25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bernharð Stefánsson:

Sem annar af flm. frv. hér í d. vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því, að málið er nú komið á dagskrá. En ég verð að kannast við, að ánægjan nær heldur ekki lengra. Hefir hv. allshn. haft málið til meðferðar nú um óvenjulangt skeið. Mætti hugsa sér tvennt, sem hefði getað orðið því valdandi, að málið var svo lengi í meðferð n. Annað það, að athugun málsins hafi verið svo vandasöm og n. orðið að umsteypa frv. að miklu leyti með brtt., en það hefir auðsjáanlega ekki verið, því að brtt. n. eru einfaldar, og getur það ekki hafa tekið svona langan tíma að komast að þeim niðurstöðum, sem n. hefir náð. Hin ástæðan er þýðingarmeiri, sem sé sú, að staðið hafi yfir tilraunir til að komast að samkomulagi í n. En þær tilraunir hafa þá farið út um þúfur, því að n. hefir klofnað í því nær jafnmarga parta og hægt var. Ég tel því litlar líkur til, að málið nái fram á þessu þingi, eins og nú horfir fyrir því, þar sem gert er ráð fyrir, að þing standi ekki nema fáa daga enn, og málið ekki komið lengra en til 2. umr. í fyrri d., en n. fjórklofin. Enda hefir hv. form. allshn. gert sitt til að tefja fyrir málinu, fyrst og fremst með því að bera fram rökstudda dagskrá um, að málinu yrði vísað frá, eftir að það var komið til 2. umr. og til stóð, að samkomulag fengist um að koma því til 3. umr. Mætti hann þó vita, að úti um land er mikil nauðsyn talin á því að bæta að einhverju úr tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga, og er það ekki minnst um vert fyrir þá, sem hann telur sig aðallega bera fyrir brjósti, bæina, að fá nokkurt fé til umráða. Svo bezt verður þeim málum borgið, að hans flokkur sýni í verkinu, að hann beri þau fyrir brjósti.

Að því er snertir brtt. frá einstökum hl. n., þá mun ég ekki verða margorður. Hv. 1. þm. Skagf. flytur nokkrar brtt. á þskj. 350. Um 1. till., að í kaupstöðum og hreppum skuli heimilt að leggja árlegan fasteignaskatt á húseignir og önnur mannvirki, lóðir og lendur, innan þeirra takmarka, sem í gr. getur, verð ég að lýsa yfir því að ég er henni mótfallinn. Mér finnst sanngjarnt, að bæjar- og sveitarfélög ráði því sjálf, hvort þau vilja nota þennan tekjustofn eða ekki. En ég vil benda á, að það er oft, að bæjar- og sveitarfélög leita hjálpar hjá ríkinu, svo að ef slíkar heimildir væru fyrir í löggjöf þeirra, þá væri ekki úr vegi, að tekið væri fram, að um hjálp frá ríkinu gæti ekki verið að ræða, fyrr en slíkar tekjuöflunarheimildir hefðu verið notaðar að fullu. — Um 2. og 3. brtt. hv. þm. get ég sagt það, að verði III. kafla frv. haldið á unnað borð, þá get ég fallizt á þær. Ég er hv. þm. sammála um það, að réttara er að fella niður vörugjaldið af innlendum afurðum og hækka það heldur af innflutningi, en annars hefir verið lagt til, að III. kafli yrði niður felldur. Um þá till. hefi ég það að segja, að ég lít svo á, að ef ríkið lætur ekki af mörkum til sveitar- og bæjarfélaga neitt af þeim tekjustofnum, sem það hefir nú, þá tel ég óhjákvæmilegt, að þau fái nokkrar tekjur af vörum, tolla í einhverri mynd. Hitt tel ég ekkert aðalatriði, hvort þessum tekjum er náð með þeim aðferðum, sem í III. kafla getur, eða IV. kafla. Síðan mþn. gekk frá þessu frv., skal ég játa, að mér hafa orðið ljósari en áður ýms vandkvæði á því að innheimta gjöld samkvæmt III. kafla frv., sérstaklega að því er það snertir, að víða eru allstór svæði, eins og t. d. á Austurlandi, sem þannig háttar um, að þau geta ekki notið vörugjaldsins, en aftur getur verið svo um smá þorp, að þau geta skattlagt stór svæði. Þó viðurkenni ég ekki það, sem kom fram hjá sumum hv. ræðumönnum hér í gær um óréttlæti það, sem hér væri á ferðinni, þar sem sveitarfélögin væru bara skattlögð, en fengju ekkert í staðinn. Þau eiga einmitt að fá tekjur samkvæmt IV. kafla. — Ég gæti, sem sagt, fallizt á, að III. kafli félli niður, en þá yrði líka að hækka verulega tollaálagið samkv. IV. kafla. Þetta hefir nú líka 2. minni hl. n. fundið og lagt til að hækka álagið á tollana um helming. Ég tel, að ef III. kafli yrði niður felldur, þá myndi þetta reynast of lítil hækkun. Ég mun því. ef samþ. verður að fella niður III. kafla, flytja við 3. umr. brtt. um hækkun á þessu álagi. Þá tel ég líka till. þeirra um skiptinguna á þessu fé nokkuð athugaverða. Það virðist að vísu ekki ósanngjarnt í fljótu bragði að skipta eftir fólksfjölda, en það ber þó líka að líta á þarfirnar og það, að frá upphafi hafa flest bæjar- og sveitarfélög haft sínar tekjur af verzlun, en þetta gjald er alveg nýr tekjustofn fyrir sveitirnar. Ég tel það rétt, að taka beri tillit til fólksfjöldans, en það ber engu síður að taka tillit til fleiri atriða. Getur verið, að ég flytji við 3. umr. brtt. um nokkuð aðra skiptingu en þeir gera ráð fyrir, ef þessi till. þeirra nær samþykki. — Þá vill 2. minni hl. n. lækka það gjald, sem síldarverksmiðjum ríkisins er ætlað að greiða til viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga, um helming. Ég get sagt það strax, að ég er algerlega mótfallinn þessari till. Það hafa verið færð fram þau rök fyrir þessari till., að með þessu gjaldi væru skattlagðir menn, sem ekki væru skattþegnar í þessum bæjarfélögum, en það má hið sama segja um æðimargt. Hvernig er það með einstakling, sem rekur síldarverksmiðju? Hann verður að greiða útsvar til bæjarfélags síns. Nú er alveg það sama að segja um slíka verksmiðju eins og ríkisverksmiðjurnar; þær kaupa síld af ýmsum skipum, og ég sé engan mun á þessu. Mig minnir, að það væri hv. 2. þm. S.-M., sem minntist á þetta og viðurkenndi, að það væri eðlilegt, að bæjarfélögin hefðu nokkrar tekjur af þessum atvinnurekstri, vegna þess að þau hefðu útgjöld af honum, og þetta er rétt. Þau hafa útgjöld af honum. Mér er kunnugt um það í mínu kjördæmi, t. d. um Krossanesverksmiðjuna. Þar hefir mjög aukizt byggð vegna þeirrar atvinnuvonar, sem þessi atvinnurekstur gaf, og margt fólk er þar bláfátæki, og ef nokkuð ber út af, þá verður sveitarfélagið strax að hlaupa undir bagga með þessu fólki. Það hefir verið sagt hér, að mörg bæjarfélög vildu fá slíkar verksmiðjur, og þetta er dagsanna. En það er svo með marga hluti, að menn girnast þá og halda, að þeir séu góðir, áður en þeir hafa prófað þá. Ég neita því ekki, að það geti verið gott að fá þessar verksmiðjur og að þeim fylgi tekjur, en þeim fylgir líka áhætta og bein útgjöld. Verksmiðjurnar þurfa að nota tæki bæjarfélaganna, vegi o. s. frv., og ég tel enga sanngirni í því, að verksmiðjurnar borgi ekki til bæjar- og sveitarfélaga, og það er viðurkennt af hv. 2. minni hl. En mér heyrðist ekki betur en að hv. frsm. vildi ekki viðurkenna, að þær eigi nokkuð að borga. Mér skilst, að ef till. minni hl. er samþ., þá mundu verksmiðjurnar á Siglufirði greiða um 12 þús. króna gjald á ári, en ef þær væru á einstakra manna höndum, þá er enginn efi á því, að útsvörin yrðu margfalt hægri. Miðað við undanfarin ár er líklegast, að verksmiðjan á Raufarhöfn mundi borga um 1000 kr. eftir till. 2. minni hl., en á síðasta ári greiddu Norðmenn þar um 4000 kr. Ég held, að samkv. ákvæðum frv. sé ákaflega hóflega í þetta farið og sanngjarnlega, og ég fyrir mitt leyti legg ríka áherzlu á, að það verði samþ. óbreytt, og tel hina mestu spillingu á frv. að róta þessu.

Það horfir þunglega við um framgang þessa máls, en ég verð að taka undir það, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði hér í gær, að betra væri að fá eitthvað í þessu efni heldur en ekkert. Og ég hygg, að jafnvel þótt frv. verði skert að einhverju leyti, þá væri rétt að láta leifar þess ganga fram, ef unnt er. En þessa skerðingu viðvíkjandi síldarverksmiðjunum álít ég, að eigi sízt af öllu að gera. — Um till. 3. minni hl. n., hv. 10. landsk., er ekki mikið að segja. Hans till. er sú, að núverandi fasteignaskattur renni til sveitar- og bæjarfélaga. Það væri náttúrlega gott að geta samþ. þessa till., og samkv. því hefði verið létt fyrir mþn. að vinna, et hún hefði séð sér fært að taka tekjur ríkisins og láta sveitar- og bæjarfélögin hafa af þeim eftir þörfum. Þá hefði verið sjálfsagt að taka fasteignaskattinn.

Hann hefði ekki hrokkið til fyrir gjöldunum, og þá hefði verið hægt að taka tekju- og eignarskattinn o. s. frv. En þetta er í sjálfu sér engin lausn á málinu, nema færð séu um leið fram rök fyrir því, að ríkið megi missa þessar tekjur. Að taka fasteignaskattinn af ríkinu og láta sveitar- og bæjarfélögin hafa hann og vita þó, að ríkið þarf að fá þessar tekjur, það sé ég ekki að sé neinn vinningur. Ef lagðir væru svo á aðrir skattar í staðinn, þá kæmu þeir engu léttar á þegnana, þótt þeir væru látnir ganga til ríkisins, heldur en þótt þeir færu til sveitar- og bæjarfélaga. Hv. 10. landsk. minntist á það sem sína skoðun, að þessi gjöld samkvæmt frv. mundu ekki yfirleitt koma réttlátlegar niður en útsvör. Það má vel vera, að þau komi ekki réttlátlegar niður, en það verður að líta á hlutina eins og þeir eru, og tollar með einhverjum hætti eru eina leiðin til að ná einhverjum tekjum af sumu því fólki, sem er eins sanngjarnt, að nokkuð borgi til sveitar- og bæjarfélaga eins og þeir, sem útsvör eru lögð á. Augljósast er þetta af ýmsum þeim tollum til ríkisins, sem lagðir eru á lúxusvarning.

Ég vék nokkuð að hv. 4. minni hl. n. í upphafi ræðu minnar og get sleppt því nú. Mér þykir öll framkoma hv. form. allshn. í þessu máli alleinkennileg. Sá ráðh., sem þetta mál heyrir undir og skipaði mþn., er flokksbróðir hans, og mætti því ætla, að hv. form. allshn. væri kunnugt um þörf þessa máls, og að hann hefði áhuga fyrir að koma því fram í einhverri mynd. En í stað þess að greiða fyrir því hefir hann gert allt það, sem honum var hægt, til þess að koma því fyrir kattarnef, og er ekki annað hægt að sjá en að honum sé mjög hugleikið að koma í veg fyrir, að það fái framgang.