ákaflega auðvelt í innheimtu.

Það hefir verið um það deilt, til hvaða n. þetta frv. ætti að fara hér í hv. d., og hv. meðflm. minn sagði, að hann vildi láta hæstv. atvmrh. ráða því, þar sem þetta væri hans mál og heyrði undir hans ráðuneyti, en ég vil segja, að það sé ekki hans mál, því að hann flytur það ekki, heldur við meðnm. minn í mþn., hv. 1. þm. Eyf. og ég. Það er því okkar mál, og ég vil því ráða um það eins miklu og hæstv. ráðh., til hvaða n. það fer, og ég tel það eigi að fara til hv. allshn., eins og venja er með öll sveitarstjórnarmálefni. (SÁÓ: Ekki bæjargjaldamál). Ég man eftir því, að útsvarslögin 1926 voru í allshn., og er það þó hið hreinasta skattamál bæjar- og sveitarfélaga, sem ég þekki.

Þá hefir verið talað um að n., sem undirbjó og samdi frv., mundi vilja starfa lengi. Ég átti sannast að segja ekki von á því, að n. yrði borið það á brýn. Ég hygg, að það séu ekki margar mþn., sem hafa eftir styttri tíma en hálfan annan mánuð skilað meiri árangri en þessi n. Hitt má segja, að starfinu sé ekki lokið, en n. hefir að mínu áliti unnið það, sem hægt er að vænta á svo stuttum tíma, og n. vildi ekki draga það meira að skila sínum till. með tilliti til þess, sem fram kom á síðasta þingi, að mál þetta þyldi enga bið, því að þá var því eiginlega lofað, að sveitar- og bæjarfélög skyldu sem allra fyrst á þessu þingi fá einhverjar viðbótartekjur.

Þá hefir komið fram ein aths. við formshlið frv. með tilliti til vörugjaldsins, frá hv. þm. Dal., um það, hvað átt væri við með orðinu kauptún í frv. Það má vera, að einstök tilfelli geti komið fyrir, þar sem vörugjaldið verði ekki fyllilega sanngjarnt, og er rétt að athuga það betur, en hitt held ég, að ekki geti farið á milli mála, hvað meint er með orðinu kauptún. En þetta atriði er sjálfsagt að athuga nánar, og svo hitt líka, hvort ekki sé tiltækilegt að láta öll kauptún, hvort sem þau eru sérstakur hreppur eða ekki, fá þessi gjöld, sem hér er um að ræða. En þá getur hæglega komið fyrir, að þessi gjöld verði ekki nægileg fyrir allan hreppinn. Það getur verið, að vöruflutningar að og frá kauptúninu séu svo litlir, að gjöldin af þeim nægi ekki kauptúninu og þeim sveitum eða sveit, sem er í sama hreppi. Ég get nefnt dæmi um það úr mínu kjördæmi. (ÞÞ: Þá er að mynda jöfnunarsjóði fyrir sveitirnar). Það er einmitt nokkurskonar jöfnunarsjóðir, þessi viðbót við tollaálagninguna, og það mætti náttúrlega hugsa sér, að sú viðbót færi í þann sama sjóð. En til þess að breyta þessu, þarf ekki nema örlitla breyt. á frv.

Þá hafa ýmsir spurt, hvernig standi á því, að n. hafi ekki lagt til, að eitthvað af tekjustofnum ríkisins væri tekið í þágu sveitarfélaganna. Þetta er eðlileg spurning. Ég áleit, eins og kemur fram í nál., að það ætti að taka a. m. k. heiminginn af fasteignaskattinum, sem rennur til ríkisins, og helzt allan, og láta hann renna til sveitarfélaganna. En því var ekki hægt að koma fram í n., og þær röksemdir komu fram hjá hv. fyrri flm. þessa máls, að það væri enginn tekjuafgangur hjá ríkissjóði. Það er rétt, að meðan ekki er hægt að ná tekjuafgangi, þá er ekki á rennilegt að taka tekjustofna frá ríkinu, því að það þýðir, að þá verður að útvega ríkinu aðra tekjustofna. Það er ekki nema um tvennskonar tekjustofna að ræða, beina og óbeina skatta. Allir eru sammála um, að beinu skattarnir séu orðnir svo háir, að ómögulegt sé að hækka þá meir. Þá er ekki um annað að gera en óbeinu skattana. — Einn hv. þm., sem hér talaði, minntist á berklavarnagjaldið og að n. hefði átt að leggja til, að það yrði fellt burt. Það kom til orða í n., eins og hv. fyrri flm. hefir tekið fram, en n. áleit það ekki vera á sínu verksviði.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál lengra, en tek það fram, að ég greiði atkv. með því, að þetta mál fari til allshn.