29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun halda mér við brtt. á þskj. 457, þar sem þær snerta svo mjög tekjuöflun ríkissjóðs. — Í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að hækkaður verði tollur á tóbaki eða áfengi. Þetta stafar vitanlega alls ekki af því, að ekki sé álitið réttmætt að tolla þessar vörur og leggja á þær eins og unnt er. En svo stendur á, sem kunnugt er, að þessar vörur eru báðar í einkasölu, og því hlyti tollhækkun, sem renna ætti til bæjar- og sveitarsjóða, óhjákvæmilega að skerða tekjuöflun ríkissjóðs. Ríkissjóði er lögum samkv. ætlað að hafa allar tekjur af þessum stofnunum, bæði toll og álagningu. Ég skal nú fyrst tala um tóbakstollinn. Hann hefir verið smáhækkaður undanfarið, og síðast 1934. Þá var því spáð af stjórnarandstæðingum, að sú hækkun myndi ekki svara kostnaði fyrir ríkissjóð vegna minnkandi sölu. Þá vildi ég ekki fallast á þessa skoðun, sem hv. 1. þm. Reykv. hélt þá mjög fast fram. En ég get játað það fyrir þeim hv. þm. nú, að tollhækkunin hefir ekki öll náðst inn, vegna þess að sala hefir minnkað. Þetta bendir ótvírætt til þess, að aukinn tollur ásamt álagningu myndi gera vöruna svo dýra, að sala stórminnkaði nú. Sú aðferð myndi því ekki leiða til neins annars en að taka hl. af tekjum ríkissjóðs og afhenda hann bæjarsjóðunum. Ég er hissa á því, að hv. 1. þm. Reykv. skuli ekki muna, hve harðlega hann beitti sér gegn tollhækkuninni 1934. En reynslan hefir sýnt, að hann hafði rétt fyrir sér að nokkru leyti þá, og það er alveg augljóst, að nýjum tollauka verður ekki komið yfir á neytendurna. Það væri því fjarstæða og ranglæti gagnvart ríkissjóði, að grípa til þessara ráða. Það sýndi sig við 2. umr. fjárl., að honum mun ekki veita af þeim tekjum, sem honum ber lögum samkv., og mun sjást enn betur við 3. umr.

Ég er því gersamlega andvígur þessari brtt. og mun greiða atkv. gegn frv., ef hún verður samþ. — Alveg sama er um áfengistollinn að segja. Það má að vísu vera, að hækka megi útsöluverð vínanna eitthvað, og er nú verið að athuga það mál. En þótt það verði gert, er margt, sem bendir til þess, að tekjur ríkissjóðs af áfengisverzluninni muni fara lækkandi, og því mun ekki veita af hinni auknu álagningu til þess að tryggja tekjur þær af áfengi, sem ríkissjóði eru ætlaðar í fjárl.frv. 1937. Sala áfengis fer, sem betur fer, minnkandi. Sala í aprílmánuði reyndist allmiklu minni en á sama tíma í fyrra. Margt bendir til þess, að bindindishreyfingunni sé að aukast fylgi. Auk þess verður ekki komizt hjá því vegna gjaldeyrisvandræðanna að spara gjaldeyri til innkaupa á áfengi. Verður þá að fara þá leið, að kaupa hinar ódýrari tegundir, en það hefir í för með sér lægri tolltekjur. Auk þess má gera ráð fyrir hækkandi útsvarsgreiðslum frá þessum fyrirtækjum í jöfnunarsjóð bæjarfélaga, eða um 100 þús. kr. á ári. Því gilda hér alveg sömu rök og um tóbakið. Það er ekki hægt að treysta á tekjur af áfengum drykkjum frekar en gert er í fjárl.frv. Með þessum brtt. eru því aðeins teknar tekjur frá ríkissjóði og afhentar öðrum aðilja.

Auðvitað geta verið uppi mismunandi skoðanir um afgreiðslu fjárlaganna. En þeir, sem vilja afgreiða fjárl. nálægt þeirri mynd, sem þau nú eru í, geta ekki fylgt þessum brtt. Ég vil endurtaka það, að eins og lítur út með yfirfærslur á þessu ári til kaupa á víni og tóbaki, er ekkert vit í að áætla toll og verzlunarhagnað hærri af þessum vörum en gert er í frv. til fjárl. Örðugleikar ríkissjóðs eru alveg nægilegir, þótt ekki sé reiknað með hærri upphæðum en þar eru áætlaðar. Þetta vil ég biðja menn að leggja á minnið. Það eru lítil úrræði í því fólgin að ætla að skjóta sér undan vandræðunum, sem að bæjarfélögunum steðja, með því að leggja til að sækja fé í ríkissjóðinn. En það eru að vísu fleiri till. en þessar, sem ganga í þá átt. Það er vitanlega ákaflega auðvelt úrræði á vandræðatímum að stinga höfðinu í sandinn og nota svo slíka frammistöðu til blekkinga á eftir.