29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að tala strax, af því að ég geri ekki ráð fyrir því, að ég geti verið síðar við umr. — Ég ætla þá með nokkrum orðum að svara því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um brtt. sína. Ég verð að segja það, að ég gat ekki vel áttað mig á ræðu hv. þm., því að mér fannst hann ekki vera vel samkvæmur sjálfum sér í henni. Hann talaði um, að það gerði ekki mikið til, þótt till. hans gengju á tekjur ríkissjóðs, því að ríkissjóður hefði gengið á tekjuöflunarmöguleika bæjar- og sveitarfélaga. Þegar hann sagði þetta, þá fannst mér hann vitna í það, að þetta hlyti að verða til þess að draga úr tekjum ríkissjóðs. Í öðrum kafla ræðu sinnar sagði hann, að ekki væri verulega gengið inn á þessa stofna, og sagðist álíta, að það mætti ná þessu upp. Ég veit ekki, hver niðurstaðan er af ræðu hv. þm., og því óhægt um vík að ræða við hann um þetta. Þó skildist mér, að hann vildi einna helzt leggja áherzlu á það, að skoðun mín sé ekki rétt á því, að þetta hefði áhrif á afkomu ríkissjóðs, og ég ætla því að gera ráð fyrir því, að hann hallist fremur að því. Hann sagði, að það væri enginn munur á því, hvort lagður væri viðaukatollur fyrir ríkissjóðinn á vörur, sem eru í frjálsri verzlun, eða vörur, sem ríkissjóður verzlar með sjálfur. En á þessu er mjög mikill munur, eins og ég sýndi fram á í minni fyrri ræðu, því að á vörur þær, sem frjáls verzlun er með, kemur aldrei neinn frádráttur til greina fyrir ríkissjóðinn, nema sá, sem kann að stafa af minnkuðum innflutningi vörunnar. (MJ: Ekki heldur í einkasölu). Jú, því að þarna verður aðeins sá frádráttur, sem stafar af minnkuðum innflutningi varanna. Hitt kemur sem frádráttur á verzlunarágóðanum, og kemur niður á þeim kaupmönnum eða þeim kaupfélögum, sem verzla með vörurnar. En ef það eru vörur, sem ríkið hefir bæði toll af og verzlar einnig með, þá verður það svo, að ríkissjóður tapar tollinum, vegna þess að innflutningurinn minnkar, og líka verzlunarágóðanum af minnkuðum innflutningi. Þess vegna snertir það ríkissjóðinn mikið meira, ef það er lagður viðaukatollur á þá vöru, sem er í einkasölu, heldur en þótt lagður sé tollur á vöru, sem hann hefir aðeins nokkrar tolltekjur af. Þetta ætla ég, að allir skilji, sem vilja skilja það. — Þá fannst mér hv. þm. viðurkenna það á einum stað í ræðu sinni, að rök mín í þessu máli væru rétt, því að hann sagði, að ráðh. væri ekki góður kaupmaður, þar sem hann vildi hækka verðið með það fyrir augum að auka tekjur ríkissjóðs af áfengisverzluninni. En ef það er ómögulegt með óbreyttum tolli, að áliti þessa hv. þm., að auka tekjur áfengisverzlunarinnar með því að hækka verðið, af því að salan mundi þá minnka að sama skapi, — hvernig er þá hægt að auka tekjur verzlunarinnar sem svarar þessum nýja tolli? Yrði það þá ekki að gerast með því að hækka verðið, — en hefir það ekki, að dómi hv. þm., þau áhrif, að salan minnkaði, svo að tekjurnar hækkuðu ekkert? Þetta er viðurkenning hv. þm. á því, að það sé ekki hægt að búast við því, að tekjurnar verði auknar með því að hækka verðið, hvorki til þess að auka nettóágóða verzlunarinnar né til þess að vega upp þennan nýja toll. Það eru rök hv. þm. sjálfs, sem ég hefi tekið til þess að sýna fram á, að hann er undir niðri sammála mér um þetta mál, þótt hann á yfirborðinu vilji fara undan í flæmingi. Ef hann vill ekki viðurkenna það, að áfengisverzlunin verði fyrir lækkuðum gróða vegna till. hans, þá hlýtur það að byggjast á því, að hægt sé að auka tekjurnar með því að hækka verðið, en sjálfur sagði hann, að það bæri vitni um litla kaupmennskuhæfileika hjá mér að ráðgera þetta til þess að auka nettótekjur verzlunarinnar frá því, sem nú er. Ég held nú, að hv. þm. hafi misskilið mig, þegar ég var að tala um þetta, því að ég gerði ekki ráð fyrir því, að hægt væri að hækka tekjur áfengisverzlunarinnar í heild, þótt verðið væri hækkað, heldur gerði ég ráð fyrir því, að frekar væri hægt að halda þeim í því horfi, sem fjárl. gera núna ráð fyrir. Salan fer minnkandi af ýmsum öðrum ástæðum, og innflutningsörðugleikarnir fara heldur vaxandi, svo að þótt verðið yrði hækkað, þá væru nægileg not fyrir þá hækkun til þess að reyna að halda ágóðanum við. En ég geri ekki ráð fyrir því, að hann mundi aukast. Ég legg ekki mikið upp úr því, sem hv. þm. sagði um það, að menn mundu taka tillit til þess við innkaup, að verðið hefði hækkað vegna bæjar- og sveitarfélaganna. Ég held, að þetta sé hin mesta fjarstæða. Ég held, að menn taki ekki tillit til þess, þegar þeir kaupa áfengi eða tóbak, hvert ágóðinn rennur. Menn kaupa það eingöngu vegna þess, að þeir vilja neyta þess, en ekki í gustukaskyni við bæjar- og sveitarsjóði eða ríkissjóð. Það er enginn, sem kaupir áfengi eða tóbak af þeim ástæðum. Það er eins með þetta og annað, að menn kaupa þessar vörur af því, að þeir telja sig þurfa þeirra með og vilja neyt, þeirra. Ég held, að mönnum séu sveitarsjóðirnir ekki það ástfólgnir, þegar um það er að ræða að greiða þangað skyldur, og þessi ástæða komi því ekki frekar til greina, þótt sveitarsjóðirnir fái þessar tekjur, því að ég veit til þess, að menn aka sér engu síður við því að þurfa að greiða til bæjar- og sveitarsjóða en til ríkissjóðs. Það mun vera ósköp svipað um hvorttveggja. (MG: Þeir vita, að þeir greiða ekki meira). Heldur hv. þm., að menn fylgist svo nákvæmlega með því, hvernig tekjur stórra opinberra stofnana eins og sveitarsjóðanna breytast, að þeir hafi í huga. þegar þeir kaupa t. d. eina whiskyflösku, að af því að hún hafi hækkað um eina krónu, þá lækki útsvörin.

Aðalatriðið í þessu máli, sem ekki má gleymast, er það, sem ég lagði aðaláherzluna á í minni fyrri ræðu, að heildartekjurnar, sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður hafi af áfengisverzluninni og tollinum, og af verzlun með tóbak og tollinum á því, eru svo hátt settar í fjárlfrv. fyrir árið 1937, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hægt sé að ná inn hærri upphæð af þessum tekjustofnum, hvorki til ríkissjóðs né annara, sem samkv. till. hv. þm. ættu að fá hlutdeild þar í. Ég byggi þetta á sívaxandi gjaldeyrisörðugleikum og því, að verið er að hækka útsvarið á þessu fyrirtæki, og svo þeirri reynslu, sem nú er að koma í ljós, að sala þessa fyrirtækis fer minnkandi. Ég held því fram, að ef ætti að samþ. till. hv. þm., þá yrði að lækka áætlanir á fjárl.frv. að því er snertir þessa liði og sjá ríkissjóði annaðhvort fyrir nýjum tekjum á móti eða færa niður útgjöld frv. Ég er ekki hissa á því, þótt hv. 1. þm. Reykv. flytji þessa till., því að hann telur sig hafa þá stefna um fjárl., að hann hefir viljað skera þetta niður, og því er honum ósárt um þetta. En frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja afgreiða fjárl. á þeim grundvelli, sem þau nú eru á, er ómögulegt að ganga inn á þessa till. hv. þm. Mér finnst, að þeir menn geti ekki gert sér vonir um meiri tekjuöflun af þessum liðum, áfenginu og tóbakinu, en gert er ráð fyrir, nema á óvæntan hátt ráðist fram úr viðskiptunum á árinu 1937.