29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2834)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. 4. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég finn mig knúðan til að svara nokkrum orðum þeim andmælum, sem komið hafa fram gegn brtt. mínum, og þá sérstaklega 1. brtt., frá þeim hv. 1. þm. Eyf. og hv. 2. þm. S.-M., og mun ég þá fyrst beina orðum mínum að hv. 2. þm. S.-M. út af orðum þeim, sem féllu hjá honum um samstarfið í n. Hann virtist vilja áfellast mig fyrir það, að hafa ekki leitað nægilegrar samvinnu við hann og samflokksmenn hans um brtt. mínar, og hann vildi jafnframt halda því fram, að ég hafi ekki lagt brtt. fram í n. En þetta er ekki rétt. Það var ákveðið í n., að menn skyldu koma fram með brtt. fyrir vissan ákveðinn dag, sem ég man ekki, hver var. En hvað skeður? Það skilaði enginn brtt. nema ég. (IngP: Ekki þessum). Jú, þessum brtt. við I. kafla frv. Það má vera, að samkomulag hefði getað orðið um eitthvað af brtt. þessum í milli mín og hv. þm., en málið komst aldrei á þann rekspöl, að um það væri hægt að tala. Í n. var málið tekið fyrir á 6 fundum dagana 3., 5., 7., 10., 12. og 17. marz. Frv. var þannig ýtarlega rætt, og kom fram nokkur gagnrýni við ýmsa kafla þess. Að afgreiðsla þess dróst svo lengi sem raun ber vitni um, er ekki mín sök, heldur mun hitt valda, að sumir nm. töldu sig t. d. ekki geta komið fram með brtt. fyrr en aðrir hefðu tekið sínar ákvarðanir. Þannig beið og beið t. d. hv. 1. þm. Skagf. með brtt. sínar eftir að aðrir nm. tækju sína afstöðu Hvað mig snerti, þá tók ég mína afstöðu strax. Endirinn varð svo sá, sem kunnugt er, að n. gat ekki klofnað meir en hún gerði. En það út af fyrir sig, að n. klofni, er vitanlega ekkert einsdæmi, a. m. k. heyrðist mér hæstv. forseti lesa upp í dag eins mörg nál. í einu máli og mennirnir eru margir, sem skipa n.

Í aths. hv. 2. þm. S.-M. við brtt. mínar virtist ekki koma neitt fram, sem benti til þess, að hann væri þeim mjög mótfallinn. Aðallega fann hann að orðalagi á a-lið 1. brtt. Með brtt. þessari vildi ég gera skýrari grein fyrir, hvað teldist kauptún, og hvenær býlin, sem kringum kauptúnið liggja, skyldu teljast með kauptúninu. Og eins og brtt. mín ber með sér, þá legg ég til, að kauptún skuli það sveitarfélag nefnast, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru búsettir í kauptúninu, en hreppsfélag þar, sem engin kauptún eru, eða þar sem íbúar kauptúnanna eru í minni hl. á móts við þá, sem í sveitum búa. Eins og kunnugt er, þá hagar víða svo til hér á landi, að kauptún eru samtvinnuð hreppunum, en með þessari skilgreiningu vil ég, að það komi skýrt fram, hvenær hlutaðeigandi sveitarfélag skuli teljast kauptún og hvenær hreppur. — Um aðrar aths., sem hann gerði við brtt. mínar, mun ég ekki ræða að þessu sinni. Ég valdi þá leið, sem ég legg til í brtt. mínum, að farin verði í þessum efnum, af því að ég tel hana munu verða heppilegasta. Annars má vel vera, að samkomulag hefði getað náðst um eitthvað af þeim atriðum, sem hér ber á milli, ef tækifæri hefði gefizt til þess að ræða nokkru nákvæmar um þessi mál. Að öðru leyti vil ég ekki deila frekar en orðið er við hv. þm. Það, sem í 3. brtt. mínni felst, snertir vegaskattinn. Frá sjónarmiði okkar Rvíkinga er 9. gr. frv. mjög illa séð, og svo mun einnig vera, að önnur bæjarfélög telja sig yfirleitt mótfallin þessum skatti. Þó er það svo, að ég veit um einn fulltrúa frá bæjarfélagi, sem telur sig mundu geta fallizt á þennan skatt, og fyrir því hefi ég orðað brtt. mína við 9. gr. á þá lund, að í kaupstöðum, sem hafa undir 2000 íbúa, sé heimilt að leggja þennan skatt á, ef meiri hl. hlutaðeigandi bæjarstjórnar samþ. það, því að þá má ætla, að meiri hl. bæjarbúa sé því einnig fylgjandi. Hvað snertir skoðun íbúa Rvíkurbæjar á þessari skattsálagningu, þá mun óhætt mega fullyrða, að meiri hl. þeirra sé á móti henni. Allt, sem sagt hefir verið um það, að það sé greiði fyrir menn að lofa þeim að vinna af sér þetta gjald, á ekki við hér í Rvík. Hér gegnir allt öðru máli í þessu efni en úti á landi. Vinna við gatnagerð er mikil hér í Rvík og skapar fjölda manna atvinnu. Ætti því að fara að taka eitthvað af þeirri vinnu í þegnskylduvinnu, myndi það svipta fjölda manna atvinnu, auk þess sem það myndi verða lítt mögulegt að taka hvern sem væri til slíkrar vinnu, — menn, sem kynnu ekki að halda á skóflu eða hamri, hvað þá meira. Gjald slíkra manna væri alveg sama og ógreitt, enda þótt þeir héngju við vinnu 1 eða ½ dag. Ég hefi nú að vísu ekki átt tal um þetta sjálfur við borgarstjóra, en ég hefi það fyrir satt, að hann sé því mjög andvígur, að slíkt ákvæði sem þetta sé látið gilda fyrir Rvíkurbæ. Ég fyrir mitt leyti tel það óþarft og óheppilegt, og því hefi ég flutt brtt. um að fella það niður að öðru leyti en sem heimild fyrir kaupstaði með færri en 2 þús. íbúa, til þess að gefa þeim tækifæri til þess að spreyta sig á þessu, sem telja sig geta hagnazt á því.

Í niðurlagi ræðu sinnar gat hv. 2. þm. S.-M. þess, að í frv. þessu væri séð fyrir báðum aðiljum, bæði sveitar- og bæjarsjóðunum, en ég get ekki samþ. þetta. Ég tel hlut bæjanna allmjög skertan eins og frv. er nú, og verð ég að telja það illa farið, þar sem því verður ekki með rökum í móti mælt, að þörf þeirra fyrir aukna tekjustofna verður að teljast meiri en sveitarfélaganna. Enda ekkert undarlegt, þó að svo sé, þar sem löggjöf síðustu þinga hefir allmjög hnigið að því að létta undir með sveitunum og um leið að íþyngja bæjarfélögunum, og má því til sönnunar benda á framfærslulöggjöfina, lög um kreppuhjálp fyrir bæjar- og sveitarfélög, að undantekinni Rvík, og ennfremur breyt., sem gerð var á berklavarnagjaldinu, sem léttir á gjaldendum úti um byggðir landsins og eykur gjaldþol þeirra um það, sem lækkuninni nemur. Þá má og nefna það, að nýlega hefir verið afgr. héðan frá d. frv. til breyt. á vegalögunum, sem fækkar mjög þeim vegum, sem hvílt hafa á séslufélögunum. Allt miðar þetta að því að létta byrðar sveitanna. Hinsvegar hefir minna verið gert að því að létta undir með bæjarfélögnnum. Það eina, sem hægt er að telja, eru alþýðutryggingarnar nýju. — Af því, sem ég nú hefi sagt, fæ ég ekki séð, að fulltrúar sveitanna þurfi að vera óánægðir yfir því, að hlutur þeirra hafi verið fyrir borð borinn. Það er því ekki sanngjarnt að kasta því fram, að við, sem stutt höfum að þessum málum, höfum gengið harkalega á móti hagsmunum sveitanna. Niðurstaðan hlýtur nú að verða sú, eftir allan þann stuðning, sem löggjafarvaldið hefir á seinni árum veitt sveitunum, að þörfin fyrir aukna tekjustofna fyrir sveitirnar sé minni eftir en áður.

Ég hefi bent á það áður undir þessum umr., að mál þetta hefði þurft meiri undirbúning og gleggri athugun en mþn. hefir haft tækifæri til þess að framkvæma, svo að það gæti fengið góðar undirtektir hér á Alþingi, svo viðkvæmt sem það er. Enda minnist ég ekki að hafa séð jafnsundurleitt nál. eins og álit mþn. Að láta sér svo detta í hug, að ein þingn. geti skapað málið svo um af nýju, að það fái fylgi allra flokka, er vitanlega alveg út í hött. Það, sem ég nú hefi sagt, er um málið almennt, og alveg eins mælt til hv. 1. þm. Eyf. eins og hv. 2. þm. S.-M. — Ég sé, að hv. 1. þm. Eyf. brosir. Það er gömul saga, að bezt sé að bera sig karlmannlega, þó að dálítið gefi á bátinn. — Hv. þm. byrjaði ræðu sína á því, að frv. væri ennþá mikils virði, enda þótt komnar væru á það glompur. Eins og frv. er nú, þá er áætlað, að það gefi í tekjur 1,2 millj. kr. Brtt. mínar miða aftur að því, að frá þeim tekjum dragist 600 þús. kr., svo að helmingur verði eftir, en ég læt ósagt, þegar málið er búið að ganga gegnum Nd., að þessar 600 þús. kr. verði allar eftir.

Ég hefi svarað aths. hv. þm. um þorpin, sem ég var að skilgreina hér, og ef þeir ekki skilja það, þá get ég ekki gefið þeim frekari skilning á því, enda hugsa ég, að þeir hafi ætlað þeirri brtt. minni ákveðna leið. Vegaskattinn ætla ég ekki heldur að fara frekar út í. Ég hefi þegar minnzt á mína skoðun á honum. En hv. þm. sagði, að það væri ekki um aðra leið að gera en þessa. Ég skal játa, að ég er ekki dómbær á það, hvernig bezt sé að ná inn útsvörum í landinu, og ég vil leyfa mér að halda því fram, að hv. þm. sé ekki heldur dómbær um það. Hann þekkir náttúrlega bezt til í sínu héraði, alveg eins og ég þekki bezt það, sem næst mér er. En hann veit ekki, hvernig hagar til í öðrum héruðum landsins, svo að hann getur ekki kastað slíku fram órökstuddu. Ég býst við, að þetta fari nokkuð eftir því, hvar er á landinu, eftir árferði og öðru slíku. Hinsvegar þekki ég ekki ennþá — og þá náttúrlega helzt þar, sem fámenni er — neinn grundvöll, sem er réttlátari heldur en útsvör, sem lögð eru á eftir efnum og ástæðum. Aðrar leiðir býst ég við, að finnist ekki réttlátari. Hinsvegar vill hv. þm. halda því fram, að þetta dugi ekki til, en það er fyrir mér ekki fullsannað mál, nema kannske í einstökum tilfellum. Ef við tökum t. d. bæina út af fyrir sig, þá býst ég við, að við nánari athugun á útsvarslögunum geti það komið til álita, hvort innheimtufyrirkomulag útsvaranna mætti ekki vera betra heldur en nú er. Mér er kunnugt um, að víða erlendis er það svo, að í borgunum eru skattarnir innheimtir mánaðarlega, og ekki nóg með það, heldur ber atvinnurekendum víða að tryggja það, að skattarnir séu greiddir. Erum við jafnvel að komast inn á slíkt fyrirkomulag, og ég er ekki í neinum vafa um, að því mætti koma víðar við heldur en nú er gert. En þetta atriði er verkefni hinnar nýju endurskoðunar á útsvarslögunum. — Þá sagði hv. þm., að ég hefði verið með því að leggja á neyzluskatt. Ég skal alltaf fúslega gangast við því, sem ég hefi greitt atkv. með. En það veit hv. þm., að umsetningargjaldið, sem lagt var á, á siðasta Alþingi, var aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun, þannig að hægt er að kippa þeim lögum burt strax og þörfin á þeim er ekki lengur fyrir hendi. En hér horfir nokkuð öðruvísi við. Hér er verið að leita að föstum tekjustofnum fyrir bæjar- og sveitarfélög, tekjustofnum, sem eiga að standa svo og svo lengi, kannske meðan við báðir lifum. Það er nokkuð annað að samþ. bráðabirgðaákvæði á erfiðum tímum heldur en að byrja á nýju kerfi um skattafyrirkomulag handa ákveðnum stofnunum í landinu. Þetta vil ég a. m. k. aðgreina mjög skýrt.

Ég skal viðurkenna, að það getur ekki hjá því farið, að mþn. hafi úr mjög vöndu að ráða, hvaða leiðir hér skuli fara. Og hv. þm. spyr mig, hvað ég vilji, að gert sé í þessu efni. Ég skal játa, að ég hefi kannske ekki þá hæfileika eða kunnugleika í þessum efnum að geta bent á leiðir, enda er það til of mikils ætlazt af hv. þm., að ég geti það mitt í þingönnunum. En ég skal þó frá mínu sjónarmiði eftir nokkra athugun benda hv. þm. á, hvað ég álít, að gera mætti í þessum efnum. Ég skal játa, og ég hefi ekki heldur farið dult með, að það verður e. t. v. að ganga nokkuð inn á þá stofna, sem ríkið hefir tileinkað sér nú á síðustu árum og að mínu viti eru hreint og beint ekkert annað en „kommunalskattar“. Ég ætla að benda á í þessu sambandi, að skemmtanaskattur og veitingaskattur eru yfirleitt ekkert annað en „kommunalskattar“. Í fjárlfrv. er skemmtanaskattur áætlaður um 120 þús. kr. og veitingaskattur 100 þús. kr. Þetta eru aðeins tvö atriði, sem ég bendi á í þessu sambandi. Nú mun n. hafa látið sér detta í hug að fara fram á það, að helmingur af eignarskattinum skyldi einnig renna til bæjanna. En hitt er mér ljóst, og ég ætla ekki að ásaka hv. nm. fyrir það, að þar var eins og að klappa á stein, þegar til ríkisstj. kom um það, að láta nokkuð af þessum stofnum, sem ríkið hefir tileinkað sér. Að þessu frágengnu, vil ég benda á eitt ennþá, sem ekki hefir verið leitt inn í umr. Því er haldið fram, að a. m. k. í ýmsum minni bæjum úti um land sé grundvöllur skattstofnsins horfinn af þeirri einu ástæðu, að verzlunin er nú horfin úr höndum einstaklinganna yfir í samvinnufélögin og kaupfélögin. Ég fyrir mitt leyti, sem annars get hyllt samvinnustefnuna, álít, að það verði að ganga inn á þá braut að skattleggja verzlun í hvaða formi sem hún er rekin. Ég veit, að þetta er viðkvæmt mál og grípur inn á hugsjónir og stefnu margra manna. En þegar við erum að því komin að örvænta út af því, hvernig eigi að afla tekna til handa bæjar- og sveitarsjóðum, þá getur verið, að við neyðumst til þess að ganga þessa leið, þ. e. a. s. að skattleggja verzlunina í hvaða formi sem hún er rekin. Öllu þessu hefir n. gengið framhjá, en mér er kunnugt um, að þetta kom til umr. innan n., en vitanlega gat ekki orðið samkomulag um það frekar en um svo margt annað.

Þá sagði hv. þm., að það værum við, sem heimtuðum allt, en vildum ekki afla peninga til neins. Ég þykist nú vita, að hann hafi átt við okkur jafnaðarmenn hér á Alþingi. En ef á að fara út í sparðatíning um það, hverjir heimtuðu, þá býst ég við, að flokkur hv. þm. mundi ekki teljast alveg heilagur í því efni, og ætla ég þó sízt af öllu að lá honum eða hans flokksbræðrum, þó að þeir geri ýmsar kröfur og heimti peninga handa þeirri stétt, sem þeir eru umbjóðendur fyrir, en ég gæti, ef ég vildi, bent honum á, að það, sem þeir hafa heimtað og í mörgum tilfellum fengið, eru miklu stærri upphæðir heldur en við, umbjóðendur verkamannanna, höfum fengið. Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að telja þetta eftir handa fátækum bændum, en mér finnst bara óþarfi að slá því framan í okkur jafnaðarmenn, að það séum við einir, sem heimtum.

Þá ætla ég aðeins að víkja að því, sem hv. þm. sagði um verksmiðjurnar. Ég skil hv. þm. vel í því efni. Hann er umbjóðandi bæjarfélags, Siglufjarðar, sem að sjálfsögðu vill fá auknar tekjur í bæjarsjóð, og ég skil það vel, að hann vilji halda fast á því máli. En hitt er annað mál, hvort grundvöllurinn undir þeirri kröfu er svo réttmætur eins og hann vill vera láta. Siglufjarðarkaupstaður er, eins og allir vita, vaxinn upp af síldarsöltun, en ekki síldarverksmiðjurekstri. Og þegar það kom til álita, hvar ríkið ætti að reisa sína verksmiðju, þá man hv. þm. það kannske vel, að það voru margir, sem hölluðust að því að reisa hana ekki á Siglufirði, heldur við Húnaflóa, og það munaði mjög litlu, að það yrði ekki ofan á. En Siglufjarðarkaupstaður gerði allt, sem hann gat, til þess að bjóða fram hlunnindi og fríðindi til að fá verksmiðjuna í plássið, og var það ofurskiljanlegt. En var það eingöngu til þess að geta skattlagt verksmiðjuna? Nei, það var gert til þess að fá aukna atvinnu handa þeim, sem í kaupstaðnum búa. Og svo má ekki gleyma því, að í sambandi við þennan verksmiðjurekstur hefir hafnarsjóður Siglufjarðarkaupstaðar miklar tekjur, eins og gefur að skilja. Og ofan á þetta vill svo hv. þm. leggja aukagjald á alla umsetningu í bæjarsjóð þessa kaupstaðar. En frá hverjum er þetta svo tekið? Það er tekið frá sjómönnum, sem hafa oft orðið fyrir hræðilega lágt verð að leggja sína síld í land, og verksmiðjunni, sem er grundvölluð á þeim möguleika að greiða hverjum fiskimanni það sanngjarnasta verð sem hún getur. Og þess vegna álít ég það principielt brot, að leggja á þennan skatt í bæjarsjóð með því að afla honum fyrst tekna á kostnað þeirra, sem eiga að njóta sannvirðis af þeim afurðum, sem þeir skaffa verksmiðjunni. Þetta mundi líka að sjálfsögðu geta komið mjög misjafnlega niður, því að verksmiðjur geta risið upp í litlum sveitaþorpum, og umsetning þeirra verksmiðja gæti verið svo mikil, að hver einasti maður í hreppnum gæti verið laus við það að borga einn eyri í útsvar. Við skulum t. d. segja, að verksmiðjan á Raufarhöfn yrði rekin í stærra formi heldur en nú, og yrði umsetningin þá svo mikil, að það nægði í tekjur handa hreppnum, og enginn þyrfti að borga útsvar. Nei, rök hv. þm. fyrir þessu eru í mínum augum nauðalítil, og ég fyrir mitt leyti get aldrei gengið inn á það, að þessi leið sé farin. En það verður hlutverk hinnar væntanlegu n., sem endurskoðar útsvarslögin, að athuga, hvað langt skuli gengið í því efni að láta ríkisfyrirtæki greiða til einstakra staða, eða hvort þau skuli í heild greiða einhverja upphæð, sem svo sé deilt milli þeirra, sem verst eru staddir. En það teldi ég réttlátustu aðferðina, ef nauðsynlegt þykir að leggja skatt á svona fyrirtæki eins og síldarverksmiðjur.

Það var ýmislegt fleira, sem hv. þm. minntist á, en ég get sleppt því. Ég hefi drepið á það helzta, en öllum aukaatriðum get ég sleppt. En ég vil aðeins segja það, sem ég reyndar hefi sagt áður, að þetta mál er þannig vaxið, að það hefði gott af því að bíða eitt þing enn og takast til rækilegrar athugunar, hvort ekki mætti fara aðrar skynsamlegri og heppilegri leiðir heldur en þær, sem hér hafa verið nefndar. Það verður vitanlega erfitt að finna lausn á þessu máli, svo að allir geti vel við unað. En hitt er ljóst, að þetta frv. eins og það liggur fyrir á fylgi sitt meðal þeirra manna, sem eru nógu borgaralega hugsandi til þess að vilja leggja byrðarnar á hvern einasta smælingja, sem í landinu býr, en hlífa þeim, sem betur mega. Það er þess vegna eðlilegt, að línurnar skerpist á milli okkar, sem öðruvísi hugsum, og borgaralegu flokkanna, sem taka höndum saman og skella þessu yfir okkur eins og þeim bezt líkar.