25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og hv. þdm. er ljóst, fer því fjarri, að samkomulag hafi orðið meðal nm. um þetta stóra mál. Því fer svo fjarri, að það hafa orðið 4 minni hl. í n. um málið, eða einum færri en nm. — 1. minni hl., hv. l. þm. Skagf., vill samþ. frv. að mestu í þeirri mynd, sem það nú er í, þó þannig, að í stað þess, að skylt sé að leggja á fasteignaskatt, þá sé það aðeins heimilt, og að útflutningsgjald á framleiðsluvörum falli niður og innflutningsgjald af nokkrum vörutegundum Ég heyrði ekki ræðu hans alla og veit ekki, hvort hann gerði grein fyrir því, hve miklu það mundi nema að fella niður útflutningsgjald af íslenzkum afurðum og innflutningsgjald af þessum útlendu vörum, sem hér eru greindar — kolum, salti, sementi, olíum, veiðarfærum og járnvörum —, en ég þykist sjá það í hendi minni, að það muni skerða að verulegu leyti þær tekjur, sem mþn. ætlaði sveitar- og bæjarfélögunum með þessu frv.

Þá er hv. 2. minni hl., hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. N.-M. Þeir leggja til, að felldur verði niður með öllu kaflinn um vörugjöldin, en hækkað álagið á tolla um 5–10%, og ennfremur að allar tekjur, sem af því komi, renni í sameiginlegan sjóð, sem svo skiptist á milli sýslu- og bæjarfélaga.

Þá er hv. 3. minni hl., hv. 10. landsk., sem hefir þá sérstöðu, að hann vill taka af ríkinu þann hluta, sem það nú hefir af fasteignaskatti, og láta hann renna til sýslu- og bæjarsjóða.

Loks er svo 4. minni hl., sem leggur til að fresta afgreiðslu frv. og taka það til nýrrar og rækilegrar athugunar. Þar sem það er sýnt, að svo mikill ágreiningur er um það, hvernig málið verði bezt leyst, þá verð ég að hallast að skoðun hv. 4. minni hl., að bezta afgreiðsla málsins sé sú, að fresta því að þessu sinni, en taka það til gaumgæfilegrar athugunar fyrir næsta þing og leita umsagna frá bæjar- og sveitarfélögum, eftir því sem við verður komið, og sjá niðurstöðuna af því á yfirstandandi ári. Þá verður líka komin nokkur reynsla á, hver áhrif sú löggjöf, sem sett hefir verið um alþýðutryggingar, hefir á útgjöld sveitar- og bæjarfélaga, og er þá betra að dæma um þörfina fyrir þessa löggjöf. Ég mun því greiða atkv. með því, að afgreiðslu þessa frv. verði frestað. Verði það ofan á að fresta nú afgreiðslu málsins, þá mundi ég vilja, að sú n., sem málið hefir haft til meðferðar, athugaði einnig útsvarslögin, og að til hennar væru látnar ganga þær umsagnir, sem kæmu frá sveitar- og bæjarfélögum um það frv., sem hér liggur fyrir, og kynni þá að fást viðunandi lausn á málinu. — Þar sem afstaða mín til málsins er þessi, fer ég ekki út í að ræða þær brtt., sem komið hafa frá hinum ýmsu minni hl. nefndarinnar.