29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bernharð Stefánsson:

Það er sjálfsagt tilgangslítið að fjölyrða um þetta öllu meira, enda vildi ég gjarnan, að umr. og atkvgr. gæti orðið lokið á þessum fundi, og skal ég því reyna að takmarka mál mitt. Þó verður ekki með öllu hjá því komizt að minnast á sumar af þeim fjarstæðum og staðleysum, sem hv. 4. þm. Reykv. bar hér á borð áðan.

Hv. 4. þm. Reykv. byrjaði á því, sem raunar er lítils virði, að bera saman vinnubrögð allshn. í þessu máli og vinnubrögð einhverrar annarar n., sem mér skildist vera fjhn. Hann taldi líkt á komið með þeim, þar sem þessi hin n. hefði klofnað í eins marga parta eins og hægt var, eins og allshn. í þessu máli. En sá er munurinn, að allshn. sat tvo mánuði yfir þessu máli, en ég hygg, að fjhn., sem hv. þm. mun hafa átt við, hafi aðeins starfað tvo daga í hinu málinu. — Þá var hv. þm. með hugleiðingar út af vegaskattinum og vildi segja, að meiri hl. bæjarbúa í hinum einstöku bæjum væri á móti honum. (SÁÓ: Ég talaði um Rvík). Já, mér skildist hann vera að bera fram till. um að fella niður vegaskattinn í Rvík, vegna þess að það væri í samræmi við vilja meiri hl. bæjarmanna. Um þetta skal ég ekkert segja, en mér þykir trúlegt, að það sé vilji meiri hl. bæjarbúa að fara eftir ákvörðunum meiri hl. bæjarstjórnar í þessu sem öðru. Ég veit ekki betur en að hér í Rvík sé almennur kosningarréttur eins og annarsstaðar. En ef ekki fer saman vilji meiri hl. bæjarbúa og meiri hl. bæjarstjórnar hér í Rvík, — hvaða ástæða er þá til að ætla, að þetta fari frekar saman t. d. á Seyðisfirði? Ég sé það ekki. Það er ekkert við það að athuga, þótt hv. þm. liti svo á, að vegaskatturinn ætti enginn að vera. En mér er óskiljanlegt, að hann sé heppilegur í bæjum, þar sem ekki eru 2000 íbúar, en ómögulegur í stærri bæjum. — Þá minntist hv. þm. á, að mþn., sem fjallaði um þetta mál, hefði haft of lítinn tíma til undirbúnings. Það er rétt, að hún hafði of lítinn tíma, enda er það tekið fram í grg. frv., að n. sjálf leit svo á. En að hún hikaði ekki við að skila frv. fyrir þetta þing, var sökum þess, að nm. var beinlínis kunnugt um, að það bráðlá svo á einhverjum úrræðum í þessu efni sumstaðar á landinu, að þeir töldu, að það mætti alls ekki bíða næsta þings að ráða fram úr málinu. Og ef þetta frv. dagar uppi eða fellur, mun áreiðanlega heyrast hljóð úr horni, um að þröngt sé fyrir dyrum hjá bæjarfélögum og einstökum sveitarfélögum. Hvað snertir sundrung þá, sem hv. þm. var að tala um, að verið hefði í mþn. um þetta mál, sennilega vegna þess fyrirvara, er fylgdi frv., um að nm. hefðu óbundin atkv. um einstök atriði, þá hygg ég, að slíkt sé ekkert óalgengt, og sízt að undra í þessu tilfelli, þar sem allir þrír nm. voru hver úr sínum flokki.

Hv. þm. hélt, að ég væri ekki dómbær á það, hvernig gengi að ná inn útsvöru alstaðar á landinu. Það er auðvitað rétt, að ég hefi ekki þekkingu á þessu að því er hvern hrepp snertir. En staðreyndirnar bara tala um það, að víða á landinu, áreiðanlega víðar en í mínu kjördæmi, hefir ekki reynzt hægt að ná inn þeim útsvörum, sem jafnað hefir verið niður og öll fjárhagsáætlun sveitar- og bæjarfélaganna er byggð á.

Hv. þm. vildi afsaka, að hann sjálfur hefir greitt atkv. með sköttum á nauðsynjavörur almennings, með því, að það hefði verið bráðabirgðaráðstafanir. Skildist mér hann þar eiga við klauflaxinn svokallaða. En hann hefir nú samþ. fleiri tolla en þá, sem felast í honum. Og þótt það sé rétt, að klauflaxinn er að formi til bráðabirgðaráðstöfun, þá vissu allir, að þau lög yrðu framlengd, ef ekki fengjust aðrar tekjur í staðinn. Gjöldin, sem lögð voru á ríkissjóð í fyrr, með 1. um alþýðutryggingar og fleiri l., voru engar bráðabirgðaráðstafanir, og hv. þm. veit vel, að klauflaxinn var bein afleiðing af þeim. — Hv. þm. var að telja upp ýmsa skatta, sem nú rynnu til ríkissjóðs, en ættu í raun réttri að renna til bæjar- og sveitarsjóða, svo sem skemmtanaskatt, veitingaskatt o. s. frv. Það væri út af fyrir sig ekkert á móti því að haga því svo, að bæjar- og sveitarfélög fengju þessa skatta, ef bara ríkið mætti missa þá. En hv. þm. hefir ekki bent á, hvað ríkissjóður ætti að fá í staðinn fyrir þessa skatta, eða hvað eigi að spara af útgjöldum ríkissjóðs, ef þeir eru afhentir sveitar- og bæjarfélögunum. Þess vegna er það, sem hann segir um þetta, bara út í hött. Það er ekki neinn vandi að slá um sig með orðum um hitt og þetta, sem ekki eiga sér nokkra stoð í veruleikanum. Miklu nær var það frá hans sjónarmiði, sem hann var að láta skína hér í í hálfgerðum hótunartón, að leggja mætti útsvör á kaupfélögin eins og aðrar verzlanir. Í lok ræðu sinnar var hann að tala um borgaralegan hugsunarhátt. Ég hugsa nú, að það sé fullborgaralegur hugsunarháttur fyrir hann sem jafnaðarmann, að vilja nú gegnum útsvör kaupfélaganna skattleggja bláfátæka bændur og verkamenn tvisvar, bara af því, að þeir verzla við kaupfélög; leggja fyrst á þá sem einstaklinga. og svo á viðskipti þeirra í kaupfélaginu. Því að það veit hv. þm. vel, að þessi félög hafa eiginlega engar slíkar tekjur, að verulega sé hægt á þau að leggja. Að svo miklu leyti, sem félagarnir hafa hag af að verzla í kaupfélögunum, kemur það fram á þeirra efnahag og er á það lagt hjá þeim sem einstaklingum. En þetta er þó atriði, sem vitanlega má ræða um, því að þar er ekki beinlínis um að ræða að taka tekjur frá ríkinu án þess að láta nokkuð koma í staðinn.

Þá var hv. þm. að tala um, að við framsóknarmenn hefðum heimtað alveg eins mikið til okkar umbjóðenda eins og jafnaðarmenn til sinna; við hefðum krafizt framlaga til bænda eins og þeir til verkamanna. Það er rétt, að við höfum að vísu gert till. um ýmiskonar fjárútlát bændum og öðrum til hagsbóta, en munurinn er sá, að við höfum horfzt í augu við það, að á móti útgjöldunum þurfa að fást tekjur í ríkissjóð. Það er það, sem sumum hv. þm. hættir til að gleyma.

Hvað síldarverksmiðjurnar snertir þarf ég litlu að svara hv. 4. þm. Reykv., því að hann gerði ekki annað en endurtaka það, sem hann sagði um þetta atriði í fyrri ræðu sinni, svo að þótt ég færi að svara því, yrði það ekki annað en endurtekning á því, sem ég hefi áður sagt. Hv. þm. sagði, eins og rétt er og ég vék að áðan, að Siglfirðingar hefðu viljað fá síldarverksmiðjurnar byggðar hjá sér, og þetta finnst honum vera rök fyrir því, að verksmiðjurnar ættu ekki að borga neitt í bæjarsjóð. Ég vil spyrja hv. þm.: Vill hann ekki, að ýmiskonar atvinnurekstur eigi sér stað hér í Reykjavík? Teldi hann ekki til heilla fyrir bæjarfélagið, ef bætt væri við fiskiflotann einum tveimur eða þremur togurum? Ég býst við, að flestir Reykvíkingar líti svo á. En mundi nokkrum lifandi manni detta í hug, að þeir menn, sem keyptu nýja togara og gerðu þá út, ættu að vera útsvarsfrjálsir? Þetta, að vera að tala um, að Siglfirðingar hafi viljað fá verksmiðjurnar, kemur því málinu hreint ekkert við. Hv. þm. var að tala um, að gjaldið, sem verksmiðjurnar kæmu til með að borga, kæmi frá vesalings sjómönnunum. Það má nú víst svipað segja um margt annað. Þetta gjald er ekkert frekar tekið frá sjómönnunum heldur en útsvör síldarverksmiðjanna og annara atvinnufyrirtækja; allar slíkar álögur verka víst á svipaðan hátt.

Þá þótti mér einkennilegt, hvernig hv. þm. lauk ræðu sinni, þegar hann var að tala um, að þetta frv., sem honum þykir svo viðurstyggilegt, mundi hafa nægilega mikið fylgi á meðal borgaralega sinnaðra manna, sem gjarnan vildu leggja neyzluskatta á almenning. Það var að heyra, að hann væri alveg laus við svo ljótan hugsunarhátt; hann vildi leggja gjöldin þannig á, að þau kæmu sem réttlátast niður, taka frá efna- og hátekjumönnunum. En ég ætla bara að skjóta því til hans eigin samvizku, hvort hans flokkur hefir yfirleitt gengið nokkuð lengra í því en aðrir að koma með till. um að hækka beina skatta og taka gjöldin á þann hátt, sem hann var að tala um. Nei, þeir berja sér á brjóst, þessir herrar, og segja: Við viljum ekki skattleggja almenning, o. s. frv., en við viljum fá þetta og þetta til umbóta. Þegar spurt er um, hvar taka eigi peningana, vill verða lítið um svör. Ég álít, að þessar síðustu setningar í ræðu hv. þm. hefði hann átt að spara sér.