29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. 4. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Við 2. umr. málsins tók ég lítinn þátt í umr. Ég fór þá mjög lítið út í stefnu frv. og þá agnúa, sem ég taldi vera á því, svo að ég tel rétt að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég gerði við frv., í fyrsta lagi, og í öðru lagi vil ég gera grein fyrir því, hvers vegna ég hefi lagt til, að ýmsir kaflar frv. verði felldir burt.

Ég hafði í upphafi skýrt frá því í n., að ég mundi geta fylgt I. kafla frv. með nokkrum breyt. A-liður 1. brtt. er að efni til nokkuð svipaður því, sem er í frv., að öðru leyti en því, að það er farið nokkru ýtarlegar út í það, sem á að skattleggja, svo sem ýms mannvirki, jarðarítök, námur, rekaréttindi, veiðirétt í ám o. s. frv. þetta eru vitanlega hlunnindi, sem oft gefa talsverðan arð. Hinir liðirnir, sem á eftir koma, eru í raun og veru tilfærsla á þeim skattstiga, sem í frv. felst. Þetta breytir nokkuð til um tölur frá því, sem þar er. — Við A-lið frv. er t. d. gerð sú breyt., að af óbyggðum byggingarlóðum skuli hækka skattinn, þannig að hann verði ekki lægri en 1% og ekki hærri en 3%. Ég býst við, að svarið hjá þeim, sem á móti mæla, verði, að verðmæti slíkra lóða sé ekki ýkjamikið í ýmsum bæjum utan Reykjavíkur, en í Reykjavík hefir þetta nokkra þýðingu. Það er vitanlegt, að hér í bæ eru til lóðir, sem ástæða er til að leggja háan skatt á, því að það er vitanlegt, að þeim er haldið óbyggðum í því augnamiði að koma þeim í hærra verð, eftir því sem þrengslin aukast í bænum og eftirspurnin eftir lóðum verður meiri. Hinsvegar ætlast ég til, að skatturinn verði lægri, ef slíkar lóðir eru að einhverju leyti nytjaðar til gras- eða matjurtaræktar. Við 2. tölul. A-liðs frv. er gerð sú brtt., að hámarkið er fært úr 1% niður í 0,8%, því að í mörgum tilfellum er það svo, að húsaskatturinn leggst á leigjendur. D-liður 1. brtt., við 3. tölulið a-liðs frv., gerir ráð fyrir, að í stað „erfðafestulöndum“ komi: ræktunarlöndum, — og er skatturinn heldur lækkaður á landi, sem komið er í ræktun, því að ég tel ekki rétt, að lagður sé á óþarflega hár skattur í þessu tilfelli, því að hann gæti dregið úr því, að ræktunarland yrði nytjað. — Brtt. við 1. tölulið B-liðs frv. er aðeins orðalagsbreyt. til samræmis við aðra brtt., sem ég hefi gert um sama efni og ég hefi þegar lýst. Um f-lið brtt. er sama að segja. Í g-lið brtt., sem á við 3. tölulið B-liðs frv., er orðalaginu breytt þannig, að í stað „erfðafestulöndum„ komi: ræktunarlöndum. Í h-lið brtt., sem á við C-lið frv., er gert ráð fyrir, að skatturinn verði ekki lægri en 0,2% og ekki hærri en 0,8%; er þar um hækkun að ræða. Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að leggja þennan skatt á í sveitum, eins og hann er lagður á í kauptúnum og bæjum. — Við 2. gr. frv. hefi ég gert nokkrar orðabreyt., en aðalefnið er það, að ef leigan er 6% eða hærri, þá verður sá, sem eignina á, jafnvel þótt hann leigi hana út, að greiða þennan skatt, en ef leigan er aftur á móti 4% eða lægri, þá greiðir leigjandinn hana, og ef skatturinn er þarna mitt á milli, þá greiða báðir aðiljar, sinn helminginn hvor, og byggist þetta á því, að þegar leigan er há, þá er þetta það mikill arður fyrir lóðareiganda, að hann á í rauninni að vera þess megnugur að greiða skattinn frekar en leigjandinn.

Þetta eru í aðalatriðunum brtt. mínar við I. kafla frv., um fasteignaskattinn. Að öðru leyti er ég samþykkur því, að rétt sé að fara þessa leið í skattaöflun, enda hafa þegar margir bæir löggjöf um þetta efni, þótt hún sé nokkuð mismunandi á ýmsum stöðum.

3. brtt. mín er við II. kafla frv. Ég er yfirleitt andvígur þeirri skattaöflun, sem þar um ræðir. Þó að hún sé að vísu lögfest í öllum hreppum landsins, þá hefir hún ekki samkv. löggjöf seinustu ára náð til bæjanna, en það eru deildar meiningar um það, hvort rétt sé að koma þessu á í bæjunum, og ég leyfi mér að halda því fram, að það hefði litla þýðingu fyrir Reykjavík t. d. að leggja þennan skatt á. Vegagjaldið í Reykjavík er, eins og allir vita, innifalið í útsvari manna, og er lagt á eftir efnum og ástæðum, sem ég tel í raun og veru, eins og nú standa sakir, réttmætasta grundvöll, sem við höfum enn getað farið í öflun skatttekna fyrir bæi á meðan ekki er búið að finna aðra heppilegri og réttmætari tekjustofna. Þar fyrir utan verður alltaf að telja rétt, að þeir beri byrðar til almenningsþarfa, sem yfirleitt eru færastir til þess, en þetta mundi verka svo hér í Reykjavík, að mikill fjöldi manna, sem yfirleitt eru ekki skattlagðir og niðurjöfnunarnefndin í bænum álítur ekki færa um að bera 10 kr., ætti eftir þessu frv. að leggja fram til almenningsþarfa í bænum þessa upphæð, þó að hann sé ekki fær um að greiða útsvarið að dómi n. Allur sá fjöldi manna, sem verður að fá framfærslueyri af bænum, er skattskyldur þarna líka, en það er yfirleitt ekki regla að skattleggja þá til opinberra þarfa, sem fá framfærslueyri af því opinbera. Af þessum ástæðum er ég á móti því, að þessi vegaskattur verði lagður á fyrir bæina, en þeir kunna að vera einhverjir, sem telja þetta nauðsynlegt, og þess vegna hefi ég farið millileið í till. minni, þannig að þetta getur gilt fyrir minnstu bæina, sem eiga líka aðstöðu og kauptún, sem verða yfirleitt að búa við þennan vegaskatt.

4. brtt. er um, að III. kafli frv. (15.–20. gr.), falli niður, og er náttúrlega frá mínu sjónarmiði veigamest. Ég vil fella niður aðflutningsgjaldið, eins og ég hreyfði við 2. umr., því að ég tel ekki fært að leggja lengra inn á þá braut en nú er komið, að skattleggja nauðsynjar fólksins, bæði ætar og óætar. Þá hefi ég bent á, að e. t. v. sé ekki nægilega athugað, hve mikla aðstoð bæjarfélögin þurfi að fá um nýja tekjustofna. Ef reynslan sýnir, að þeirra sé þörf, þá verður að kafa dýpra en leggja nýja skatta á bændur og búalið til sjávar og sveita. Þótt ekki séu nema 10%, þá koma þeir fram við verzlunarálagningu vörunnar. Ég get ekki fallizt á að grípa til þeirra örþrifaráða, sem óhjákvæmilega skapa aukna dýrtíð. Samkv. áætlun mþn. ættu þessir 5% að gefa 450 þús., og ef því væri deilt eftir mannfjölda, yrði það ekki stór upphæð, sem kæmi niður í hvern stað; í Reykjavík mundi það verða uppundir 100 þús. kr. Það má að vísu segja, að það séu dálitlir peningar, en þegar fjárhagsáætlunin nemur 2 millj. kr., gætir 100 þús. kr. lítið. Ég er því á móti þessu bæði með tilliti til þess ástands, sem nú ríkir um afkomu fólksins, sem er að berjast fyrir lífi sínu og á, sérstaklega í bæjunum, við mikla erfiðleika að stríða vegna lítillar vinnu, og einnig af principástæðum. Ég legg því til, að kaflinn sé felldur niður. Hv. þm. er kunnugt um, að frv. um að leggja svona gjöld á hafa legið fyrir Alþingi og hefir verið mótmælt af mörgum þm., og a. m. k. mínum flokksmönnum, sem ætíð hafa skoðað það sem neyðarúrræði.

5. brtt. er um, að 24. gr. falli niður, af því að ég er ekki með að taka 1/2% af framleiðslu verksmiðjanna og láta renna til bæjarsjóðanna. Þetta hafa nú 2 af hv. meðnm. mínum fært niður úr 1% í ½%. En ástæðan fyrir því, að ég er á móti þessu, er sú, að það er alveg tilviljun, hvaða bæir hafa fengið verksmiðjurnar, og að þær leggja þeim svo mikið til í sambandi við umsetninguna, að ég hygg, að það megi fremur telja hag fyrir bæina að hafa fengið verksmiðjurnar. Eins og nú háttar, eru það ekki nema 3 staðir á landinu, sem slíkan skatt gætu lagt á, sem sé Siglufjörður, Sólbakki og Raufarhöfn, og e. t. v. Norðfjörður sá fjórði. Ég get ekki séð hvers vegna þessi bæjarfélög eiga að fá þau hlunnindi að skattleggja alla þá framleiðslu, sem þar er lögð á land, oft að mestu leyti af aðkomuskipum. Og þetta á að gera einmitt á sama tíma sem verið er að gera tilraun til þess að draga úr gjöldum verksmiðjanna, svo að hægt sé að hækka verðið til þeirra, sem afla síldina. Og þar sem ég varð ekki var við, að það mætti verulegri mótspyrnu, þykir mér undarlegt, ef nú á sama þingi á að fara að samþ. till., sem leggur á verksmiðjurnar nýja skatta. Ég skil ekki það ósamræmi hjá hv. þm., ef þeir ætla að taka aftur með annari hendinni það, sem þeir hafa gefið með hinni. Það má að vísu segja, að þetta nemi ekki miklu, eða 15 þús. kr., eftir því, sem mþn. segir. En ég lýst við, að þetta verði meira, a. m. k. þegar vel aflast, því að það fer eftir vörumagni og verðlagi afurðanna á hverjum tíma. Þá kem ég að því, hvort réttlátt sé að leggja þennan skatt á til handa hlutaðeigandi bæjarfélögum. Ef við tökum t. d. Siglufjörð, þá lagði hann svo mikið kapp á, að verksmiðjan yrði byggð þar, að hann lagði fram landið undir hana o. fl. Hvers vegna gerði bærinn það? Vitanlega vegna þess, að hann vildi þannig skapa aukið atvinnulíf í bænum. En svo, eftir að bærinn hefir fengið þessa atvinnumöguleika, á hann að fá rétt til þess að leggja skatt á fyrirtækið í því formi, sem hér greinir. Þetta eru hlunnindi, sem ég get ekki fallizt á, vegna þess að mér finnst þau ranglát eins og þau eru hér framsett. Það eru svo mikil hlunnindi fyrir bæjarfélögin að fá svona fyrirtæki til sín, að það út af fyrir sig ætti að vera nóg. Hvað græðir Siglufjörður á allri þeirri verzlun, sem skapast í sambandi við síldarverksmiðjurnar þar? Ég hygg, að þær krónur séu ótaldar, sem þangað renna vegna aukinna viðskipta, og sama er að segja um aðra staði, sem fengið hafa verksmiðjur. Hitt getur vel verið, að taka þurfi einhvern vissan hluta af tekjum verksmiðjanna, en þá verður að jafna upphæðinni til annara bæjarfélaga, sem lakari ástæður hafa. En meginástæðan fyrir því, að ég get ekki samþ. að leggja þetta gjald á, er sú, að það er tekið af því verði, sem fiskimennirnir eiga að fá fyrir fiskinn. Tel ég því, að fara verði aðrar leiðir til þess að finna nýja skattstofna. Þá vil ég í þessu sambandi benda á, að fjöldi þeirra skipa, sem veiði stunda, verður að inna af hendi hafnargjöld, sem óbeint renna í bæjarsjóðina gegnum hafnarsjóð. Sérstaklega hefir Siglufjörður miklar tekjur á þennan hátt. Mun mönnum þykja þau gjöld nóg, þótt ekki bætist ný við. — Um síðustu brtt. get ég verið fáorður, því að það er aðeins orðabreyt., um að í stað þess að geyma fé jöfnunarsjóðs í landsbankanum, megi geyma það í hvaða banka, sem rekinn er með ríkisábyrgð, og þannig er öllum 3 bönkunum gert jafnhátt undir höfði. Vænti ég, að þessi brtt. mæti ekki mótspyrnu.

Ég hefi þá í stuttu máli gert grein fyrir brtt. mínum, en skal ekki minnast á aðrar brtt., sem fyrir liggja, fyrr en talað hefir verið fyrir þeim. En svo virðist sem allir standi hálfráðalausir gagnvart þeim erfiðleikum, sem nú er að mæta. Það hafa sjálfsagt allir vilja á að bæta úr þeim erfiðleikum, en greinir á um, hvaða leiðir skuli fara. Vill oftast verða svo, þegar leggja þarf nýja skatta á þegnana. Þá kemur fram togstreita um, hvort þá skuli leggja á breiðu bökin eða þau, sem mjóst eru. Mín stefna er sú, að ég vil vernda þá, sem mjóst hafa bökin, fyrir sköttum, svo sem nefsköttum og tollum á neyzluvörur, sem þá lendir á þeim, sem þurfa að annast flesta munnana. Þess vegna er ég á móti þessum skatti, meðan ekki er þrautreynt, hvort ekki er hægt að finna aðrar heppilegri leiðir.